Samfélagsmiðlar

Sjóðastýringafyrirtækin stærst í Play en vilja ekki tjá sig um stöðuna

Gengi hlutabréfa í Play hefur lækkað hratt eftir að tilkynnt var að tap ársins yrði meira en lagt var upp með. Markaðsvirði félagsins er komið niður í 7,5 milljarð kr. Tvö sjóðastýringafyrirtæki fara með nærri í fjórðungs hlut í flugfélaginu.

Stór hluti af þeim vexti sem framundan er á Keflavíkurflugvelli næstu mánuði skrifast á stækkun Play. Icelandair mun þó áfram standa undir meira en helmingi flugferða.

Stærstu hluthafar Play lögðu flugfélaginu til 2,3 milljarða króna í nóvember í fyrra og borguðu þá 14,6 krónur fyrir hvern hlut. Við opnun Kauphallarinnar í dag kostar hluturinn 8,75 kr. og hefur hann ekki verið ódýrari frá því að félagið var skráð á markað sumarið 2021. Lækkunin nemur 40 prósentum frá útboðinu fyrir 10 mánuðum síðan.

Það voru nokkrir fjárfestar sem nýttu hlutafjárútboðið í nóvember í fyrra til að auka hlutdeild sína í Play, þar á meðal lífeyrissjóðurinn Birta og sjóðastýringafyrirtækin Stefnir og Íslandssjóðir. Það fyrrnefnda er í eigu Arion banka og það síðarnefnda í eigu Íslandsbanka.

Um síðustu mánaðamót áttu fjórir sjóðir á vegum Íslandssjóða samtals 10,82 prósenta hlut í Play, ögn meira en stærsti einstaki hluthafinn, Leika fjárfestingar, sem á 10,78 prósent. Þetta má sjá á yfirliti yfir 20 stærstu hluthafana sem er birt mánaðarlega á heimasíðu Play.

8 Íslandssjóðir með hlut í Play

Gera má ráð fyrir að Íslandssjóðir eigi ennþá stærri hlut en kemur fram á listanum því samkvæmt árshlutareikningi Íslandssjóða, fyrir fyrri hluta 2023, voru 8 sjóðir í eigu Íslandssjóða skráðir fyrir hlutabréfum í Play.

Spurður um heildareign Íslandssjóða í flugfélaginu þá vísar Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri sjóðastýringafyrirtækisins, á fyrrnefnt árshlutauppgjör. Á því er hins vegar ekki hægt að sjá hver heildarhlutur Íslandssjóða í flugfélaginu er í dag og því ekkert gagn af þessu yfirliti.

Túristi hafði það eftir Kjartani Smára í ársbyrjun að hjá Íslandssjóðum hefði tiltrúin á viðskiptalíkan Play aukist og horft væri björtum augum til framtíðar félagsins. Þann 7. september sl. felldu stjórnendur flugfélagsins aftur á móti niður afkomuspá sína enda útlit fyrir að tap ársins verði meira en áður var reiknað með. Um mitt þetta ár hafði Play tapað samtals um 14 milljörðum króna frá því að félagið hóf flugrekstur árið 2021 en til samanburðar hefur félagið fengið rúmlega 12 milljarða króna frá hluthöfum sínum.

Kjartan Smári segist ekki vilja leggja mat á fjárfestingunni í Play í dag né segja til um hvort Íslandssjóðir muni veita flugfélaginu aukið hlutafé, verði eftir því leitað, í vetur.

„Við erum alla jafnan ekki að tjá okkur opinberlega um fjárfestingarákvarðanir eða hvernig við horfum á hlutina fram á veginn. Við kjósum því að tjá okkur ekki um málið,“ skrifar Kjartan Smári í svari til við fyrirspurn Túrista.

Það eru í raun ekki mörg fyrirtæki skráð á markað hér á landi og sjóðastýringafyrirtækin eiga því skiljanlega hlut í keppinautum. Í síðustu viku fór til að mynda sameiginlegur hlutur Íslandssjóða og Íslandsbanka í Icelandair niður fyrir 5 prósent og var það því tilkynnt til Kauphallarinnar.

Þar kom þó ekki fram hvort það var bankinn sjálfur eða sjóðastýringafyrirtækið sem seldi en þess má geta að Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandaair, er stjórnarformaður Íslandssjóða.

Stefnir væntanlega líka með stærri hlut

Stefnir er með tvo sjóði á listanum yfir 20 stærstu hluthafana í Play og eiga sjóðirnar samtals 10,73 prósent hlut í flugfélaginu. Í sumar staðfesti Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, að sjóðir fyrirtækisins hefðu þá átt stærri hlut en fram kom á listanum. Jón vill ekkert segja í dag um stöðuna í dag.

„Það hefur verið stefna félagsins í mörg ár að tjá sig ekki um einstakar fjárfestingar. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt,“ skrifar Jón í svari við fyrirspurn Túrista.

Stjórnarformaðurinn með mikið undir

Sem fyrr segir er það félagið Leika fjárfestingar ehf. sem er stærsti einstaki hluthafinn í Play með 10,78 prósent hlut. Þetta félag er að hluta til í eigu Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarformanns Play. Stefnir og Íslandssjóðir eru þó í heildina með stærri hluti en Leika fjárfestingar eins og rakið er hér að ofan.

Lífeyrissjóðurinn Birta er fjórði stærsti hluthafinn með 9,41 prósent og þar á eftir kemur fjárfestingafélagið Stoðir með 6,22 prósent en Einar Örn, stjórnarformaður Play, er meðal hluthafa í því félagi.

Matafjölskyldan dregið úr þátttökunni

Listinn yfir stærstu hluthafa Play hefur í raun lítið breyst í sumar nema hvað Eignarhaldsfélagið Mata hf. hefur selt fimmtung bréfa sinna í félaginu. Fjárfestingafélag Mata fjölskyldunnar átti um mánaðamótin síðustu 2,93 prósent hlut en hlutdeildin nam 3,71 prósenti í sumarbyrjun.

Aukið framboð byggir helst á Play

Áætlun Play fyrir komandi vetur gerir ráð fyrir miklu meiri umsvifum en í fyrra og skrifast vöxturinn á Keflavíkurflugvelli að mestu á þetta næststærsta flugfélag landsins. Síðustu þrjá mánuði ársins stefnir til að mynda í að brottförunum frá Keflavíkurflugvelli fjölgi um 41 prósent frá sama tíma árið 2019. Um sex af hverjum 10 viðbótarferðum skrifast á Play samkvæmt ferðagögnum Túrista. Hlutfallið er ennþá hærra þegar horft er til sætaframboðs því Icelandair notar núna minni þotur að jafnaði en raunin var fyrir fjórum árum síðan.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …