Samfélagsmiðlar

Rafbíllinn hefur alltaf vinninginn

Enginn vafi er á því að minni heildarlosun fylgir rafbíl heldur en bensín- og dísilbílum á endingartíma þeirra. Mestur er munurinn í löndum þar sem notast er við hreina orku en jafnvel þar sem raforka er framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis hefur rafbíllinn vinninginn.

Samkvæmt niðurstöðum greiningar norsku orkurannsóknastofnunarinnar Rystad Energy er alveg ljóst að farartæki knúin orku frá rafhlöðu skila mestum árangri í baráttunni við að draga úr losun í samgöngum. Þrátt fyrir að meiri losun fylgi framleiðslu rafbíla – og að mjög sé treyst á jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa í mörgum löndum – þá er ótvíræð niðurstaða norsku rannsakendanna sú að með því að skipta bensín- eða dísilbíl út fyrir rafbíl eru umhverfisáhrifin jákvæð á endingartíma hans. Rafbíllinn vinnur upp þá losun sem fylgdi framleiðslu hans, ef svo má segja.

Auðvitað ætti ekki að þurfa að taka það fram að út frá umhverfislegu sjónarmiði er þó allra best að framleiða færri bíla, fækka einkabílum og efla almenningssamgöngur. Svo er sjálfsagt hjóla meira eða ganga.

Rafknúinn strætó í Róm – MYND: ÓJ

Greining Rystad Energy sýnir að losun koltvísýrings sem fylgir rafbíl (ökutæki knúið orku frá rafhlöðu) sé í mesta lagi ígildi helmings þess sem dísil- eða bensínbílar losa á endingartíma sínum – óháð því í hvaða landi þeim er ekið. Jafnvel þar sem jarðefnaeldsneyti er meginuppspretta raforku, losa rafbílar minna CO2 en bílar með sprengihreyfli á endingartíma sínum. Þar sem endurnýjanleg eða hrein orka kemur í stað kola- og gasknúinna raforkuvera, getur losun tengd rafbíl minnkað um 86 prósent. 

Ítarlegar rannsóknir á útblæstri rafbíla og ökutækja með sprengihreyfil á endingartíma þeirra ná til allra þátta í framleiðslu og reksturs ökutækjanna. Þar undir fellur smíði yfirbyggingar, samsetning aflrásar, viðhald, útblástur og smíði rafhlaðna fyrir rafbíla. Talsmenn Rystad Energy segjast meðvitaðir um að ýmis önnur sjónarmið, sem snerta samfélag og velferð fólks á tilteknum stöðum, séu tengd framleiðslu á rafbílum, á rafhlöðunum og þeirri námuvinnslu sem fylgir. Þessar rannsóknir sem hér um ræðir beinist þó einvörðungu að því að bera saman losun rafbíla og hefðbundinna eldsneytisbíla.

Bílar ferðafólks í Dyrhólaey – MYND: ÓJ

Miðað við ætlaða orkuframleiðslu í Kína næstu 20 árin má gera ráð fyrir að losun sem fylgi rafbíl þaðan verði um 39 tonn af CO2 á endingartímanum en losun bíls með sprengihreyfil næstum 85 tonn. Munurinn í Bandaríkjunum er enn meiri. Rafbíll losar 42 tonn af CO2 á líftíma sínum þar en bílar með sprengihreyfla 100 tonn. Þarna er munurinn 58 prósent. Losun sem tengist vinnslu, hreinsun og brennslu jarðefnaeldsneytisins vegur 90 prósent af heildarlosun tengdri sprengihreyfilsbílum. Þegar greind er og sundurliðuð losun á endingartíma rafbíls er litið til þess hvernig raforkan sem notuð er á bílinn er framleidd. Eitt er að framleiða rafmagn fyrir rafbíl með kolum og olíu, annað með sjálfbærri og endurnýjanlegri orku. 

„Á heildina litið þá eru rafbílar rétta tæknilausnin í þeirri viðleitni að draga úr losun í samgöngukerfinu. Að skipta yfir í rafbíl dregur úr losun til langs tíma – hvað sem líður meiri umhverfisáhrifum af framleiðslu hans – áður en honum er ekið út á götuna. Þvert á fullyrðingar um annað er rafbílavæðing ekki erindisleysa. Hún mun draga úr losun til lengri tíma og flýta fyrir orkuskiptum,“

segir Abhishek Murali, sérfræðingur í vistvænni samgöngutækni, hjá Rystad Energy.

Abishek Murali, sérfræðingur vistvænni samgönutækni hjá Rystad Energy – MYND: Rystad Energy

Greining Rystad Energy beindist að Kína, Bandaríkjunum, Indlandi, Þýskalandi og Frakklandi vegna þess hversu ólík samgöngukerfi og aksturshættir eru í þessum löndum, samsetning bílaflota ólík og samspil orkugjafa mismunandi. Miðað er við að endingartími bíls sé 18 ár. Mjög breytilegt er eftir löndum hversu mikið er ekið að meðaltali á ári hverju. Mestur er árlegur akstur í Bandaríkjunum, um 23 þúsund kílómetrar, í samanburði við 19 þúsund í Kína og 13.500 í Þýskalandi, Frakklandi og Indlandi. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu var meðalakstur fólksbíla á Íslandi á síðasta ári rúmir 12 þúsund kílómetrar. Þegar verið er að meta líklegan útblástur næstu 18 árin er mið tekið af meðalakstri í viðkomandi löndum. Búist er við það dragi úr akstri um eitt prósent á ári í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína en að hann aukist um hálft prósent í Indlandi, sem enn er vanþróað í bílasamgöngum. 

Þessi mynd sýnir heildarlosun á endingartíma ólíkra ökutækja, ICEV (sprengihreyfilsbílar) og BEV (rafhlöðuknúin ökutæki) eftir löndum – MYND: Rystad Energy

Mismunandi er eftir löndum, akstursmynstri og gerðum ökutækja hversu mikið innleiðing rafbíla dregur úr heildarlosun. Það sem mestu ræður um áhrif af skiptum yfir í rafbíla er samsetning orkuvinnslu og notkunar í viðkomandi landi. Bílar knúnir jarðefnaeldsneyti losa meira eftir því sem þeir eldast en losun sem fylgir rafbílum mun dragast enn frekar saman þegar raforkuframleiðsla verður vistvænni. Þannig er þess vænst að árið 2041 verði hlutur rafbíla í Bandaríkjunum aðeins 14 prósent af þeirri losun sem fylgja mun hefðbundnum jarðefnaeldsneytisbílum sem þá verða enn í notkun.

Hér á Íslandi blasir auðvitað við hversu hagkvæmt og vistvænt er að flýta orkuskiptum í samgöngum. Hrein innlend orka hefur alltaf vinninginn gagnvart innfluttu jarðefnaeldsneyti. Á líftíma sínum bætir rafbíllinn hratt upp þá losun sem fylgdi framleiðslu hans og flutningi hingað – í samanburði við hefðbundna bensín- og dísilbíla, sem menga gjarnan meira eftir því sem þeir eldast. Þrátt fyrir að þessar staðreyndir liggi ljósar fyrir þá verður brátt óhagstæðara fyrir Íslendinginn að kaupa rafbíl vegna breytinga á opinberum álögum.

Umferðarþungi í Reykjavík á álagstíma – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …