Samfélagsmiðlar

„Þjóðgarðinum hefur tekist að þroskast með samfélaginu“

„Það er áskorun að taka á móti skemmtiferðaskipunum. Allar rúturnar frá þeim fara að Djúpalóni en þar eru ekki til staðar innviðir til að taka á móti svo mörgu fólki. Unnið er að úrbótum og við höfum fengið fjármagn til að hefja þá uppbyggingu," segir Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður í Snæfellsjökulsþjóðgarði.

Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður

Landsvæðið sem heyrir undir Snæfellsjökulsþjóðgarð er auðvitað einstakt. Líklega hafa ekki margir efasemdir lengur um gildi þjóðgarðsins, sem dregur til sín fjölda gesta árið um kring og er farinn að skapa atvinnu í byggðunum í kring. Meðal þeirra sem flutti vestur til að sinna starfi sínu er Hákon Ásgeirsson, sem tók við starfi þjóðgarðsvarðar í Snæfellsjökulsþjóðgarði fyrir ári. Hann býr nú á Hellissandi og hitti Túrista í nýju þjónustumiðstöðinni, sem opnuð var í mars. 

Þjónustumiðstöðin á Hellissandi – MYND: ÓJ

„Þessa húss var beðið með mikilli eftirvæntingu. Það var nauðsynleg viðbót við starfsemina í þjóðgarðinum. Fyrir er gestastofa á Malarrifi. Þar er yfirfullt af gestum um háannatímann. Þetta nýja hús dreifir álaginu en þjónar ekki bara ferðafólki heldur líka samfélaginu. Hér er hægt að taka á móti skólahópum, kennslurými er í húsinu, hægt hafa viðburði og halda ráðstefnur og bjóða upp á fyrirlestra. Þá má setja upp tímabundnar sýningar í húsinu. Svo var verið að opna hér lítinn veitingastað.“

„Þetta nýja hús dreifir álaginu en þjónar ekki bara ferðafólki heldur líka samfélaginu“ – MYNDIR: ÓJ

Er nauðsynlegt að hafa tvö þjónustuhús í þjóðgarðinum?

„Það verður spennandi að sjá hvort grundvöllur sé fyrir því. Það hafði ekki verið tekin ákvörðun um hvort loka ætti á Malarrifi eða hafa opið þar aðeins yfir sumarið. Hér á Hellissandi er þjónustuhúsið hluti af þorpinu en húsið á Malarrifi er inni í þjóðgarðinum og langt er í næsta þorp. Það hefur skipt sköpum á vetrum út frá öryggissjónarmiðum að hafa miðstöðina á Malarrifi. Ef slys hefur orðið í þjóðgarðinum hefur húsið verið notað sem athvarf.“

Nýlega var opnaður veitingastaðurinn Matarlist í þjónustuhúsinu á Hellissandi – MYND: ÓJ

Hvernig hefur gengið að treysta Snæfellsjökulsþjóðgarð í sessi, sjá til þess að mörk hans séu virt og þeim lögum og reglum fylgt sem um hann gilda?

„Það hefur gengið vel. Hinsvegar hefur það tekið langan tíma fyrir þjóðgarðinn að verða hluti af samfélaginu hér. Í upphafi var þjóðgarðurinn utan samfélagsins. Ekki voru allir sáttir við hann, eins og eðlilegt er. Það er auðvitað umdeilanlegt að friðlýsa landsvæði. Margir átta sig ekki á því hvaða þýðingu það hefur. Sjálfur var ég í landvörslu hér á sumrin 2006 til 11 og fann fyrir því að stuðningur við þjóðgarðinn var ekki jafn mikill og hann var orðinn þegar ég tók við starfi þjóðgarðsvarðar í fyrrasumar. Þjóðgarðinum hefur tekist að þroskast með samfélaginu. Nú er Snæfellsjökulsþjóðgarður orðinn stolt samfélagsins.“

Fræðsluganga með landverði – MYND: Hákon Ásgeirsson

Í fyrstu hljómar yfirlýsing um stofnun þjóðgarð eins og hafa eigi opinber afskipti af fólki, skerða atvinnumöguleika og svigrúm þess til að gera það sem það er vant að gera á viðkomandi svæði. Fólk kemur kannski ekki alltaf auga á möguleikana?

„Nei. Þjóðgarðurinn er klárlega atvinnuskapandi. Hann skapar mörg afleidd störf. Fólk sem kemur hingað á Snæfellsnes ætlar sér að fara í þjóðgarðinn. Hingað til hafa störf við náttúruvernd verið að stærstum hluta skipuð fólki af höfuðborgarsvæðinu. Nú er ég að upplifa viðsnúning í þessu. Við fáum núna fólk til starfa hér úr samfélaginu, jafnvel ungt fólk sem er að flytjast til baka, það sér tækifærin og kemur hingað að vinna – í sjálfum þjóðgarðinum eða við eitthvað í tengslum við hann.  Landverðir hafa verið ráðnir tímabundið og oftast komið af höfuðborgarsvæðinu. Nú eru stöðugt fleiri þeirra héðan úr samfélaginu. Þetta skiptir máli.“

Barnastund í þjóðgarðinum – MYND: Hákon Ásgeirsson

Eru hugmyndir fólks um þjóðgarða að breytast?

„Hugmyndafræðin hefur breyst mikið með auknum ferðamannastraumi. Þjóðgarðar eru orðnir miðpunktar sem laða að sér þá sem koma til landsins. Að baki hugmyndinni um stofnun fyrsta þjóðgarðsins á Þingvöllum var ekki ferðaþjónusta. Þetta var helgidómur Íslendinga. Nú hefur Umhverfisstofnum umsjón með þessum svæðum, nema Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarði.  Hugmyndin manna að baki því að friðlýsa svæði og stofna þjóðgarða er að þjónusta samfélögin og í sumum tilvikum fá landeigendur til að tryggja að land verði ekki fyrir of miklum ágangi, t.d. ferðamanna, eða af einhverri starfsemi. Svo þarf að búa svo um að þjóðagarðar og friðlýst svæði geti tekið á móti fólki án þess að gengið sé á náttúruna.“

Menningarminjar og náttúra – MYND: Hákon Ásgeirsson

Hefur náðst þokkalegt jafnvægi hér í Snæfellsjökulsþjóðgarði í samspili náttúru og ferðaþjónustu?

„Það eru svæði innan þjóðgarðsins sem eru undir miklu álagi. Við getum nefnt Djúpalónssand. Þar vantar innviði til að taka sómasamlega á móti öllum þeim fjölda sem kemur þangað. Síðan Landsáætlun til uppbyggingar innviða til verndar náttúrur og menningarsögulegum minjum kom til höfum við fengið mun meira fjármagn til að byggja upp innviði.

Það sem oft vantar helst eru framtíðaráætlanir. Við hér erum með mjög góða stjórnunar- og verndaráætlun. Hér erum því með framtíðarsýn varðandi svæðið. Vitum hvað við viljum byggja upp og hvernig við ætlum að gera það. Áður vorum við í því að slökkva elda: Við verðum að setja klósett hér og bílastæði þarna! Nú fylgjum við áætlun en erum auðvitað alltaf til í að fá meira fjármagn til að byggja upp innviði. Ferðamönnum fjölgar svo hratt. Við erum t.d. að glíma við hraða fjölgun skemmtiferðaskipa hingað á Snæfellsnes. Það er áskorun að taka á móti skemmtiferðaskipunum. Allar rúturnar frá þeim fara að Djúpalóni en þar eru ekki til staðar innviðir til að taka á móti svo mörgu fólki. Unnið er að úrbótum og við höfum fengið fjármagn til að hefja  þá uppbyggingu.“

„Við erum t.d. að glíma við hraða fjölgun skemmtiferðaskipa hingað á Snæfellsnes“ – MYNDIR: ÓJ

Er hægt að tala um að komur skemmtiferðaskipanna skapi vandræði?

„Ég held að við séum að bregðast mjög vel við hér á Snæfellsnesi. Grundarfjarðarbær, þangað sem flest skipin koma, er fyrsta sveitarfélagið á landinu til að setja kvóta á þann fjölda fólks sem tekið er á móti á einum degi. Við erum líka í heildstæðri stefnumótunarvinnu með skipafélögunum og öllum sveitarfélögum á Snæfellsnesi um að setja fram leiðbeiningar til skemmtiferðaskipanna – um það hvernig við ætlum að taka á móti gestunum og að hverju skipaútgerðirnar þurfi að huga áður en komið er með gestina. Tilgreindir verða þeir staðir sem ekki eru ætlaðir fyrir stórar rútur en líka á hvaða staði æskilegt væri að fara með stóra hópa.“

Verður þá tilkynnt um að uppselt sé inn á Djúpalónssand þennan eða hinn daginn?

„Við sjáum fyrir okkur þegar við verðum komin með nýju bílastæðin setji þau mörkin: Þegar þau verða full komist ekki fleiri. Svo er spurningin um háannatímann að pantað sé fyrir hópa til að koma í veg fyrir vonbrigði þeirra sem komnir eru til að sjá tiltekna staði.“

Í afgreiðslunni á Hellissandi – MYND: ÓJ

Samkvæmt lögum eigið þið að verja náttúruna. Það er ekki ykkar hlutverk að þjónusta ferðafyrirtækin – gera allt sem þau vilja – er það?

„Fyrsta verkefni okkar er að vernda náttúruna en það er líka veigamikið hlutverk okkar að fræða og upplýsa um náttúruna og náttúruvernd. Þessi friðlýsingarflokkur, þjóðgarður, þýðir að við eigum að  byggja svæðið þannig upp að við getum tekið á móti gestum.“

Þetta verður þá alltaf leit að jafnvægi, er það ekki?

„Það verður það. Við erum með svæði þar sem ekki er ætlast til að verði nein uppbygging, t.d. Hornstrandir. Þar er ekki ætlast til að verði byggt. Þær eru í þeim friðlýsingarflokki að þar verður ekkert byggt. Náttúran á að vera ósnortin. Svo er Surtsey. Þangað má enginn fara nema án leyfis.“

Snæfellsjökulsþjóðgarður er friðland refa, sem eru gæfir. Stofninn er í jafnvægi – MYND: Alin Rusu

Þú hefur nefnt stað eins og Djúpalónssand, sem er alltaf vinsæll meðal ferðamanna. Sérðu fyrir þér að það megi beina fólki meira á aðra staði?

„Við erum alltaf að vinna að því hvernig dreifa megi álaginu. Sum svæði taka mjög vel á móti miklum fjölda og við viljum gjarnan halda því þannig til að hlífa öðrum svæðum. Ferðamenn búa líka sjálfir til sína staði, t.d. er Saxhóll, sem er gígur, allt í einu orðinn annar vinsælasti staðurinn í þjóðgarðinum. Á Saxhóli er leynt álag, gígurinn er farinn að síga – fletjast út. Við því þurfum við að bregðast. Þarna varð rosalega vinsæll staður en innviðir engir.“

Er þetta frægð á Instagram?

„Já, að stórum hluta. Ferðamennirnir markaðssetja oft sjálfir staðina á Íslandi. Mest heimsótti staðurinn á Snæfellsnesi er auðvitað Arnarstapi, sem er á friðlandi , svæðið meðfram ströndinni er í okkar umsjón. Svo er annað friðland við Búðir, og Bárðarlaug fyrir ofan Hellna.“

Manni þykir nú svo sem alveg nógu mikil bílaumferð á Snæfellsnesi en má ekki búast við að vinsældir þess eigi enn eftir að aukast?

„Jú, alveg örugglega. Suðurland er alltaf vinsælt en spurningin er hvort ferðamynstur breytist. Það er að aukast að við fáum hingað fólk í dagsferðum. Það virðist ganga upp – að fólk fari alla þessa leið, fram og til baka, á einum degi.“

Þá verða þau í Stykkishólmi súr, finnst að fleiri mættu fara þangað.

„Já, en við eigum gott samstarf af því að þjóðgarðurinn er hluti af Svæðisgarði Snæfellsness, sem sameinar öll sveitarfélögin í þeirri viðleitni að stýra þessu öllu. Það eru tækifæri í því að dreifa álaginu, ekki aðeins innan þjóðgarðsins heldur á öllu Snæfellsnesi. Svo verðum við að muna að þjóðgarðurinn er garður allrar þjóðarinnar ekki bara íbúa Snæfellsbæjar.“

„Það eru tækifæri í því að dreifa álaginu“ – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Þegar heimsfaraldurinn hófst í febrúar árið 2020 lækkaði gengi hlutabréfa í ferðaþjónustufyrirtækjum hratt og hjá Icelandair fór það niður um þrjá fjórðu fyrstu mánuðina eftir að landamærum var lokað til að hefta útbreiðslu veirunnar. Gengið hélt svo áfram að lækka fram á haustið þegar efnt til hlutafjárútboðs þar sem hver hlutur var seldur á 1 …

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …