Samfélagsmiðlar

Vestfirðir færast nær

Miklar samgöngubætur á Vestfjörðum breyta lífi íbúanna, auka möguleika í atvinnulífi og koma landshlutanum betur á kort ferðamanna. Halla Ólafsdóttir segir frá helstu framkvæmdum og ræðir við Guðmund R. Björgvinsson, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni á Ísafirði.

Hallsteinsnes - MYND: HÓ

Með tilkomu Dýrafjarðarganga og vetrarþjónustu á Dynjandisheiði á Vestfjörðum varð í fyrsta sinn fært milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða árið um kring. Tengingin er mikilvæg fyrir þjónustu, menningarlíf og atvinnuþátttöku á Vestfjörðum og skapaði forsendur fyrir nýrri ferðamannaleið, svokallaðri Vestfjarðaleið, sem liggur um norðan- og sunnanverða Vestfirði yfir Dynjandisheiði og um Dýrafjarðargöng og er fær allt árið um kring.

Þegar framkvæmdum lýkur á nýjum vegi um Dynjandisheiði og Gufudalssveit á Vestfjörðum verður stysta leiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur 398 kílómetrar. Á aðeins örfáum árum styttist leiðin um 57 kílómetra sem gerir hana aðeins tólf kílómetrum lengri en milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Miklar endurbætur hafa orðið á vegum Vestfjarða síðan vegur um Þröskulda opnaði árið 2009 sem stytti leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 75 kílómetra. Smám saman hafa gamlir malarvegir fengið nútíma yfirbragð.

Hrafnseyrarheiði stóri farartálminn

Dýrafjarðargöng, á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, voru tekin í notkun árið 2020. Fram að því þurfti að fara um Hrafnseyrarheiði til að komast á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða. Heiðin er í 552 metra hæð og vegna mikilla snjóþyngsla og snjóflóðahættu lokaðist heiðin snemma yfir háveturinn og var ekki rudd fyrr en snjóa létti á vorin. Það var því jafnan ófært á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða um nokkurra mánaða skeið á veturna.  

Hrafnseyrarheiði rudd – MYND: HÓ

Heilsárssamgöngur innan fjórðungsins

Þegar Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun árið 2020 hóf Vegagerðin tilraunaverkefni sem felst í að ryðja Dynjandisheiði allan veturinn. Í fyrsta sinn varð fært milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða allt árið um kring. Guðmundur R. Björgvinsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að með greiðfærari Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöngum tengist byggðir Vestfjarða allt árið sem hefur mikil áhrif á atvinnusókn og þjónustu á Vestfjörðum. Tilraunaverkefnið stendur enn yfir og er heiðin rudd fimm daga vikunnar. 

Guðmundur R. Björgvinsson, verkefnisstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði – MYND: HÓ

Vestfjarðaleið

Samtímis því að Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun 2020 opnaðist ferðamannaleiðin Vestfjarðaleið, 950 kílómetra ferðaleið um Vestfirði og Dalabyggð. Vestfjarðaleið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu og Vesturlandsstofu og fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og í Dalabyggð taka þátt verkefninu. Hægt er að nálgast bæði sumarkort og vetrarkort af leiðinni, þar sem leiðin tekur ákveðnum breytingum með árstíðunum. 

Vegagerð um Dynjandisheiði í þremur áföngum

Framkvæmdir hófust á nýjum vegi um Dynjandisheiði árið 2020 en gamli vegurinn, sem er frá 1959, er mjór malarvegur og kominn til ára sinna. Fyrsti áfangi verksins fólst í sex kílómetra kafla frá Flókalundi í Vatnsfirði upp á heiðina úr suðri og fjögurra kílómetra kafla að norðanverðu, frá Dýrafjarðargöngum í Dynjandisvog.

Framkvæmdasvæði á Dynjandisheiði – MYND: Vegagerðin

Nú er unnið að öðrum áfanga verksins, sem felst í nýjum vegi yfir háheiðina, og komið bundið slitlag á sex kílómetra til viðbótar á suðurhluta heiðarinnar. Áætlað er að öðrum áfanga ljúki haustið 2024 en ekki er búið að bjóða út þriðja áfanga. Þriðji áfangi felst í tæpum átta kílómetra kafla niður af norðurhluta heiðarinnar í Dynjandisvog. Áætlað er að bjóða út þriðja áfanga á næsta ári og að honum ljúki haustið 2025, verði hann fullfjármagnaður.

Unnið hratt í Gufudalssveit

Eftir áratugalangar deilur vegna umhverfisáhrifa nýs vegar um Gufudalssveit hófust framkvæmdir á nýjum vegi árið 2020 með endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Skálanesi í Gufudal. Framkvæmdir í Þorskafirði hófust svo haustið 2021. Þær fólust í nýrri brú sem leysir af hólmi tíu kílómetra vegarkafla og einbreiða brú frá 1981. Áætlað var að verkinu í Þorskafirði lyki í júní 2024 en brúin var opnuð formlega 25. október 2023, langt á undan áætlun.

Nýja Þorskafjarðarbrúin – MYND: Vegagerðin

Nýr vegur um Teigsskóg

Þann 1. desember opnaðist nýr vegur úr Þorskafirði um Teigsskóg og inn Djúpafjörð. Með því er Hjallaháls nú aflagður. Leiðin liggur nú um Teigsskóg, fyrir Hallsteinsnes og inn Djúpafjörð sem fimm kílómetrum lengra en yfir Hjallaháls en þegar búið verður að þvera Djúpafjörð og Gufufjörð liggur leiðin þar beint yfir en ekki inn Djúpafjörð og um Ódrjúgsháls, eins og hún gerir nú.

Í Teigsskógi – MYND: HÓ

Búið er að semja um vegfyllingar og bráðabirgðabrú svo hægt sé að keyra út í allar fyllingar í verkinu við að þvera Djúpafjörð og Gufufjörð og er áætlað að það taki um tvö ár. Enn á eftir að bjóða út byggingu á þremur brúm, einni á Gufufirði og tveimur á Djúpafirði, og er það útboð væntanlegt á næsta ári segir Guðmundur hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Áætluð verklok eru haustið 2026, verði verkið fullfjármagnað. Með lokum þessara framkvæmda styttist leiðin um Gufudalssveit um 17 kílómetra.

Komast í fyrsta sinn til annara landshluta á bundnu slitlagi

Guðmundur bendir á að þegar framkvæmdum lýkur í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verður það í fyrsta sinn sem íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum komast akandi í aðra landshluta á bundnu slitlagi, en hingað til hafa vegirnir um Gufudalssveit og Dynjandisheiði verið malarvegir.  Guðmundur segir að vegabæturnar í Gufudalssveit séu mikilvægar fyrir atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum enda miklir þungaflutningar sem fari um gamla malarvegi Gufudalssveitar.  

Vegur lagður um Teigsskóg – MYND: Vegagerðin

Framkvæmdir og fyrirætlanir í Gufudalssveit og nágrenni – MYND: Vegagerðin

Vesturleiðin styttri en Djúpið

Með Dýrafjarðargöngum og áföngum í vegagerð á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit er leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um Vestfjarðaveg nú 415 kílómetrar og með því orðin styttri en þegar farið er um Ísafjarðarðardjúp. Leiðin um Ísafjarðardjúp er 454 kílómetrar og hefur verið meginleið íbúa norðanverðra Vestfjarða út af Vestfjarðakjálkanum.

Þegar framkvæmdum lýkur á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit verður vesturleiðin 398 kílómetrar og því ljóst að hún verður 56 kílómetrum styttri en leiðin um Djúp. Því má ætla að meginþorri umferðarinnar, milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins, muni færast frá Djúpvegi (61) yfir á Vestfjarðaveg (60) um Vestfjarðagöng, Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði og Gufudalssveit.

„Vafalaust verður breyting á ferðamynstri íbúa á svæðinu við þessar nýju og styttri leiðir, fleiri og fleiri munu líta á kílómetrana, þá ekki síst í þungaflutningum, en þar getur líka veðurfar og aðstæður að vetri haft áhrif á leiðavalið,“ segir Guðmundur.

Vestfjarðagöngin verða áskorun

„Áskoranir verða áfram í vegakerfinu,“ segir Guðmundur, – þrátt fyrir miklar endurbætur. Hann nefnir sem dæmi að Breiðadalsleggur jarðganganna undir Breiðadals- og Botnsheiði, sem eru í daglegu tali kölluð Vestfjarðagöng, er einbreiður, og þolir því illa mikla umferð. Guðmundur segir að til að byrja með þurfi umferðarstýringu í göngin, sem sé verið að skoða tæknilega, og svo þurfi breikkun í framtíðinni. Samkvæmt nýrri jarðgangaáætlun, er breikkun Breiðadalsganga sjötta í forgangsröðinni – á eftir Fjarðarheiðargöngum, Siglufjarðarskarðsgöngum, öðrum Hvalfjarðargöngum, göngum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og göngum milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Það er því ljóst að samkvæmt þeirri áætlun verða Vestfjarðagöng ekki breikkuð á allra næstu árum.

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …