Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll verður að öllu óbreyttu 41 prósenti meiri síðustu þrjá mánuði ársins en hún var á sama tíma árið 2019. Í Evrópu er þróunin allt önnur því umferðin verður 7 prósentum minni en hún var í október, nóvember og desember árið 2019.
Á Keflavíkurflugvelli er ekki heldur langt í að metárið 2018 verði jafnað, eins og Túristi fór yfir í grein í lok ágúst en síðast þegar framboðið var svo mikið þá gekk rekstur íslenskra flugfélaga hrikalega illa.
Í dag standa flugfélögin betur en staða þeirra fer hratt versnandi. Það hafa stjórnendur þeirra staðfest nú í lok sumarvertíðar.
Í síðustu viku gáfu stjórnendur Play það út að tapreksturinn yrði meiri en gert hafði verið ráð fyrir en félagið hefur nú þegar tapað 14 milljörðum króna frá því að það hóf áætlunarflug.
Í gærkvöld tilkynnti Icelandair svo að hagnaðurinn í ár yrði nokkru minni en lagt var upp með.
Í tilkynningum beggja flugfélaga er tekið fram að bókunarstaðan sé sterk en versnandi horfur skrifist helst á hækkandi olíuverð. Hjá Icelandair dregur tap af fraktflutningum líka afkomuna niður.
Óhætt er að segja að fjárfestar hafi tekið til fótanna nú í morgun því nú hafa hlutabréfin í Icelandair fallið um tíund í viðskiptum – upp á meira en einn milljarð króna. Gengið hefur lækkað um 20 prósent í september og markaðsvirði félagsins er komið niður í rétt rúma 60 milljarða kr. Lækkunin frá því um mitt þetta sumar nemur 30 milljörðum.
Hlutabréfin í Play hafa lækkað ennþá meira eða um 28 prósent síðustu tvær vikur. Markaðsvirði félagsins er núna tæpi 8 milljarðar kr. en var um 12 milljarðar um mitt sumar.
Fullyrðingar stjórnenda flugfélaganna um góða bókunarstöðu hafa því ekki róað fjárfesta sem telja mögulega litlar líkur á að Icelandair og Play nái að hækka fargjöldin til að standa undir hærra eldsneytisverði. Alla vega ekki á sama tíma og þau fljúga oftar en ekki til sömu áfangastaða.
Formlega hefst vetraráætlun fluggeirans í lok október og ennþá er ekki að sjá að stjórnendur Icelandair eða Play ætli að draga úr áformum sínum í vetur. Erlendu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli hafa aftur á móti dregið úr í samanburði við stöðuna í árslok 2019.