Samfélagsmiðlar

Evrópsk útþynning í baráttu gegn bílamengun

Ráðherraráð Evrópusambandsins féllst ekki á harðar aðgerðir gegn hættulegri örmengun frá bílum sem Framkvæmdastjórnin hafði lagt til. Fulltrúar Dana eru mjög ósáttir og segja brýnt að grípa til aðgerða. Talið er að bílamengun valdi ótímabærum dauðdaga um 300 þúsund Evrópubúa á ári hverju.

Bílaumferð, fólk og matur í miðborg Aþenu

Átta ríki Evrópusambandsins gátu ekki fallist á tillögur Framkvæmdastjórnarinnar um aðgerðir til að minnka loftmengun frá bílaumferð. Meðal þessara ríkja voru bílaframleiðsluríkin Frakkland, Ítalía og Tékkland, sem halda því fram að harðari reglur geti dregið úr áhuga á fjárfestingum í rafbílaiðnaði. Evrópusambandið hefur jafnt og þétt síðustu 30 árin hert kröfur um að bílar mengi minna. Nýjasta útspil Framkvæmdastjórnarinnar í þeim efnum nefndist Euro 7 og fól í sér tillögur um takmörk á því hversu mikil örmengun má berast út í andrúmsloftið frá bremsubúnaði og dekkjum bifreiða. 

Bílaumferð í miðborg Parísar – MYND: ÓJ

Fulltrúar Frakka, Ítala og Tékka í Ráðherraráðinu beittu sér hart gegn tillögum Framkvæmdastjórnarinnar og héldu því fram að takmarkanir á losun mengandi efna eins og nituroxíðs frá sprengihreyflum gæti orðið til að trufla þróun í framleiðslu rafbíla og dregið úr áhuga fjárfesta. Fallist var á útvatnaða sáttatillögu Spánverja sem fara nú með formennsku í Ráðherraráðinu. Það verkefni bíður nú helstu valdastofnana Evrópusambandsins: Ráðherraráðsins, Evrópuþingsins og Framkvæmdastjórnarinnar að finna nýja sáttaleið í baráttunni við að minnka loftmengun frá bílaumferð sem veldur ótímabærum dauða um 300 þúsunda manna á ári hverju. 

Ítalir fögnuðu bitlítilli niðurstöðunni í Ráðherrarráðinu og sögðu hana lýsa raunsæi, tryggt hefði verið að aðfangakeðjur gætu áfram skilað sínu ótruflaðar. Smíði á glæsikerrum eins og Ferrari, Lamborghini og Maserati yrði óröskuð en um 50 þúsund bílar af þessum gerðum eru framleiddir á ári hverju. 

Ferrari á götunni – MYND: Jesse G-C/Unsplash

Danir leyndu hinsvegar ekki óánægju sinni með niðurstöðuna í Ráðherraráðinu. Morten Bødskov, atvinnuvegaráðherra, greiddi atkvæði gegn málamiðlunartillögu Spánverja og var mjög ósáttur með niðurstöðu málsins – að í stað þess að herða mengunarmörkin standi til að auka svigrúmið:

„Þetta er ömurlegt. Þessi mengun er ógn við lýðheilsu. Umferðarþrengsl verða áfram á vegum okkar og frá þeim mun stafa meiri loftmengun og hávaði,“ sagði ráðherrann danski eftir atkvæðagreiðsluna í Brussel.

Hann benti á það í samtali við Danska útvarpið að með þessu færi forgörðum tækifæri fyrir Evrópu að leiða umbreytingu bílaiðnaðarins í heiminum. Bandaríkjamenn og Kínverjar framleiddu þegar bíla sem uppfylltu þær kröfur sem gera ætti en pólitísk forysta Evrópusambandsins treysti sér ekki til að styðja. 

Martin Bødskov, atvinnuvegaráðherra Dana – MYND: Facebook/MB

Morten Bødskov gefur lítið fyrir fullyrðingar þeirra sem halda því fram að nauðsynlegt hafi verið að slaka á mengunarkröfunum til að veikja ekki samkeppnisstöðu evrópskra framleiðenda. Evrópa hafi verið í fararbroddi í að þróa grænar tæknilausnir og við að umbreyta samgöngum í vistvænna horf. Nú hafi verið slakað á þrýstingi á að enn meiri framfarir yrðu og þannig dregið úr líkum á því að Evrópa haldi forystusætinu til framtíðar. 

Þessi niðurstaða í Ráðherraráðinu kemur í kjölfar fleiri ákvarðana og ummæla evrópskra ráðamanna sem benda til að dregið hafi úr vilja til hraðra orkuskipta. Bæði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og þýski fjármálaráðherrann Christian Lindner hafa varað við því að Evrópusambandið herði enn á loftslags- og umhverfiskröfum sínum sem geti dregið máttinn úr evrópskum iðnframleiðendum og veikt samkeppnishæfni þeirra.

Þá má búast við að allar tillögur um græna umbyltingu mæti harðri andstöðu hægrimanna á Evrópuþinginu, sem beittu sér mjög gegn tillögum á þinginu um endurheimt náttúrugæða og fengu því framgengt að orðalag þeirra var mjög mildað. Dregið var úr áhrifamætti fyrirliggjandi tilagna vegna andstöðu stórframleiðenda í bandalagslöndunum, sem töldu friðunaráform vega að hagsmunum sínum. Það horfir þess vegna ekki of vel um örlög Euro 7 í þeim samningaviðræðum sem fram þurfa að fara í valdastofnunum Evrópusambandsins á næstunni.

Venjulegur dagur í Reykjavík – MYND: ÓJ

Christel Schaldemose, þingmaður danskra Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu, segir mikla andstöðu meðal félaga hennar á þinginu við að herða á kröfum um losun frá bílum:

„Það er sláandi að ekki sé meiri vilji til að bregðast við loftmengun,“ hefur Danska útvarpið eftir henni.

Bílaumferð fær víðast mikið rými. Götumynd frá Bayeux í Frakklandi – MYND: ÓJ

Nikolaj Villumsen, þingmaður danska Einingarlistans á Evrópuþinginu, tekur eins og Schaldemose þátt í samningaviðræðum um Euro 7. Hann sagði niðurstöðuna í Ráðherraráðinu hreinan farsa:

„Það er grænþvottur að halda því fram að verið sé að draga úr loftmengun. Þetta er í anda þess sem hefur verið gerast á Evrópuþinginu, þar sem hægrimenn hafa hægt á grænni umbreytingu. Ef ekki verður breyting á mun Evrópa dragast aftur úr. Ég mun berjast á hæl og hnakka fyrir þvi að fólk verði betur varið fyrir hættulegri örmengun – en það er sannast sagna við ramman reip að draga.“

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …