Samfélagsmiðlar

Of mikið álag veldur óánægju

Meðal þess sem líklegt er að skýri vaxandi óþol landsmanna gagnvart fjölda erlendra ferðamanna er troðningur sem fylgir komum skipafarþega á afmörkuð svæði. Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi, segir að öngþveiti geti myndast.

Ferðamannahópur við Seljalandsfoss

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Túrista í ágúst og birt var í nýliðinni viku kom fram að 58 prósent aðspurðra telja að erlendir ferðamenn hafi verið of margir á landinu í sumar. Þeir sem voru þessarar skoðunar skiptust í tvo hópa: 21 prósent taldi ferðamennina hafa verið alltof marga en 37 prósentum þóttu þeir heldur of margir. Þessar tölur endurspegla töluverðar áhyggjur af þróuninni í ferðaþjónustunni. Sérstaklega á það við um eldra fólk. Samkvæmt könnuninni telja þrír af hverjum fjórum sem komnir eru yfir 65 ára aldur ferðamennina of marga. Tveir af hverjum fjórum sem eru á aldrinum 55 til 64 eru sama sinnis. Aftur á móti er innan við helmingur fólks á aldrinum 18 til 34 á þessari skoðun. Fólkið sem man Ísland fyrir daga fjöldatúrismans tregar kannski liðna tíð.  

Myndin að ofan sýnir helstu niðurstöður könnunar Gallup fyrir Túrista í ágúst 2023

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, sagði aðspurður að þessar niðurstöður kæmu sér ekki sérstaklega á óvart miðað við hvernig umræðan um ferðaþjónustuna hefði verið í sumar. Honum þótti forvitnilegt að yngra fólkið væri jákvæðara gagnvart ferðamönnunum. Hann sagði að kannanir, eins og sú sem Gallup gerði fyrir Túrista, nauðsynlegar: „Við verðum stöðugt að vakta viðhorf heimamanna enda eru þau sjónarmið þeirra afar mikilvæg.“ 

This image has an empty alt attribute; its file name is Seljalandsfoss1-1200x800.jpeg

Bílastæði við Seljalandsfoss – MYND: ÓJ

Könnun Túrista bendir ótvírætt til þess að pirrings gæti meðal íbúa landsins gagnvart hraðri fjölgun ferðamanna eftir kyrrstöðuna og friðinn í heimsfaraldrinum. En það er auðvitað líka athyglisvert að 40 prósent aðspurðra telji að fjöldi erlendra ferðamanna í sumar hafi verið hæfilegur. Kannski þarf ekki mikla stýringu á vinsælustu áfangastöðum erlendra ferðamanna hérlendis til að gera heimamenn sáttari.

Sumardagur á Akureyri – MYND: ÓJ

Augljósast væri að setja takmörk á komur skemmtiferðaskipa, jafna álagið sem þeim fylgir – ekki síst í bæjum eins og Ísafirði og á Akureyri, þar sem loftmengunin og mannfjöldinn sem komum þeirra fylgir hefur vakið óánægju og umræður. Þá blasir líka við að yfir háönnina er of margt fólk í Almannagjá á Þingvöllum, við Geysi og Gullfoss, svo nefndir séu bara þrír staðir. Blaðamaður Túrista var við Seljalandsfoss í sumar og aðkoman þar minnti hann á löngu liðnar útihátíðir.

Skemmtiferðaskip sigla hringinn í kringum landið og viðkomustöðum fjölgar. Grundarfjörður nýtur vaxandi vinsælda. Á þessu ári eru boðaðar 63 skipakomur til Grundarfjörður og áætla má að með þeim komi yfir 50 þúsund farþegar. Á Grundarfirði byrja allir á því að dáðst að Kirkjufelli en þaðan er svo stutt að fara í Snæfellsjökulsþjóðgarð og á eftirminnilega staði í grennd við hann.

Snæfellsnesið er auðvitað einstakt, paradís ferðamannsins, með stórbrotinni náttúru og áhugaverðum menningarminjum. Þjóðgarðsvörðurinn Hákon Ásgeirsson og hans fólk sinnir vaxandi fjölda gesta, sem auðvitað reyna á alla innviði – og að sjálfsögðu náttúru svæðisins. 

Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður – MYND: ÓJ

„Í Snæfellsjökulsþjóðgarði og á náttúruverndarsvæðunum á Búðum og Arnarstapa eru afmarkaðir áfangastaðir ferðamanna sem fara yfir þolmörk hvað varðar fjölda fólks endrum og eins. Það gerist yfir sumarmánuðina að of margt fólk kemur saman á sama tíma á litlu svæði sem veldur því að bílastæði verða yfirfull og rúmlega það, langar biðraðir verða á salerni og umferðahnútar reyna mjög á bílstjóra, bæði rútu og einkabíla,“

segir Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður, sem hefur aðsetur í nýrri Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi, sem er hliðið að Snæfellsjökulsþjóðgarðinum á norðanverðu nesinu. Hákon var beðinn að bregðast við Gallup-könnuninni fyrir Túrista. Hann segir að þegar margt fólk safnist á sama tíma á lítil og afmörkuð svæði hafi það áhrif á upplifun hvers og eins: 

„Þetta getur haft neikvæð áhrif á þá sem heimsækja svæðið þar sem bið er eftir að fá bílastæði og jafnvel gengur erfiðlega að komast út af svæðinu aftur. Einnig getur fólk þurft að eyða drjúgri stund í biðröð eftir að komast á salerni. Þá hefur þetta neikvæð áhrif á suma ferðaþjónustuaðila á svæðunum þar sem of margt fólk flykkist inn á veitingastaði til þess eins að freysta þess að komast á salerni. Það hefur líka neikvæð áhrif á gesti veitingahúsa sem koma þangað til að njóta matar og drykkja í ró og næði.“

Rútur í Snæfellsjökulsþjóðgarði – MYND: ÓJ

Og það eru skemmtiferðaskipin sem valda mestu álagi á Snæfellsnesi, segir Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður: 

„Mesti gestafjöldi á áningastöðum er þegar skemmtiferðaskip eru í höfn. Þá myndast undantekningalaust, ef um stór skip er að ræða, umferðaröngþveiti á einstaka áfangastöðum, langar raðir á salerni og gestastofa verður yfirfull af fólki. Til þess að bregðast við þessum neikvæðu áhrifum er mikilvægt að samtal eigi sér stað milli aðila sem eru að nýta þjónustuna og þeirra sem bjóða upp á hana. Tryggja verður að gestir svæðanna fái ekki neikvæða upplifun af áfangastöðunum og að viðskiptavinir skemmtiferðaskipa lendi ekki í því að þurfa að eyða drjúgum tíma sínum í oft stuttu stoppi, í biðröð til að komast á salernið.“

Þessi lýsing þjóðgarðsvarðarins á Snæfellsnesi lýsir vel upplifun margra landsmanna á þessu sumri sem er að kveðja. Eftir á að koma í ljós hvort stjórnvöld  taki ábendingum um þörf á skýrari stefnu og betri stýringu á straumi ferðamanna um landið. 

Við Gullfoss í sumar – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …