Samfélagsmiðlar

Þjóðverjar ekki tilbúnir að gefast upp fyrir Kínverjum

Umhverfisverndarfólk lætur til sín heyra á IAA-bílasýningunni í München en Þýskalandskanslarinn Olof Scholz segir andmæli þeirra tímaskekkju og boðar nýja sókn í orkuskiptum í samgöngum landsins.

Olof Scholz, Þýskalandskanslari, ávarpar IAA Mobility í München

Kanslarinn og þýski jafnaðarmannaleiðtoginn, hinn 65 ára gamli Olof Scholz, hefur ekki til þessa þótt sérlega aðsópsmikill eða búa yfir áberandi persónutöfrum. Áður en hann tók við kanslaraembættinu var hann borgarstjóri í fæðingarborginni Hamborg, síðan atvinnumálaráðherra og loks fjármálaráðherra og varakanslari í samsteypustjórn Angelu Merkel, sem á löngum valdatíma náði ótrúlega sterkri stöðu með mikilli kænsku, einbeitni, alúðlegri og látlausri framkomu og stíl. Það var ekki auðvelt hlutskipti að taka við af Angelu en það kom í hlut Olof Scholz, sem státað getur af farsælum ferli til þessa.

Stóra IAA-bílasýningin í München er tvíæringur og var síðast haldin 2021 í skugga Covid-19. Þar mætti Angela Merkel til leiks með grímu fyrir vitum og undirstrikaði mikilvægi bílaiðnaðarins fyrir þýskt hagkerfi. Kínverjar voru flestir fjarverandi, komust hvergi vegna ferðabanns í faraldrinum. Þjóðverjar áttu því sviðið í bæversku höfuðborginni. Þetta var hinsvegar kveðjuheimsókn Angelu á þennan mikilvæga vettvang í þýsku atvinnulífi. Í desember 2021 tók Olof Scholz við embættinu af henni. Covid-19 linaði tökin, ferðatakmörkunum var aflétt – og meiri hraði komst á orkuskiptin í samgöngum: Ljóst varð að rafbílinn er farartæki framtíðarinnar.

Það hefur þó gengið misvel víða að byggja upp nauðsynlega innviði til að gera rafbílinn af fýsilegum kosti. Þá truflaði stríðið í Úkraínu aðfangakeðjur framleiðslunnar. Kínverjar notuðu tímann vel í faraldrinum og hafa náð forskoti í rafbílaframleiðslunni. Þjóðverjar vilja þó ekki játa sig sigraða og telja sig enn búa yfir mikilli tæknilegri hæfni og hafa á sínum snærum fremstu bílahönnuði heimsins. Mercedes-Benz og BMW hefur ekki gengið vel að undanförnu á Kínamarkaði, sem er gríðarlega mikilvægur, en framleiðendurnir vonast til að snúa vörn í sókn á IAA-bílasýningunni þar sem kínversku framleiðendurnir eru þó frekir á athygli. Olof Scholz kom grímulaus til München en með lepp fyrir öðru auganu.

Olof Scholz náði athygli allra í salnum á bílasýningunni. Þarna stóð hann krambúleraður eftir að hafa dottið þegar hann skokkaði um helgina – með lepp fyrir auga, eins og gömul stríðshetja, skylmingamaður eða sjóræningi. Olof átti salinn.

Hleðslustöð fyrir flutningabíla – MYND: Mercedes-Benz

Kanslarinn hrósaði þýska bílaiðnaðinum fyrir framlag hans til orkuskiptanna í bílasamgöngum, sagði hróp mótmælenda pirrandi og tilkynnti fyrirhugaða lagasetningu um fjölgun hleðslustöðva við hraðbrautir landsins. „Þýskaland verður fyrsta Evrópulandið sem færir í lög þá kröfu til 80% þeirra sem reka bensínstöðvar að bjóða um leið upp á hraðhleðslu, allt að 150 kílóvöttum, fyrir rafbíla.“ Olof Scholz sagði að með þessu ætti hleðslukvíði að verða úr sögunni.

Auðvitað var orðum Olof Scholz fagnað í München. Kanslarinn reynir að vera brattur og sama er að segja um leiðtoga þýska bílaiðnaðarins. Staðreyndin er hinvegar sú að rafvæðingin hefur gengið hægar en flestir vonuðust eftir. Stefnt var að því að milljón hleðslustöðvar opnar almenningi yrðu komnar í gagnið í Þýskalandi 2030 en í dag eru þær aðeins 90 þúsund. Markmiðið var líka að 2030 væru 15 milljónir rafbíla á götum landsins. Nú eru þeir aðeins 1,2 milljónir.

Helstu skýringar á því hversu hægt miðar eru hátt verð á sjálfum bílunum, of lítil drægni þeirra og það hversu hleðslustöðvar opnar almenningi eru fáar. Þjóðverjar búa að langri bílahefð og eru með gott vegakerfi en þeir hafa ekki til þessa treyst því fullkomlega að rafbíll skili þeim þangað sem þeir ætla sér.

Kanslarinn í samræðum á bási Mercedes-Benz – MYND: VDA/IAA MOBILITY

Eftir ávarp sitt gekk kanslarinn um sýninguna og voru honum kynntar margar af fremstu tækninýjungum sem þýskur bílaiðnaður státar af. Mótmælendur trufluðu heimsóknina og kanslarinn fór nokkrum orðum um boðskap þeirra: „Mótmæli eru hluti af opinni lýðræðislegri tjáningu – en þetta er dálítil tímaskekkja, með hliðsjón af því hvað er hér til sýnis, ný tækni sem stuðlar að samgöngum með minni eða engri losun í framtíðinni. Þetta er svolítið pirrandi,“ viðurkenndi Olof Scholz og bætti við: „Við getum aukið velferð okkar með frábærri iðnframleiðslu sem verður kolefnishlutlaus.“

Kanslarinn ræddi líka samkeppnina við Kína, sem Túristi hefur fjallað um að undanförnu:

„Samkeppnin ætti að hvetja okkur en ekki hræða. Á níunda áratugnum var talað um að japanskir bílar myndu yfirtaka markaðinn. Tuttugu árum síðar voru það suður-kóreskir bílar og nú er talað um að kínverskir rafbílar geri það sama.“ Kansarinn reyndi að draga úr ótta við þessa samkeppni að austan, þýskir framleiðendur væru sannalega samkeppnishæfir.

Hönnunarkynning á framtíðarbíl Mercedes-Benz af CLA Class-gerð. Rafbíll með 750 km drægni – MYND: Mercedes-Benz

Aftur er rétt að hafa staðreyndir í huga: Kínverskir bílaframleiðendur hafa náð gríðarlegum árangri á Evrópumarkaði með tiltölulega ódýra rafbíla sína. Þeirra á meðal eru BYD og Nio. Rafbílasala jókst um næstum 55 prósent, um 820 þúsund bílar seldust á fyrstu sjö mánuðum ársins, hlutur rafbíla af heildinni var 13 prósent.

Kínverjar hafa náð svo sterkri stöðu í rafbílaframleiðslu að vandséð er að þýskir bílaframleiðendur frekar en aðrir eigi kost á öðru en að taka upp meira samstarf við risann í austri, ef þeir eiga ekki að sitja eftir með sárt ennið – eins og kanslarinn eftir laugadagsskokkið.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …