Samfélagsmiðlar

Ferðalög til harmabóta

Frá heimsfaraldrinum hefur fólk viljað bæta sér upp innilokun og einangrun með því að ferðast meira og víðar en ella. Þetta nefnist upp á ensku „revenge travel," sem hugsanlega mætti útleggja sem ferðalög til harmabóta.

Asíufólk á Akrópólis

Hjón frá Asíu á Akrópólishæð

Það fór að bera á því víða á samfélagsmiðlum árið 2021 að talað væri um revenge travel, sem ekki er einfalt að snúa með góðu móti yfir á íslensku. Revenge þýðir auðvitað hefnd, að hefna sín, ná fram hefndum. Túristi velur að leika sér svolítið með meininguna og tala frekar um það í þessu samhengi að átt sé við það að ferðast til að bæta sér upp harma og leiðindi mánuðina á undan á meðan Covid-19 geisaði.

Við tölum því um ferðir til harmabóta, uppbótar- eða harmabótaferðir. 

Svipmynd frá Hydra – MYND: ÓJ

Ferð til harmabóta getur legið til óvenjulegs eða mjög framandi staðar. Líka gæti verið um að ræða heilsubótardvöl á fögrum stað, upprifjun á kynnum af uppáhaldsborg – eða bara dvöl hjá fjölskyldu eða vinum í góðu yfirlæti. Þetta snýst um að bæta sér upp það sem farið var á mis við í heimsfaraldrinum. 

Nú er eðlilegt að fólk í ferðaheiminum velti fyrir sér hversu lengi þetta hugarástand fólks í betur megandi heimshlutum varir. Hversu lengi telur fólk sig þurfa að bæta sér upp gömul leiðindi? Hversu oft þarf að ferðast til að gleyma einangrunarvistinni í faraldrinum?

Í Reynisfjöru, einum fjölsóttasta ferðamannastað Íslands – MYND: ÓJ

Umferð um flugvelli heimsins jókst jafnt og þétt jafnhliða því að bólusetningum fjölgaði, ónæmi jókst, hindrunum var aflétt og stöðugt fleiri tóku upp fyrri starfshætti – lífið komst í eðlilegri skorður. En nú eru vísbendingar um að heldur sé farið að hægja á ferðalögum. Lokaniðurstaða ársins 2023 verður líklega sú að heldur færri hafi ferðast en árið 2019, síðasta heila árið fyrir faraldur.

Auðvitað er það ekki bara ferðafullnægja sem heldur aftur af fólki heldur einfaldlega versnandi hagur á verðbólgutímum. Ferðalög eru orðin dýrari. Þá benda kannanir Morning Consult til þess að margt ferðafólk sé orðið hvekkt vegna streitu og álags sem fylgir seinkunum og röskun á flugáætlunum. Þó er kynslóðamunur á þessu. Fólk af Z-kynslóðinni (1997-2012) er sagt ferðafúsara en þau af þúsaldarkynslóðinni, eða Y-kynslóðinni (1981-1996).

Mestu munar um það fyrir velgengni ferðaþjónustu í heiminum að Kínverjar eru töluvert tregari að hleypa heimdraganum en fyrir faraldur – að hluta til er það þó vegna ýmissa hindrana: regluverks og skorts á flugferðum. Bandarísk ferðaþjónusta, flutningafyrirtæki, hótel og veitingahús, finna vel fyrir því að ekki hefur gengið nógu vel að endurheimta ferðamenn – ekki síst frá Kína. 

Feneyjar eru draumastaður margra – MYND: ÓJ

Ein grein kvartar þó ekki og það er heilsutengd ferðaþjónusta. Margir sjá sig tilneydda að bæta heilsuna eftir kyrrstöðu og beinar afleiðingar faraldursins. Líklegt er því að þó að flestir hafi fljótlega bætt bætt sér upp harma heimsfaraldurins, þá hafi sá tími einmitt kennt fólki að nota ferðalög betur til upplifunar og heilsubótar.

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …