Samfélagsmiðlar

Loftslagsbreytingar og jarðargróðinn

Framleiðslu á nokkrum fæðutegundum stendur bráð ógn af hitum, þurrkum og flóðum sem fylgja loftslagsbreytingum. Verð hefur hækkað umtalsvert á ólífuolíu, kakóbaunum og appelsínum. Fleiri mikilvægum fæðutegundum er ógnað vegna öfga í veðri.

Vínviður og ólífutré á búgarði í Chianti í Toskana.

Sumarið 2023 er það heitasta sem vitað er um í sögu mannkyns. Meðalhitinn í júní, júlí og ágúst var 16,77 gráður. Það er 0,66 gráðum yfir meðaltali áranna 1991 til 2020. Nú er komið fram í október og enn kemst mikill hiti í fréttirnar víða um heim – líka á Íslendingaslóðum á Tenerife, þar sem gróðureldar hafa blossað upp að nýju og fólk hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

Gestir á strandstöðum þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af öryggi sínu vegna elda sem loga í fjarska. Þeir gætu hinsvegar velt fyrir sér hvort hlýnun andrúmsloftsins eigi eftir að svipta þá einhverjum lífsgæðum í náinni framtíð, t.d. ólífuolíunni út á salatið, appelsínusafanum – eða jafnvel einhverju því mikilvægasta: kaffisopanum og súkkulaðimolanum. Fleiri matar- og drykkjarvörur gætu orðið erfiðara og dýrara að nálgast. Við höfum mörg vanist því að geta fengið nánast hvað sem er, hvenær sem er. Þetta gæti breyst töluvert á næstu áratugum. 

Vaxandi sumarhitar í samspili loftslagsbreytinga af manna völdum og áhrifa af El Niño ógna landbúnaði víða – þó að tækifæri geti hugsanlega skapast annars staðar. Alvarlegast er að hitar í Kína og flóð í Pakistan ógna hrísgrjónauppskeru og við blasir skortur á þessari mikilvægu fæðutegund milljarða manna. Þurrkar og tíð flóð, hvoru tveggja eru afleiðingar loftslagsbreytinga. 

Hellt upp á – MYND: Karl Frederickson/Unsplash

Þurrkarnir þjarma nú mjög að ræktun og landbúnaði víða. Meðal þess sem er í hættu er kaffiræktin. Talað er um að ef þessir hitar halda áfram leggist hún hreinlega af í Kenía í Afríku eftir 30 til 40 ár. Enn meiri ógn steðjar að ólífuræktun við Miðjarðarhaf. Spánverjar hafa vanist því að hafa aðgang að gnótt ódýrrar ólífuolíu en á þessu ári hefur verðið hækkað um 50 prósent. Hitar og þurrkar draga úr uppskeru. Þetta ástand á ólífubeltinu kringum Miðjarðarhaf hefur áhrif á heimsframboðið af olíunni. Það er ekki lengur hægt að ganga að því vísu að fá uppáhalds ólífuolíuna úti í búð – og verðið gæti hækkað enn.

Ítölsk ólífugrein – MYND: Lucio Patone/Unsplash

Ekki eru horfurnar betri varðandi appelsínusafann, sem mörgum þykir nauðsynlegur hluti morgunverðarins. Appelsínuræktun í Flórída og Brasilíu hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum, auk veðurógna hafa sjúkdómar hrjáð trén sem bera ávextina. Þetta hefur leitt til verðhækkana á appelsínum. Margir gætu þurft að hemja löngun í nýkreistan appelsínusafa. 

Appelsínur í sólinni – MYND: Vesela Vaclavik/Unsplash

Talandi um lífsins gæði: Búist er við að verð á súkkulaði hækki á næstu árum vegna skorts á kakóbaunum. Á mörkuðum í London og New York hefur verð á þeim hækkað um 40 prósent að sögn tímaritsins Time, sem kennir Pútín að hluta um stöðuna. Ástæðan er sú að vegna hækkana á verði á olíu og gasi hafi evrópskir súkkulaðiframleiðendur keypt minna af kaffibaunum af ótta við að draga þyrfti úr framleiðslu vegna orkuverðs. Þegar orkuverðið svo jafnaði sig þá vantaði baunirnar. Svo hafði hækkað verð á áburði í kjölfar Úkraínustríðsins þau áhrif að það dró úr kakóbaunaræktinni. 

Kakóbaunir í lófa á Fílabeinsströndinni – MYND: Etty Fidele/Unsplash

Alvarlegast er þó fyrir framtíð súkkulaðisins að hitar, þurrkar, flóð og sjúkdómar ógna uppskerunni í þeim fjórum löndum sem framleiða 75 prósent af öllu heimsins kakói. Þetta eru Fílabeinsströndin, Ghana, Kamerún og Nígería. Þá skerðir El Niño lífsskilyrði sykurreyrsins í Indlandi, Kína og Tælandi. Minna framboð á sykri hækkar verðið – líka á súkkulaðibu. Reuters sagði frá því í lok ágúst að á síðustu tveimur árum hafi verð á súkkulaði hækkað um 13 prósent i Evrópu og um 20 prósent í Bandaríkjunum og að þessar hækkanir hafi dregið úr neyslu þessa ljúfmetis sem mörgum þykir ómissandi. Búist er við að verðið á súkkulaðinu haldi áfram að hækka. 

Auðvitað má nefna fleiri fæðutegundir sem loftslagsbreytingar ógna. Túristi hefur sagt frá því að vínbændur í Penedès í Katalóníu standi frammi fyrir mjög alvarlegum uppskerubresti. Minna verður framleitt af Cava-freyðivíninu í ár en vonir stóðu voru bundnar við. Ekki er ólíklegt að á næstu árum heyrist oftar af slíkum áföllum. Á móti kemur að vínrækt eflist á norðlægari slóðum, t.d. á Englandi, í Danmörku og í suðurhluta Svíþjóð og Noregs.

Öll ræktun byggist á jafnvægi í náttúrunni – hæfilegum hita, sólskini og vatni. Þetta vita bændur í Normandí í Frakklandi, sem fyrir löngu áttuðu sig á því að stórfelld vínrækt ætti frekar við sunnar í landinu. Þeir einbeittu sér því að korn- og grasrækt. Normandí varð frægt fyrir smjörið og ostana – en líka eplin, sem eru gerjuð og úr er bruggaður síder og eimað Calvados. Nú ógna langvarandi sumarþurrkar ár eftir ár framtíð eplaræktunar í Normandí. Bestu eplatrén eru gömul og rætur þeirra liggja langar leiðir. Það er eins gott því leita þarf víða að vatni í jarðvegi sem er að þorna upp.

Eplatré í Calvados – MYND: ÓJ

Það er ekki jafn sjálfsagt og við höfum talið okkur trú um að hafa aðgang að hvaða matvælum sem er – hvenær sem er. Flókið samspil náttúru, aðstæðna í samfélögum og spákaupmennsku hafa áhrif á fæðuframboð og verð. Þetta hefur aldrei verið jafn augljóst og nú.

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …