Nú liggja lokatölur sumarsins fyrir hjá Icelandair því félagið birti nú í kvöld farþegatölur fyrir síðasta mánuð. Samkvæmt þeim flaug félagið rúmlega 547 þúsund farþegum í ágúst og þar af nærri 25 þúsund til og frá Reykjavíkurflugvelli. Langflestir áttu því leið um Keflavíkurflugvöll.
Farþegahópurinn í ágúst var 7 prósent fjölmennari en á sama tíma í fyrra en sætaframboðið jókst mun meira eða um 16 prósent. Tómu sætin í flugvélum Icelandair voru því hlutfallslega fleiri. Sætanýtingin lækkaði í takt við þetta úr 89 prósentum niður í 84 prósent.
Það er nokkuð lægra hlutfall en vanalega á þessum tíma árs jafnvel þó Icelandair noti nú í auknum mæli minni flugvélar en á árunum fyrir heimsfaraldur.
„Það er ánægjulegt að sjá farþegatölur ágústmánaðar og að farþegafjöldi er á svipuðum slóðum og árið 2019, síðasta heila starfsár fyrir heimsfaraldur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu og bætir því við að árangurinn á Norður-Ameríkumarkaði hafi verið mjög góður.
Ferðamenn á leið til Íslands voru fjölmennastir í þotum Icelandair í síðasta mánuði og voru þeir 13 prósent fleiri núna en á sama tíma fyrra. Hlutfall farþega sem hefja ferðalagið á Íslandi hefur lækkað í takt við aukin umsvif í ár.
Þó háannatíminn í flug- og ferðageiranum sé nú að baki þá hefst vetraráætlunin ekki formlega fyrr en í lok október. Og eins og áður hefur komið fram verður áætlun vetrarins sú umfangsmesta í sögu Icelandair.
„Við höldum áfram að bjóða upp á nýjungar í vetur og munum til dæmis fljúga tvisvar á dag flesta daga vikunnar til Boston og New York. Vetraráætlun okkar er sú til þessa með fleiri heilsársáfangastöðum en áður en Baltimore, Raleigh-Durham, Róm og Vancouver bætast nú í þann hóp. Þá hlökkum við til að hefja flug frá Akureyri beint til Keflavíkur sem mun tengja inn í flugáætlun okkar til Evrópu yfir fimm vikna tímabil í haust,” útskýrir forstjóri Icelandair.