Samfélagsmiðlar

Konur og ferðaþjónusta

Víðast í heiminum eru konur í meirihluta þeirra sem starfa við ferðaþjónustu en flestar eru þær lágt settar og sinna verst launuðu störfunum - líka ólaunuðum. „Ferðaþjónusta er mjög spennandi vettvangur fyrir íslenskar konur," segir formaður SAF í viðtali við Túrista í tilefni dagsins.

Konur í öllum hlutverkum

Viðurkennt er að ferðaþjónusta gegnir mikilvægu hlutverki í baráttunni við að ná heimsmarkmiðinu um sjálfbærni fyrir 2030, sérstaklega þegar kemur að jafnrétti kynjanna og um valdeflingu kvenna og stúlkna, eins og kveðið er á um í heimsmarkmiði númer 5. En samkvæmt framvinduskýrslu um stöðu heimsmarkmiðanna sem nýlega var gefin út er heimurinn að bregðast konum og stúlkum. Það er enn óralangt í að markmið um jafnrétti náist. 

Alþjóða ferðamálastofnunin lítur á það sem hlutverk sitt að stuðla að því að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á stöðu kvenna. Þessi skrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur síðustu árin unnið með UN Women og fjölda samtaka, stofnana og fyrirtækja vítt og breitt um heiminn að því að koma kynjamálefnum á dagskrá í ferðaþjónustu og stuðla að því að jafnrétti og valdefling kvenna séu tekin með í reikninginn þegar unnið er að stefnumótun á sviði ferðamála. 

Meirihluti þeirra sem starfa og halda uppi ferðaþjónustu í heiminum eru konur, eða 54 prósent, samkvæmt tölum Alþjóða ferðamálastofnunarinnar. Það hlutfall endurspeglar hinsvegar ekki völd þeirra og áhrif í þessari stóru starsgrein. Þegar einungis er horft á efsta lag í skipuritum stærstu ferðaþjónustufyrirtækjanna er fáar konur að sjá. Staðan á Íslandi er að mörgu leyti önnur.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF – MYND: ÓJ

Bjarnheiður Hallsdóttir er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, þessarar gríðarlega öflugu atvinnugreinar á Íslandi. Hún er jafnframt varaformaður Samtaka atvinnulífsins.

Hvernig horfir hlutur kvenna í ferðaþjónustu við þér?

„Þegar ég hóf störf í ferðaþjónustu fyrir um 30 árum, þá var hún karlaveldi – hvernig sem á hana var litið. Henni var stjórnað af körlum að langmestu leyti og þeir opinberu starfsmenn, sem höfðu með málefni hennar að gera, voru líka karlar. Þetta hefur gjörbreyst. Að vísu eru ekki margar konur sem stýra allra stærstu fyrirtækjum greinarinnar – frekar en í öðrum atvinnugreinum – en þær eru óteljandi, þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eru mörg í eigu kvenna og stýrt af þeim. Konur eru sömuleiðis mjög áberandi í stöðum millistjórnenda í ferðaþjónustu – í öllum greinum hennar. Hvað völd varðar, þá er kona nú í fyrsta skipti (síðan 2018) formaður Samtaka ferðaþjónustunnar – og er að auki varaformaður Samtaka atvinnulífsins. Í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar sitja 4 konur og 3 karlar. Síðustu þrír ráðherrar málaflokksins hafa verið konur, og forstöðumenn ýmissa stofnana sem snerta ferðaþjónustu eru konur,“

segir Bjarnheiður.

Hún bendir þó á að opinberar tölur um kynjaskiptingu og tekjur eftir mismunandi greinum ferðaþjónustunnar séu af skornum skammti en telur að hlutur kynja í einkennandi greinum sé nokkuð jafn. Bjarnheiður nefnir í því sambandi farþegaflutninga, rekstur gististaða, veitingasölu og þjónustu, ferðaskrifstofur og aðra bókunarþjónustu.     

„Konur hafa því mikil áhrif innan greinarinnar og almennt er mikill vilji, t.d. innan SAF, að konur gegni þar áhrifastöðum – a.m.k. til jafns við karla. Hvað tekjur varðar, þá eru því miður ekki fyrirliggjandi upplýsingar um það, en ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að launamunur á milli kynja sé þar í lágmarki.“

Er ferðaþjónusta spennandi vettvangur fyrir íslenskar konur?

„Ferðaþjónusta er mjög spennandi vettvangur fyrir íslenskar konur. Að mínu mati nýtast styrkleikar kvenna einstaklega vel í ferðaþjónustu og andinn innan greinarinnar er vinsamlegur og hvetjandi fyrir konur. Innan ferðaþjónustu er fjölbreytni starfa miklu meiri en sýnilegt er út á við og nánast hvaða menntun sem er má nýta til að hasla sér völl í greininni. Að auki er ferðaþjónusta grein í mikilli þróun og vexti, sem verður áskorun fyrir leiðtoga hennar á næstu misserum,“

segir Bjarnheiður Hallsdóttir á þessum degi, 24. október, þegar íslenskar konur og kvár fara í verkfall í þágu baráttunnar fyrir jafnrétti.

Fararstjóri bíður skipafarþega á Ísafirði – MYND: ÓJ

En horfum aftur út í heim:

Engin ferðaþjónusta þrifist án alþjóðaflugs – en flugheimurinn virðist hingað til hafa talið sig geta þrífast án þess að hafa konur við stjórnvölinn. Þetta er þó að breytast hægt og bítandi.

Alls hefur 191 aðildarflugfélög IATA samþykkt að ná því markmiði fyrir árið 2025 að fjórðungur stórnenda verði konur: 25by2025. Hinsvegar hefur aðeins um helmingur félaganna skuldbundið sig til að ná þessu markmiði. Þetta framtak kom í kjölfar gagnrýni á að IATA væri óttalegur karlaklúbbur. Árið 2019 var aðeins ein kona í 26 manna framkvæmdastjórn samtakanna. 

Yvonne Makolo, forstjóri RwandaAir, talar á ársfundi IATA – MYND: IATA

Fjallað var um stöðu kvenna og jafnréttismálin á ársfundi IATA í Istanbúl í sumar og þar var Yvonne Makolo, forstjóri RwandAir, valin forseti ráðgefandi stjórnar IATA (Board of Governors). Það á eftir að koma í ljós hvort ógnarbreitt kynjabilið í stjórnum flugfélaga heimsins minnki á næstu mánuðum og árum.

„Þetta verður að gerast hraðar,“ sagði Makolo á IATA-fundinum. „Það er hlutverk hvers og eins flugfélags að ráðast gegn þessum vanda sem ójafnréttið er. Þetta er ekki vandamál kvenna. Það er ekki hlutverk kvenna að bæta úr þessu. Það er verkefni okkar allra.“

Staðan núna er sú að 28 flugfélag er með kvenforstjóra og er það fimmtungs fjölgun frá árinu 2021. Meðal þeirra nýjustu í þessum hópi eru Annette Mann, forstjóri Austrian Airlines, Marjan Rintel, forstjóri KLM, Dorothea Boxberg forstjóri Brussels Airlines og Vanessa Hudson, forstjóri Qantas. En þetta eru undantekningarnar. Ekkert af 10 stóru flugfélögum Bandaríkjanna er með konu í forstjórastól. Báðum íslensku flugfélögunum er stýrt af körlum.

Annette Mann, forstjóri Austrian – MYND: Austrian Airlines

Marjan Rintel, forstjóri KLM – MYND: AIr France-KLM

Samkvæmt tölum frá Alþjóða ferðamálastofnuninni eru konur í 10 af hverjum 100 forstjórastólum fyrirtækja í ferðaþjónustu og aðeins um 15 af hverjum 100 millistjórnendum eru konur.

Víðast í heiminum eru konur í meirihluta þeirra sem starfa við ferðaþjónustu en flestar eru þær lágt settar innan fyrirtækja og sinna verst launuðu störfunum. Þá er stórum hluta ólaunaðra starfa í þágu fjölskyldufyrirtækja í ferðaþjónustu sinnt af konum. 

Allar skýrslur alþjóðasamtaka, úttektir og álit greiningarfyrirtækja, segja raunar það sama:

Það er mikilvægt fyrir atvinnulífið, hæfni þess, sköpunarkraft og styrk í síbreytilegum heimi, að tryggt verði jafnrétti kynjanna. 

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …