Samfélagsmiðlar

Náttúrubarn kveður

Hörður Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu er fallinn frá. Fáir hafa skilið jafn vel að farsæl ferðaþjónusta byggist á virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Túristi rifjar upp samræður við þennan þingeyska frumkvöðul í ferðaþjónustu.

Hörður Sigurbjarnarson á Húsavík

„Við hreykjum okkur af því að vera mest og best á mörgum sviðum, þar á meðal í umhverfismálum af því að við eigum svo mikið af endurnýjanlegu rafmagni. En þetta varð ekki til vegna umhyggju okkar fyrir náttúrunni heldur af því að það er ódýrara að vinna rafmagn með þessum hætti en að nýta jarðefnaeldsneyti. Samt erum við meðal þeirra sem eru með hæsta kolefnisspor í heiminum á hvern íbúa!” 

Hildur, skonnorta Norðursiglingar, fyrir miðri mynd frá Húsavíkurhöfn. Á henni sigldi Hörður til Grænlands í síðasta leiðangri sínum – MYND: ÓJ

Þetta sagði Hörður Sigurbjarnarson, eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar á Húsavík, í viðtali við Túrista í júlí 2022. Þar kemur skýrt fram hversu annt þessum frumkvöðli í ferðaþjónustu á Íslandi var um náttúruna. Hörður skildi mörgum betur að farsæl ferðaþjónusta starfar í sátt við náttúruna – ógnar ekki umhverfinu.

Nú er Hörður fallinn frá, 71 árs að aldri. Túristi þakkar góð og uppörvandi samtöl við þetta þingeyska náttúrubarn og vottar ástvinum samúð.

Herði var umhugað um að Íslendingar vönduðu sig og létu græðgi ekki ráða sinni för:

„Það er merkilegt að árið 2013 voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu orðnar meiri en af sjávarútvegi. Á sama tíma og hagnaðurinn af sjávarútveginum er innleystur ofan í örfáa vasa sjáum við að ferðaþjónustan er orðinn atvinnuvegur sem ber uppi gjaldeyrisöflun. Þá segi ég: Við skulum passa okkur. Græðgisvæðingin má ekki taka þetta yfir eins og gerðist með fiskimiðin.” 

Hörður ræðir við blaðamann Túrista í júlí 2022 á svölum heimilis síns á Húsavík – MYND: ÓJ

Hörður var ekki sáttur við stöðuna í sjávarútveginum – hvernig arðurinn af honum hefur að stærstum hluta lent í fárra höndum. Þingeyingurinn vildi ekki að ferðaþjónustan færi sömu leið og sjávarútvegurinn. Hann hafði í fyrrasumar líka áhyggjur af verðlagsþróuninni:

„Þetta er alltof dýrt. Við erum svakalega dýr. Verðlagið i landinu er skelfilegt. Maður veit ekki hvað markaðurinn þolir þetta háa verðlag lengi. Það dregur ekki úr fólki á þessu sumri (2022) því ferðaþorstinn er mikill. Svo vinnur það líka með Íslendingum að þeir Evrópubúar sem vilja hugsa um umhverfismálin sjá að það er frekar stutt að fljúga hingað. Þess vegna hefði ég viljað sjá meira af beinu flugi til Egilsstaða.”

En Hörður var bjartsýnn á framtíð hvalaskoðunar við landið og ferðaþjónustunnar – þó hann slægi varnagla:

„Ef Íslendingar vanda sig við uppbyggingu innviðanna og gæta sín á fjöldatúrismanum, að þetta verði ekki Feneyjar. En aftur þetta: Ég óttast græðgisvæðingu.”

Hörður heima í sófanum á Húsavík að ræða framtíð ferðaþjónustunnar – MYND: ÓJ

Túristi hefur með markvissum hætti á síðustu misserum aukið umfjöllun um komur skemmtiferðaskipa til Íslands og rætt áhrif þeirra á samfélag og umhverfi. Náttúruverndarsinninn Hörður hafði ákveðnar skoðanir á komum skemmtiferðaskipa. „Það stefnir í óefni ef þetta heldur áfram eins og nú horfir,” sagði hann í viðtali við Túrista 14. desember 2022 og varaði jafnframt við sjókvíaeldinu. Hörður talaði alveg skýrt þegar hann var spurður hvað væri í húfi vegna offjölgunar skemmtiferðaskipa. Þegar hann var spurður hvað væri í húfi, þá svaraði hann svona:

„Upplifun farþeganna sjálfra er auðvitað í húfi. Það sem mestu varðar er þó að það mun skaða ímynd Íslands ef skipakomum fjölgar enn. Þetta eru skip með gríðarlega stórt vistspor – brenna svartolíu. Um þau gilda engar reglur. Menn fara sínu fram. Þetta er eins og sé búið að færa villta vestrið hingað. Þetta er villta norðrið. 

Hræðilegt er að horfa upp á að Íslendingar skuli taka opnum örmum svo ósjálfbærum iðnaði sem fiskeldi í sjó er – á sama tíma og verið er að skattleggja það burt frá Noregi, jafnvel Færeyjum og Skotlandi. Hér stendur þeim allt opið. Opinberir aðilar eru í virkilega vondum málum hvað varðar þá vinnu sem unnin er við að búa til skipulag strandsvæða á Austjörðum og Vestfjörðum. Þar koma menn að gerðum hlut: Sjókvíar út um allt! 

Þetta er eins með skemmtiferðaskipin. Það er mikið umhugsunarefni í mínum huga: Ætlum við að haga okkur svona. Á þessi stóra grein sem ferðaþjónustan að búa við það að allt standi opið? Ég vil benda á hættuna. Mikil hvalaskoðun hefur verið þróuð á Skjálfanda og í Eyjafirði. Hér hjá Norðursiglingu búum við að meira en 26 ára sögu hvalaskoðunar. Þessu er nú ógnað.”

Garðar, Andvari og Haukur, bátar Norðursiglingar á Húsavík – MYND: ÓJ

Umræður um áhrif af komum skemmtiferðaskipanna hafa orðið stöðugt háværari og um leið hefur þrýstingur á stjórnvöld aukist um að stýra þessari umferð betur og leita leiða til að draga úr mengun frá skipunum. Einn liður í þessu var landtenging við rafmagn á Faxagarði í Reykjavíkurhöfn – tenging sem nýtist minni leiðangursskipum. Túristi sagði auðvitað frá því þegar tengingin var tekin í notkun – en í framhaldi af því kom símtal frá Húsavík: Hörður taldi að enn sigi á ógæfuhliðina hvað varðaði áhrif af komum skemmtiferðaskipa og gagnrýndi aðgerðaleysi stjórnvalda:

„Ég sé ekki að nokkur skapaður hlutur sé að gerast. Hafnarmannvirki eru stækkuð til að taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum og menn stæra sig af því að verið sé að tengja skipin við rafmagn í höfn, eins og nýlega í Reykjavíkurhöfn. Þetta er að hluta til grænþvottur að mínu viti. Engin umræða er um það hvert við ætlum og hvernig við ætlum þangað. Ferðaþjónustan verður að vitja sinnar ábyrgðar í þessum efnum.“

Þetta sagði Hörður í viðtali við Túrista 22. september síðastliðinn. En af hverju kallaði Hörður landtenginguna hálfgerðan grænþvott?

„Það er auðvitað dæmigert fyrir okkur Íslendinga að þegar við sjáum reykinn, sjáum mengunina í loftinu, þá verður allt vitlaust. En það er enginn að tala um að setja hömlur á skipin sem flæða um heimshöfin eins og engisprettufaraldur – með eftirlaunaþega sem hafa efni á þessum ósköpum. Þar liggur vandinn. Við erum bara þolendur. Og ég sé ekki betur en ferðamannafjöldinn á stórum svæðum þar sem mest er um að vera sé farinn að ógna upplifun gesta okkar. Það á líka við um Skjálfandaflóa. Þangað koma um 130 þúsund gestir, 18 hvalaskoðunar- og ferðaþjónustuskip sigla um flóann á háannatímanum. Hér á Húsavík er líka komin iðnaðarhöfn. Svo bætast skemmtiferðaskipin við. Skip geta farið þær leiðir sem þau kjósa – á þeim hraða sem þau kjósa. Engar reglur gilda.“ 

Hörður um borð í Hildi í Grænlandsleiðangrinum í haust – MYND: Norðursigling/Konsta Punkka

Hörður var nýkominn úr leiðangri til Grænlands og hafði siglt um ægifagurt Scoresbysund. Hann lýsti áhyggjum Grænlendinga af þunga umferðar skemmtiferðarskipa – en þótti eins líklegt að þessir góðu grannar yrðu á undan okkur að takmarka skipaumferðina.

Við endum þessa upprifjun á kynnum Túrista og lesenda af Herði Sigurbjarnarsyni á Húsavík með því að vísa til hvatningar hans um að Íslendingar verði að gera betur til að standa við skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem stefni í öfuga átt – og fylgja jafnframt eftir ákvæðum samningsins um verndun hafsvæða:

„Við Íslendingar erum alls ekki að standa okkur, sinnum engri hafvernd nema þeirri sem snýr að fiskveiðum okkar. Þarna á ferðaþjónustan að koma að. Víðtækari hafvernd snýr að nýrri nýtingu okkar á náttúrunni. Það er lífsnauðsyn fyrir greinina að bregðast við ef hún á að þróast eðlilega.“

Hildur á Scoresbysundi – MYND: Norðursigling/Tobias Hägg
Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …