Samfélagsmiðlar

Vaxandi neysla og meiri losun

Margir stórir matvælaframleiðendur og veitingahúsakeðjur halda áfram að auka losun gróðurhúsalofttegunda þrátt fyrir að hafa sett sér markmið um að minnka hana. Neytendur krefjast loftslagsaðgerða - en hafa ekki minnkað eigin neyslu.

Við veitingastað í Aþenu. Þarna er nokkurn veginn allt í jafnvægi.

Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York lýkur á þriðjudag. Á síðustu árum hefur óánægja farið vaxandi vegna þess hversu bitlaust þetta samstarf er þegar kemur að mörgum brýnustu viðfangsefnum mannkyns. Mörgum gleymist þá að án SÞ væri svo ótal margt látið reka á reiðanum – ekki síst í umhverfismálum. SÞ hafa auðvitað gegnt lykilhlutverki í þeirri viðleitni að hægja á og helst snúa við þeirri þróun sem iðnbyltingin fyrir meira en 250 árum hratt af stað. Það er ekki síst vegna frumkvæðis SÞ sem við erum þó að reyna að gera eitthvað til að bjarga okkur sjálfum. Hinsvegar er auðvelt að halda því fram að SÞ hafi ekki gert nóg, vera svekktur yfir því að þessi alheimssamtök hafi hvorki umboð né afl til að bregðast við vandanum með markvissari aðgerðum – eins og þyrfti að gera. 

Áhyggjur af vandanum fara sannarlega vaxandi. Óþol gagnvart aðgerðaleysi eykst líka. Það hefur komið fram á starfstíma 78. allsherjarþings SÞ á þessu hausti. Margir fundir samtaka og þrýstihópa hafa verið haldnir á þingtímanum til að nýta kastljósið sem skinið hefur á New York. Fólk lýsir óánægju sinni og hagsmunaðilar reyna að finna leiðir til að mæta kröfunni um minni losun – meiri sjálfbærni.

Ávaxtamarkaður í Aþenu: Beinn aðgangur að hreinum og góðum afurðum – MYND: ÓJ

Í tengslum við allsherjarþingið í New York var haldinn fundur um sjálfbæra matvælaframleiðslu í heiminum. Þar var fylgt eftir ráðstefnu sem SÞ stóðu fyrir á Ítalíu í sumar um sama efni. Margt kom fram á fundinum sem lýsir þeim vanda sem við er að eiga og hversu mikilvægt er að hagsmunaaðilar taki höndum saman til að bjarga vistkerfi heimsins, fæðuöryggi verði tryggt með sjálfbærum hætti.

Þrýstingur á stjórnvöld einstakra ríkja og alheimssamtök eykst jafnt og þétt. Sífellt fleiri krefjast raunhæfra aðgerða. Eitt er þó að gera kröfur til annarra, annað að setja sjálfum sér mörk. Almenn neysla í velmegandi löndum fer enn vaxandi og því fylgja auðvitað áhrif á umhverfið. Hver einasti kaffibolli, hver eiansti hamborgari hefur áhrif. Þetta kemur skýrt fram í tölum sem blasa við í reikningshaldi margra stórframleiðanda matvöru og veitingahúskeðja. 

Á McDonalds-stað – MYND: Unsplash/Brett Jordan

Fyrir fimm árum sagðist McDonald-hamborgarakeðjan ætla að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um meira en þriðjung á nokkrum sviðum starfseminnar fyrir árið 2030. Svo bætti McDonalds um betur nokkru síðar og hét því að stefna sem næst kolefnishlutleysi árið 2050. 

Þetta lýsti sannarlega miklum metnaði. Gott hjá McDonalds, sagði fólk og pantaði sér borgara með bestu mögulegu samvisku.

En það er ekki nóg að lofa, verkin þurfa að tala. Í nýlegri skýrslu upplýsir McDonalds nefnilega að þrátt fyrir að vel hafi gengið á ýmsum sviðum starfseminnar og hlutfallsleg losun hafi minnkað þá er heildarlosunin að aukist vegna vaxandi umsvifa. Hún var 12 prósentum meiri 2021 en á viðmiðunarárinu 2015. Svipaða sögu er að segja af kaffihúsakeðjunni Starbucks. Losun þess jókst um 12 prósent frá 2019 til 2022. 

Kaffiþjónar að störfum á Starbucks – MYND: Unsplash/Asael Pena

The New York Times segir mörg stórfyrirtæki á matvælasviði stefna í ranga átt í losunarmálum. Könnun á umhverfisreikningi og skýrslum 20 stærstu matvælaframleiðenda og veitingahúsakeðja í heiminum leiði í ljós að meira en helmingi þeirra hefur ekki náð neinum árangri í að draga úr losun en þvert á móti aukið hana. Að stærstum hluta má rekja losunina til aðfangakeðju fyrirtækjanna, t.d. nautgripanna og hveitisins sem fer í hamborgarana og meðfylgjandi brauðmeti. Það eru þessir grunnþættir sem skýra vaxandi losun.

Jafnvel þó að stórfyrirtækjunum á matvælasviði sem hér um ræðir hafi tekist að fjarlægja eða minnka verulega plast úr umbúðum og draga úr vatnsnotkun til að auka sjálfbærni þá miðar hægt í átt að kolefnishlutleysi vegna mikils vaxtar á síðustu árum. Tekjur Starbucks jukust um 23 prósent frá 2019 til 2022. Loksins kláraðist Covid-19 og þá var gott að fá sér kaffi til að taka með sér í gönguna til vinnu. Starbucks hækkaði verðið og nýtti sér betri afkomu til að fjölga sölustöðum. Losunin jókst. Og hún á enn eftir að aukast – ekki bara hjá Starbucks, heldur líka McDonalds, Pepsico og öðrum stórfyrirtækjum á matvælasviði – á meðan neytendur auka stöðugt kaup sín.

Mikil losun fylgir nautasteikinni – MYND: ÓJ

Neyslumynstur hefur verið að breytast á síðustu árum, frá því að heimsfaraldurinn skall á. Matvælafyrirtækin finna fyrir vaxandi eftirspurn neytenda. Þá komu hnökrar á aðfangakeðjur vegna stríðsins í Úkraínu og öfga í veðurfari víða, eins og þurrka og flóða. Fyrirtækin hafa þurft að leita annað en venjulega að hráefnum til framleiðslu sinnar. Samanlögð áhrif eru meiri losun, verri lífsskilyrði fyrir manninn, verri vaxtarskilyrði í náttúrunni. 

Fiskihlaðborð felur í sér ofgnótt. Hefði dugað að fá sér minna? – MYND: ÓJ

Hvað er til ráða? Matvælaframleiðsla heimsins er ábyrg fyrir 30 prósentum losunar gróðurhúsalofttegunda. Neytendur og fjárfestar krefjast úrbóta – að áætlanir verði gerðar um aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum. Það er ekki um annað í boði. Ef ekki tekst að fæða mannkyn með umhverfisvænni hætti en hingað til munu ógnir sem stafa af hlýnun jarðar hvort eð er takmarka mjög möguleika á náttúrulegri framleiðslu matvæla. Neytendur sem krefjast úrbóta ættu kannski að hugleiða hvort þeir sjálfir séu á réttri leið í vali sínu á matvælum og hversu vel þau nýtast – hvort nokkuð fari til spillis. Svo mega einhver okkar hugsnalega minnka skammtana. 

Það er margt í deiglunni. Við stöndum á tímamótum. Það blasir við að breyta verður neyslumynstri og nýtingu hráefna. En erum við sjálf tilbúin til þess?

Nýtt efni

Um síðustu mánaðamót var greint frá því á borgarvef Amsterdam að innan marka hennar væri að finna 10 snjalldælur sem ökumenn gætu nýtt sér án endurgjalds. Það sem greinir snjalldælu frá þessum hefðbundnu, sem ökumenn geta nálgast víða til að dæla lofti í bíldekkin, er að þær tryggja að þrýstingur sé réttur. Margir ökumenn hafa …

Eins og raunin var í gær, þá fá ferðamenn ekki að fara upp á Akrópólishæðina í Aþenu um miðjan daginn vegna óvenjulega mikils hita miðað við árstíma. Engum verður hleypt upp á hæðina frá hádegi til klukkan fimm síðdegis. Sama gildir um aðra fornleifastaði í landinu, sem ferðamenn sækjast eftir að skoða. Allir sem hafa …

Í byrjun síðasta vetrar hóf Easyjet að fljúga tvisvar í viku milli London og Akureyrar. Aldrei áður höfðu áætlunarferðir verið í boði á þessari flugleið og íbúar á Norðurlandi tóku þessari nýjung fagnandi og voru í meirhluta sætanna í þotum breska flugfélagsins. Þetta mátti sjá á tölum norðlenska gististaða því breskum gestum fjölgaði ekki ýkja …

Ákvörðun Evrópusambandsins um að leggja allt að 38,1 prósents viðbótartoll á kínverska rafbíla vekur áhyggjur margra í alþjóðlega viðskiptaheiminum. Verndartollum er ætlað að hemja samkeppni að utan, reisa varnir á heimavelli, en leiða auðvitað gjarnan til þess að mótaðilinn svarar fyrir sig. Það óttast einmitt evrópskir framleiðendur, sem háðir eru viðskiptum við Kína, að gerist …

Vorið 2021, stuttu áður en Play fór í loftið í fyrsta sinn, efndi félagið til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Í kjölfarið voru bréfin skráð á First North Growth í Kauphöllinni en um þann markað gilda ekki eins strangar reglur og Aðalmarkað Nasdaq. Í tengslum síðustu hlutafjáraukningu, sem lauk í apríl síðastliðnum, var …

Viðskiptastríð vesturveldanna og Kína heldur áfram að þyngjast því fyrr í dag gaf Evrópusambandið út að 38,1 prósent innflutningstollar yrðu lagðir á kínverska rafbíla frá og með næsta mánuði. Sú hækkun bætist við þann 10 prósent toll sem í dag ríkir á innflutning rafbíla frá Kína til aðildarríkja ESB. Þessi viðbótartollur hefur verið yfirvofandi síðustu …

Það var í júní 2014 sem breska lággjaldaflugfélagið Flybe, sem nú er gjaldþrota, hóf áætlunarflug til Íslands frá Birmingham. Flugleiðin stóð ekki undir væntingum stjórnenda Flyby og var lögð niður eftir níu mánuði. Þá tók Icelandair við keflinu og hélt úti tíðum ferðum milli Íslands og þessarar næstfjölmennustu borgar Bretlands fram í ársbyrjun 2018. Síðan …

Í Bandaríkjunum eru lestarsamgöngur ekki eins góðar og í Evrópu og þurfa þeir sem ætla að sækja komandi landsfundi Demókrata og Repúblikana annað hvort að keyra eða fljúga á fundarstað. Af þeim sökum hefur bandaríska flugfélagið United Airlines bætt við 118 flugferðum til og frá Chicago í ágúst í tilefni af landsfundi Demókrata. Repúblikanar hittast …