Samfélagsmiðlar

„Við erum alltof hæg hér á Íslandi“

„Ísland er skammt komið," segir Rannveig Grétarsdóttir, eigandi Eldingar og stjórnarmaður í SAF, um orkuskiptin í landinu. Alla innviði vanti til að hraða þeim breytingum sem ráðast verði í. Landtengingar eru „ævintýralegar flókið" verkefni, segir formaður stjórnar Faxaflóahafna.

Hvalaskoðun og skemmtiferðaskip á Akureyri

Nýlega var fyrsta landtenging skemmtiferðaskipa við aðveitukerfi rafmagns tekin í notkun á Faxagarði í Reykjavíkurhöfn. Mikið var haft við: Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, var fenginn til að klippa á borða í fánalitunum. „Landtenging hafna er risaverkefni,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og formaður stjórnar Faxaflóahafna, og bætti við: „Þetta er ævintýralega flókið en afskaplega gaman. Við höfum lagt áherslu á að þetta er hluti af okkar loftslagsverkefnum.“ Formaður stjórnar Faxaflóahafna sagði alveg skýrt hver stefnan væri. 

Þórdís Lóa, Gunnar Tryggvason hafnarstjóri og Sigurður Ingi við nýju aðveitustöðina á Faxagarði – MYND: ÓJ

Tæknilegi vandinn sem við blasir er auðvitað sá að bæði vantar orku og tengingar til að þjóna þörfum risaskipanna sem leggjast að við Sundahöfn. Þá þarf 10 sinnum meira afl en nú er mögulegt afhenda á Faxagarði. Stjórnendur Faxaflóahafna gera sér þó grein fyrir því að stefna verður að þessu marki fyrir árið 2030. Það er tímaramminn sem Evrópusambandið hefur sett. Faxaflóahafnir vonast til að tengingar verði komnar í gagnið 2026 – eftir aðeins þrjú ár. Hinsvegar er alveg óljóst hvernig afla eigi rafmagns og koma á tengingum t.d. á Ísafirði. Þangað streyma skemmtiferðaskipin allt sumarið og blá móðan á milli hárra fjallanna er öllum augljós.

Skemmtiferðaskip við bryggju á Ísafirði – MYND: ÓJ

Tíminn líður hratt og ýmsir eru farnir að ókyrrast hversu hægt gengur að koma á landtengingum fyrir skemmtiferðaskipin – og ekki síður tryggja að skipafloti okkar geti nýtt sér vistvæna orkugjafa. Þeirra á meðal er Rannveig Grétarsdóttir, sem rekur umsvifamikil hvalaskoðunarfyrirtæki og er í forystusveit íslenskrar ferðaþjónustu. Hún sagði í viðtali við Túrista: 

„Við erum alltof hæg hér á Íslandi. Við höfum ekki innviðina til að fara í þessa breytingu. Við höfum ekki gas, ekki rafmagn hér við höfnina. Það vantar ennþá alla innviði. Auðvitað er alltaf spurningin hvort komi á undan eggið eða hænan. Maður hefur heyrt frá þeim sem farnir eru að huga að orkuskiptum fyrir báta sína að regluverk vanti og Samgöngustofa segi bara: Nei!

Ísland er svo skammt komið í þessum málum. Sjálf orkuskiptin eru dýr og þegar svo bætist við að innviði og reglur vantar þá verður allt erfiðara. En að sjálfsögðu erum við að vinna að þessu. Þetta er það sem koma skal. Orkuskipti í ferðaþjónustu eru tilvalið tilraunarverkefni og þau myndu vekja athygli – sýna hvað við Íslendingar stöndum fyrir – alveg eins og við erum að gera með rafbílunum.“ 

Rannveig Grétarsdóttir – MYND: ÓJ

Við erum of hæg í orkuskiptunum, segir þessi forystukona í atvinnulífinu og á vettvangi stjórnmálanna heyrist sama gagnrýni á stjórnvöld. 

Faxaflóahafnir fengu til liðs við sig norsku skipaútgerðina Hurtigruten í undirbúningsvinnunni fyrir landtenginguna á Faxagarði. Hún miðast við þarfir lítilla könnunarskipa eins og þeirra sem Hurtigruten gerir út. Claus Andersen, yfirmaður siglingamála hjá Hurtigruten, sagði í viðtali við Túrista að tengingin á Faxagarði væri „mjög merkur áfangi“ en að hann vonaðist til að sjá fleiri skref stigin á næstu árum.

Nokkrum dögum síðar líkti Hörður Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu þessari landtengingu við grænþvott:

„Ég sé ekki að nokkur skapaður hlutur sé að gerast. Hafnarmannvirki eru stækkuð til að taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum og menn stæra sig af því að verið sé að tengja skipin við rafmagn í höfn, eins og nýlega í Reykjavíkurhöfn. Þetta er að hluta grænþvottur að mínu viti. Engin umræða er um það hvert við ætlum og hvernig við ætlum þangað.“

Tvö skemmtiferðaskip í Sundahöfn – MYND: ÓJ

Á meðan Hörður líkti umferð skemmtiferðaskipanna við „engisprettufaraldur“ er félagi hennar, Rannveig Ágústsdóttir, fremur jákvæð í þeirra garð og telur að útgerðir þeirra eigi eftir að skáka Íslendingum í orkuskiptum skipaflota:

„Ég held að skemmtiferðaskipin verði á undan okkur í orkuskiptunum. Það er allt á fullu bæði í fluginu og hjá útgerðum skemmtiferðaskipanna í að finna hreinni orkugjafa. Útblásturinn frá þeim, sem ég er ekki hrifin af, verður ekkert vandamál eftir fáein ár.“

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …