Það var árin 2014 til 2016 sem rekstur ferðaþjónustufyrirtækja skilaði mestri arðsemi jafnvel þó ferðamannahópurinn hafi þá verið fámennari en árin sem fylgdu. Fólk gaf sér líka lengri tíma í Íslandsferðina á þessum árum sem hagnaðurinn í ferðaþjónustunni var hlutfallslega mestur. Sérstaklega yfir sumarmánuðina.
Dvalartíminn lengdist reyndar á nýjan leik eftir heimsfaraldurinn en hefur svo styst verulega nú í sumar miðað við þær tölur sem fyrir liggja.
Þannig var meðaldvalartíminn rétt 4,1 gistinótt á hvern útlending í júní og júlí. Það er tveimur nóttum styttri tími en á sama tímabili árið 2014. Í samanburði við árin tvö á eftir var dvalartíminn líka styttri í júní og júlí en á pari við sömu mánuði árið 2017.
Árið 2018 var dvalartíminn mun styttri en áður en lengdist svo á ný þegar framboð á flugi var minna í kjölfar gjaldþrots Wow Air. Sumarið í fyrra lengdust Íslandsferðirnar en sú þróun hefur nú gengið til baka, í það minnsta í júní og júlí en gistináttatölur fyrir nýliðinn ágúst liggja ekki fyrir. Því er ekki hægt að gera upp alla sumarvertíðina.
Útreikningarnir hér að ofan byggja á tölum Hagstofunnar yfir allar skráðar gistunætur hér á landi og hins vegar talningu á útlendingum við vopnaleitina í Leifsstöð. Síðarnefnda mælingin er notuð til að leggja mat á fjölda erlendra ferðamanna hér á landi.
Eins og lesendur Túrista þekkja þá eru alls kyns skekkjur í þessum tveimur gagnagrunnum en þær eru vonandi sambærilegar milli ára. Aðeins horft til skráðra gistinátta í þessum útreikningum og heimagisting því ekki meðtalin.
Flugfélögin í miklu basli fyrir heimsfaraldur
Sem fyrr segir var arðsemi í ferðaþjónustu mest árin 2014 til 2016 samkvæmt úttekt Ferðamálastofu sem birt var í lok árs 2019. Skömmu síðar hófst heimsfaraldurinn og þá fór allt á verri veg í atvinnugreininni en hún hefur þó náð vopnum sínum síðustu misseri og viðbúið að afkoman í ár verði mun betri en síðustu ár.
Þó ekki endilega á öllu sviðum. Stjórnendur Play gáfu það til að mynda út í síðustu viku að afkoman í ár yrði verri en gert hafði verið ráð fyrir. Hjá Icelandair er gert ráð fyrir hagnaði en þó ekki eins miklum og félagið hefur sett sér markmið um að ná til lengri tíma. En eins og sjá má á töflunni hér að neðan þá var það einmitt rekstur flugfélaganna sem dró niður arðsemi ferðaþjónustufyrirtækja á árunum 2017 til 2019, jafnvel þó ferðamennirnir og farþegarnir hafa þá verið flestir. Afkoma bílaleiga versnaði líka gríðarlega á þessum árum.