Samfélagsmiðlar

Umsvifin aukist með nýjum þotum en eru þó umtalsvert undir áætlunum

Sala á fraktrými hjá Icelandair hefur ekki aukist í takt við aukið framboð segir forstjóri félagsins. Félagið leigir nú tvær stórar fraktþotur frá flugvélaleigu sem langstærsti hluthafinn í Icelandair er annar tveggja eigenda.

Icelandair hefur haft fjórar fraktvélar á sínum snærum en þeim mun fækka um eina í vetur.

Tekjur Icelandair af fraktflutningum voru innan við 5 prósent af heildartekjunum árið 2018. Hlutfallið hefur farið hækkandi síðan þá og nam tæpum 7 prósentum í fyrra. Þetta er því í raun ekki stór hluti af starfsemi flugfélagsins.

Engu að síður lækkuðu stjórnendur þess afkomuspá ársins í síðustu viku og sögðu ástæðurnar einkum tvær, hækkandi olíuverð og þungan róður hjá Icelandair Cargo.

Spurður hversu illa gangi í raun í fraktfluginu þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að „frávikin í fraktstarfseminni“ séu veruleg, bæði frá fyrra ári og frá áætlun og það hafi því talsverð áhrif á afkomuna.

Í kjölfar þess að afkomuspá ársins var lækkuð í síðustu vikur þá sagði Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo til langs tíma, upp starfi sínu hjá flugfélaginu.

Óhætt er að segja að fraktflutningar hafi blómstrað í heimsfaraldrinum en þá voru líka miklu færri farþegaþotur á ferðinni á milli landa. Framboð á fraktrými minnkaði því töluvert á heimsvísu og gjaldskráin hækkaði um helming. Það mátti þó ljóst vera að verðið myndi lækka á ný líkt og Gunnar Már fór yfir hér á síðum Túrista á sínum tíma.

Tveimur breiðþotum bætt við

Stjórnendur Icelandair kynntu í mars árið 2021 ákvörðun að auka verulega umsvifin í fraktflutningum, meðal annars með því að breyta tveimur Boeing breiðþotum, sem félagið átti, í fraktvélar. Var þetta gert með því að selja þoturnar til bandarískrar flugvélaleigu, Titan Aircraft Investments. Icelandair leigir svo þoturnar þaðan en annar eigandi Titan Aircraft Investment er Bain Capital Credit, langstærsti hluthafinn í Icelandair.

Bain Capital gerðist hluthafi í Icelandair nokkrum mánuðum eftir að fyrrnefndur samningur um fraktvélarnar var gerður snemma árs 2021. Matt Evans, fulltrúi Bain Capital í stjórn Icelandair, var í forsvari fyrir kaup sjóðsins á stórum hlut í Titan flugvélaleigunni.

Viðbótin ekki í takt við aukið framboð

Breytingum á fyrri breiðþotunni lauk í lok síðasta árs og félagið fékk þá seinni afhenta nú í vor. Með tilkomu vélanna hefur afkastagetan hjá Icelandair Cargo aukist umtalsvert því áður var félagið aðeins með tvær minni fraktflugvélar.

Stór hluti vöruflutningunum fer hins vegar fram í farþegaþotum Icelandair en félagið nýtir í auknum mæli Boeing Max flugvélar. Þær eru ekki með eins stóra lest og gömlu Boeing 757 þoturnar.

Hefur framboðið hjá ykkur aukist of mikið eða er samkeppnin að harðna?

„Eftirspurn á alþjóðlegum fraktmörkuðum hefur minnkað og auk þess hefur fiskútflutningur frá Íslandi verið minni en gert var ráð fyrir meðal annars vegna stöðu þorskkvóta innan kvótaársins og sýkingar í laxeldi. Við höfum aukið fraktrými okkar umtalsvert með því að taka í notkun stærri fraktþotur og leggjum nú aukna áherslu á að nýta Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll fyrir frakt líkt og við höfum gert í farþegafluginu um árabil. Þetta hefur orðið til þess að heildarumfang vöruflutninga í tonnum hefur aukist en vegna ástandsins á fraktmörkuðum hefur það ekki aukist í takt við aukningu í fraktrými,“ svarar Bogi Nils, forstjóri Icelandair.

Hann bætir því við að fjárfestingin í fraktflutningum sé hugsuð til lengri tíma og þau hjá Icelandair hafi fulla trú á tækifærunum en „þetta tímabundna ástand hefur þýtt að nokkuð tap hefur verið á fraktstarfseminni undanfarna mánuði.“

Losa sig við eina þotu

Í kauphallartilkynningunni sem Icelandair sendi frá sér í síðustu viku og varaði við versnandi afkomu segir að nú eigi að koma fraktfluginu í jákvæðan rekstur á ný. Spurður til hvaða aðgerða verði gripið þá segir Bogi Nils að framboð verði aðlagað að eftirspurn og eins verði leigusamningur á einni Boeing 757 fraktvél ekki framlengdur en hann rennur út í vetur. „Til lengri tíma horfum við hins vegar til vaxtar í fraktstarfseminni,“ bætir forstjórinn við.

Lufthansa eykur áhersluna á Asíu

Það er ekki aðeins hjá Icelandair sem umfangið í vöruflutningunum veldur vonbrigðum. Það er líka raunin hjá hinu norska Norse Atlantic sem heldur úti tíðum ferðum yfir Norður-Atlantshafið. Hjá Lufthansa hefur fókusinn í fraktfluginu færst á aðra markaði en nýverið tilkynnti félagið um fjölgun áfangastaða í Asíu. Af því tilefni sagði framkvæmdastjóri Lufthansa Cargo að staðan í flugfraktinni væri viðkvæm en Asía og Mexíkó væru áhugaverðir og hagstæðir markaðir fyrir flugfélagið.

Nýtt efni

Kínverjar eru leiðandi í smíði rafbíla, sem taldir eru mikilvægir vegna nauðsynlegra orkuskipta í samgöngum. Hinsvegar er Kína enn mjög háð brennslu kola, nærri 60% rafmagns í landinu er framleitt með kolum og það er enn verið að auka kolanám í landinu. Auk þess sem flutt er inn mikið af olíu og gasi. Jafnhliða er …

Það vour 1.299 bílar skráðir nýir á götuna hér á landi fyrstu þrjár vikurnar í júní og þar af 986 á vegum bílaleiga. Það jafngildir því að 24 prósent nýrra ökutækja fór til einstaklinga en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 38 prósent samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem ná til 23. júní. Þessar fyrstu þrjár …

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …