Það eru sex norræn flugfélög skráð á hlutabréfamarkað og í gær lauk sumarvertíð sem var óvenju góð. Það hefur nefnilega komið ítrekað fram í máli forstjóra flugfélaga víða um heim að undanförnu að eftirspurnin í sumar hafi verið mikil þrátt fyrir hátt farmiðaverð. Þoturnar voru því þéttsetnar en þessi þróun endurspeglast þó ekki í hlutabréfaverði allra flugfélaga.
Markaðsvirði Icelandair er til að mynda jafn hátt í dag og það var þegar Kauphöllin opnaði að fimmtudagsmorguninn 1. júní sl. Gengi hlutabréfa í Norwegian hefur fallið um 31 prósent síðustu þrjá mánuði og lækkunin hjá Finnair nemur 9 prósentum.
SAS hefur sömuleiðis lækkað en mikil viðskipti með bréf félagsins þykja óvenjuleg enda ljóst að núverandi hlutafé verður afskrifað að mestu í tengslum við hlutafjáraukningu sem nú er unnið að.
Gengi bréfa í Play og Norse hefur aftur á móti hækkað verulega eins og sjá má hér fyrir neðan.
Markaðsvirði Play hefur því hækkað um 27 prósent í sumar en bréf félagsins höfðu reyndar lækkað mjög hratt í maí en hafa rétt úr sér í sumar.
Hástökkvari sumarsins er samt Norse Atlantic sem einnig hóf flugrekstur í heimsfaraldrinum. Bréf félagsins hafa hækkað um 60 prósent síðustu þrjá mánuði sem skýrist meðal annars af umtalsverðum kaupum fjárfestingafélags í Mónakó á hlutabréfum í norska flugfélaginu.