Samfélagsmiðlar

Að ferðast sporlaust

„Getum við ferðast án þess að ganga á auðlindir, spilla náttúru og ógna jafnvægi samfélaga?" Þannig spurðum við í ársbyrjun óviss um undirtektir þeirra sem þá höfðu skipulagt skíðaferð í Alpana, golfferð til Flórída og strandferð til Kanaríeyja. FF7 endurbirtir greinina með ferðamyndum frá árinu.

Túristar streyma upp Akrópólishæð - MYND: ÓJ

Því fylgja augljóslega kolefnisspor að fljúga milli landa – og síðan neyta og njóta í gistilandinu. Einfaldasta ráðið til að fækka þessum sporum er þá eflaust að draga úr ferðalögum, halda sig heima og klára afganga úr frystinum. En hver yrðu áhrifin af því ef ferðalög legðust af – eða því sem næst? Þá ber að hafa í huga að tíunda hvert starf í heiminum verður til vegna ferðaþjónustu. Sjálf þjónustan við ferðamanninn skapar auð í samfélögum sem annars hefði úr litlu að spila. Peningarnir sem ferðamennirnir færa gefa fólki víða tækifæri á meiri lífsgæðum, meira öryggi og velferð. Er það ekki einhvers virði? 

Ferðafólk í Aþenu í kerruferð við Akrópólis – MYND: ÓJ

Svo er það þetta með víðsýnina, skilninginn á lífsháttum og hugmyndum annarra. Ferðalög geta bætt fólk, dregið úr fordómum, styrkt vináttu og aukið samúð með öðrum – já gert heiminn eilítið skárri. Eða er þetta bara léleg afsökun?

Hvernig getum við þá ferðast með betri samvisku? Jú, með því að vanda okkur aðeins, velja vel, draga úr öllu umfangi okkar og áhrifum, taka minna pláss – og skilja eitthvað gott eftir okkur. Það er auðvelt að segja svona en er hægt að útlista þetta af aðeins meiri nákvæmni – takk?

Bækur eru skrifaðar, t.d. The Ethical Traveller eftir Imogen Lepere, og margt hefur verið ritað á ferðasíður um ábyrga ferðahegðun. Við tökum okkur til og sjóðum úr þessu nokkur ráð – til viðbótar við það sem allir eiga að vita – að maður á ekki að henda rusli, forðast plastumbúðir, nýta matinn vel, fara fótgangandi flestra leiða, nota vistvæna samgöngumáta, o.s.frv.

Farangur ferðafólks á Hydra fluttur með asna – MYND: ÓJ

Farðu sjaldnar en dveldu lengur. Því oftar sem þú flýgur til útlanda þeim mun fleiri verða vistsporin. Viðskiptamódelið sem snýst um mikið framboð af ódýrum flugmiðum er ekki í þágu umhverfisins. Áhrifaríkasta aðferðin til að minnka umhverfisáhrif af þeim hluta neyslu sem snýr að ferðalögum er augljóslega að fækka flugferðunum. Það er hinsvegar erfiðara að krefjast þessa af Íslendingum en af þjóðum sem geta farið milli landa með vistvænni hætti, hjólandi, með lestum, ferjum eða á rafmagnsbílum. Á meðan flugfargjöld námu hærra hlutfalli af heildarkostnaði ferðalaga brá fólk á það ráð að dvelja lengur á áfangastað. Þriggja vikna sumarfrí í útlöndum voru algeng, helgarferðir fátíðar. 

Um að gera að njóta líðandi stundar. Gondólaferð i Feneyjum – MYND: ÓJ

Ferðastu á almennu farrými. Þau sem láta sig hafa það að sitja þar sem lítið rými er milli sæta eru vistvænni flugfarþegar en þessi sem eru flottari á því, sitja fremst og teygja úr sér. Mælingar sýna að útblástur á hvern farþega er allt að nífalt meiri á farþega í viðskiptamannarými heldur en í almennu rými. Þetta snýst um nýtingarhlutfall. 

Gefðu háönninni langt nef. Margir eiga ekki kost á öðru en að ferðast um hásumarið, fá ekki frí á öðrum tímum. Hinum fjölgar sem eiga einhverra kosta völ í þessum efnum. Það er ódýrara að ferðast utan háannar þegar minni spurn er eftir flugmiðum og gistingu. Auðvitað er líklegra að þá sé veðrið óyndislegra og jafnvel eitthvað færri veitingahús opin á þessum tímabilum, sem fólk í ferðabransanum kallar „axlir,” sem eru vikurnar á undan og á eftir háönninni. Utan „axlanna“ er síðan enn meiri kuldatíð í ferðaþjónustu víða. Þau ykkar sem getið ferðast þegar færra fók er á ferðinni stuðlið að því að draga úr slæmum áhrifum troðningstúrismans þegar gengið er á vatnsbirgðir íbúa og takmarkaða orku. Þá er lítið pláss í samgöngukerfum almennings, lestum og strætisvögnum. Það getur líka verið heillandi að kynnast ferðamannastöðum utan háannar. Þá greinir maður betur ýmislegt sem mannmergðin skyggir annars á.

Reykjavík skartar sínu fegursta nú um hátíðarnar – MYND: ÓJ

Ekki sætta þig við grænþvott. Þeim fjölgar stöðugt sem taka ákvarðanir um kaup á vörum og þjónustu út frá umhverfisvottun eða viðurkenningu á að fylgt hafi verið kröfum um sjálfbærni. Þetta fólk greiðir atkvæði með eyðslufé sínu. Því miður er þó stöðugt verið að leggja gildrur fyrir vel meinandi fólk. Staðhæft er á heimasíðum ferðaþjónustufyrirtækja, í auglýsingum og við inngöngudyr að viðkomandi rekstur sé hreinn, grænn og tær, í sátt við náttúru, umhverfi og samfélag – án þess að nokkur hafi staðreynt það eða vottað. Þetta heitir grænþvottur og eru oft hrein vörusvik. Fyrirtæki sem segjast starfa á umhverfisvænan hátt verða að geta sýnt fram á það með tölum og vottunum.

Skemmtiferðaskip eru gagnrýnd fyrir mikil umhverfisáhrif – MYND: ÓJ

Veldu grænan gististað. Mörg hótel halda því fram í kynningarefni að þau séu vistvæn, virðing sé borin fyrir umhverfinu. Fyrsta krafan ætti að vera hvort þau styðjist við endurnýjanlega orku, eins og við þekkjum á Íslandi, en þá minnkar úrvalið snarlega. Önnur viðmið eru líka mikilvæg, eins og umhverfisvottun, t.d. Svansmerkið á Norðurlöndum. Þá getur gesturinn vonandi treyst því að á viðkomandi hóteli vilji fólk vanda sig – hafa sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið. Já, svo þarf ekki að biðja um nýtt handklæði eftir hverja sturtu. Airbnb-íbúðir eru ekki hátt skrifaðar út frá sjálfbærnikröfunni. Þær hafa raskað samfélagslegu jafnvægi mjög víða, hrakið íbúa frá miðborgum, hækkað leiguverð. Íbúar í Airbnb nýta ekki vel það rými sem þeir taka – og þeir skilja eftir sig gjarnan mikið af rusli. Betri kostur er að semja við sjálfa íbúana um gistingu, t.d. um herbergi eða semja við keðjur og samtök sem sérhæfa sig í sjálfbæru og vistvænu húsnæði. Nefna má Fairbnb og Ecobnb.

Yfirvöld í Saint-Malo hafa takmarkað íbúðaleigu til ferðafólks – MYND: ÓJ

Taktu lestina. Það á betur við um meginlandsþjóðir en okkur að hvetja til lestarferða milli landa. Íslendingar eru enn háðir flugi sem mengar töluvert – ef þeir á annað borð vilja komast til annarra landa. En Íslendingurinn getur tekið ákvörðun á flugvellinum að taka lestina inn í borgina í stað þess að stíga inn í mengandi leigubíl. Þá eru lestarferðir skemmtilegur og vistvænni ferðamáti en bílaleigubílar þegar farið er á milli borga, landshluta og landa. Járnbrautarlestir eru þó misgóðar. Grænn ferðalangur forðast háværar dísilknúnar lestir, sem menga loftið, en velur frekar hljóðlitlar, rafdrifnar eða vetnisknúnar nútímalestir, sem fjölgar stöðugt. 

Beðið eftir lest

Lestin frá Feneyjum rennir inn á aðalbrautarstöðina í Mílanó – MYND: ÓJ

Ferðastu þangað sem þörf er á þér.  Já, það er ekki beðið um lítið! Þetta er harðsoðið ráð fyrir mestu töffarana. Þau sem vilja fara alla leið til að mæta ýtrustu kröfum um sjálfbærni ættu helst að fara þangað sem virkileg þörf er á ferðapeningum ykkar. Það er auðvitað erfitt að vísa fólki á slóðir þar sem hamfarir hafa gengið yfir eða stríð geisað og mikil þörf er á fjármunum til endurreisnar. Raunhæfara er að benda fólki á staði sem eiga lífsafkomu sína undir ferðaþjónustu, afskekktar eyjar eða staði þar sem íbúar treysta eingöngu eða því sem næst á tekjur af ferðaþjónustu. Svona staðir eru þarna – einhvers staðar.

Þessi hjón völdu hótel á Hólmavík – MYND: ÓJ

Hafðu eitthvað gagnlegt með í farteskinu. Í stað þess að troða í töskuna aukafatnaði sem ólíklegt er að einhver not séu fyrir gætir þú haft með þér einhverja hluti sem gagnast geta í því samfélagi sem þú ætlar að heimsækja. Þetta á sérstaklega við um staði þar sem fátækt ríkir og skortur er á hlutum sem okkur þykja hversdagslegir. Það eru til samtök sem aðstoða ferðalanga við að koma að gagni, t.d. Pack for a Purpose. Svo er líka í þágu umhverfisins að ferðast með lítinn farangur. Léttari flugvél eyðir minna eldsneyti. Lítil taska tekur minna rými í lestinni frá flugvelli á hótel.

Fáðu leiðsögn heimamanns. Besta leiðin til að fá innsýn í líf íbúa og kynnast umhverfi þeirra er að fá einn úr hópnum til leiðsagnar. Þannig skilur þú eftir tekjur í nærumhverfinu og meiri líkur eru á að þú kynnist fáfarnari slóðum, dreifir álagi og tekjum. Þegar keypt er leiðsögn í gegnum alþjóðlegar vefsíður er sjálfsagt að kanna hvort viðkomandi hafi heimafólk í vinnu. Kannaðu Shiroube og I Like Local.

Leiðsögn á Austurvelli – MYND: ÓJ

Virtu náttúruna. Á hverju ári birtast fréttir af utanvegaakstri á hálendi Íslands. Gjarnan er fákunnandi útlendingum kennt um þó það sé örugglega ósanngjarnt. Margt heimafólk fer ógætilega og virðir ekki náttúruna. Flestir ferðamenn vilja vanda sig. Það kostar mikið forvarnarstarf og upplýsingamiðlun að kenna fólki að umgangast náttúruna af virðingu. Ef ferðamaðurinn vill ekki misbjóða náttúru eða dýralífi verður hann að kanna aðstæður fyrirfram. Er örugglega í lagi að nálgast villt dýr með þeim hætti sem lofað er í auglýsingu? Dýraníð í þágu ferðamennsku er alþekkt fyrirbæri víða um heim. Upplýstur ferðamaður, sem vill ferðast með sjálfbærum hætti, styður ekki slíka starfsemi. 

Er maturinn sem þú borðar af sjálfbærum og náttúrurvænum toga? Ostrur á Normandí – MYND: ÓJ

Þetta eru aðeins nokkur ráð af fjölmörgum sem gefin eru þeim sem vilja ferðast með sjálfbærum eða vistvænum hætti, vera í sátt við samfélag og náttúru á viðkomustöðum á ferðalagi. Mörgum þykir vafalaust til of mikils ætlast, það sé ekki vinnandi vegur að fylgja þessum ráðum. Það sé betur heima setið. En það er engin ástæða til að bugast vegna of mikilla krafna heldur reyna sitt besta – fylgja einu góðu ráði frekar en engu.

Flugvél Icelandair tilbúin til brottfarar frá Keflavíkurflugvelli í vetrarmyrkrinu – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …