Samfélagsmiðlar

Ákvörðunarstaður myrkrið – Um Benedikt, Jesú, Pál postula, einn þingmann og okkur öll

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, var ræðumaður á aðventukvöldi í Dómkirkjunni 3. desember. Í yfirskrift erindisins er vitnað í heiti ljóðs og bókar Jóhanns Hjálmarssonar, „Áfangastaður myrkrið.” FF7 birtir hér erindi Jóns Kalmans í heild.

Horft úr Templarasundi í átt að Austurvelli - MYND: ÓJ

Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu; með þessum orðum hefst Aðventa Gunnars Gunnarssonar, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, sagan um Benedikt, óbreyttan vinnumann, sem ár hvert, í byrjun jólaföstu og helst á sjálfan aðventusunnudag, heldur á fjöll, upp í hin miklu öræfi, til að leita þeirra eftirlegukinda sem ekki höfðu ratað til byggða og mönnum sést yfir í öllum þremur haustgöngunum. Þetta eru þó ekki hans kindur, þær fáu skjátur fyrir löngu komnar í tryggt skjól fjárhúsanna; en það er fullkomið aukaatriði fyrir Benedikt. „Það var eins og hann bæri einhverskonar ábyrgð á þeim,“ segir snemma í þessari stuttu skáldsögu sem Gunnar skrifaði eftir pöntun frá Þýskalandi, lítið jólaævintýri fyrir þarlent tímarit, þrykkt á prent árið 1936. Saga sem hann skaut inn á milli þeirra höfuðverka sem hann áleit sig vera að vinna að, metnaðarfull verk – sem fáir lesa í dag, meðan Aðventa, bók skrifuð eftir pöntun, hvíld á milli höfuðverkanna, lifir enn góðu lífi, gædd töfrum sem erfitt er að standast og virðist ætla að verða, ásamt Svartfugli, það verk Gunnars sem hvað lengst og best lifa.

Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu; Aðventa er á sinn hátt jólaævintýri, sumir vilja kalla hana helgisögu, og vissulega hvílir einhver helgi yfir henni, og Benedikt með sína tryggu postula, hrútinn Eitil, hundinn Leó; og því erindi að leita uppi og bjarga frá vísum dauða, fáeinum eftirlegukindum, kindum annarra manna. Erindi sem Benedikt fær ekkert greitt fyrir og enginn biður hann um að inna af hendi, en gerir það samt, þrátt fyrir ómælt erfiði, því kindurnar skyldu „ógjarnan krókna eða falla úr hungri á fjöllum uppi“, eins og segir í Aðventu, „af þeirri ástæðu einni, að enginn nennti eða þyrði að leita þær uppi og koma þeim til byggða. Þær voru líka lifandi verur.“

Þær voru líka lifandi verur – það er helgi yfir þessari setningu, og hún endurómar orð úr Matteusar-guðspjallinu:

En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.

Og manni verður líka hugsað til einnar af dæmisögunum úr sama Guðspjalli:

Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Það eru margar fleygar setningar úr Biblíunni, gullkorn sem mörg lifa stök og án samhengis við textann sem þær eru teknar úr. Það á sumpart við orðin úr dæmisögunni sem ég vitnaði til – í framhaldinu er spurt í undrun: En herra, „hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka.“

Og hann svarar:

Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafði þér gjört mér.

Það má kannski segja að Benedikt sé íklæddur þessum orðum, og holdgerfingur dæmisögunnar. Hitt er annað, og umhugsunarvert, að við höfum öll þessi orð úr Biblíunni, bók sem hinn vestræni heimur, og ríflega það, byggir sína menningu á, öll þessu fallegu, áhrifamiklu, sláandi orð sem eiga að leiðbeina okkur í því flókna og erfiða verkefni að vera sæmileg manneskja. Orð sem við þekkjum jafnvel og hendingar úr vinsælustu dægurlögunum, orð sem eru hluti af blóðrennslinu; við þekkjum þau, höfum þau yfir, metum mikils og sækjum þangað huggun – en förum ekkert endilega eftir þeim. Kannski bara alls ekki. Líkast því að þau tilheyra ekki lífinu, séu eins og stjörnur á himni sem snerta ekki hversdag okkar. Eða: Túlkum þau, snúum þeim þannig að þau falli að okkar skoðunum og heimsmynd. Gamall vinur minn úr Keflavík, nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Þórarinsson, vænn, afar trúaður maður, menntaður í guðfræði, og reisti sér meira að segja kirkju á jörð sinni á Vatnsleysuströnd, sagði í erindi sem hann hélt í Seltjarnarneskirkju fyrir um tveimur árum: „Þegar kemur að móttöku kvótaflóttamanna hingað til lands tel ég veigamikil rök fyrir því að þeir séu kristnir.“

Ég hef alltaf öfundað fólk sem af heilindum trúir. Trúir á Guð, Jesú og heilaga þrenningu; að eitthvað miklu stærra og æðra en við, sé á bak við öll lögmálin, bak við allar vetrarbrautir og þá alheima sem eru hugsanlega til þarna úti. Að bak við allt sé Guð og hann heldur öllum þræðum í hendi sér.

Ef lífið er línudans, þá er trúin öryggisnetið undir. Sama hvað gerist, þá grípur náðin þig.

En sem barn velti ég því stundum fyrir mér hvernig Guði og Jesú kæmi saman dags daglega, hvort Guð skammaði hann, bannaði honum að leika sér úti eða hanga úti í sjoppu; en einnig, og á minn barnslega hátt, hvort kraftur Jesú kæmi frá Guði eða væri sjálfstæður; og hvort það væri einhver verkaskipting á milli þeirra. Og hvað með þessa heilögu þrenningu, hugsaði ég, er hún persóna, ræður Guð bara yfir henni eða líka Jesú…

Ég var satt segja mjög ringlaður og óviss yfir þessu. Og lái mér hver sem vill, því á fyrstu öldum kristninnar voru nokkur kirkjuþing lögð undir þetta efni. Svarið blasti nefnilega ekki við; til að mynda hvort Guð, Jesú og heilög þrenning væru eitt og hið sama eða þá aðskilin; og hvernig eru þá samskiptum háttað á milli þeirra; hvar nemur vald og kraftur Jesú staðar, en kraftur Guðs tekur við; og hvað er heilagur andi? Er þessi þrenning ævinlega samstíga; eða erum við að tala um einhverskonar þriggja flokka stjórn?

Við trúum á Jesú, og tilbiðjum hann: Erum við þá ekki komin með tvo Guði og búin að þverbrjóta fyrsta boðorðið: Þú skalt ekki aðra guði hafa?

Og er heilög þrenning þá sjálfstætt afl utan við Guð og Jesú? 

Niðurstaðan eftir rúmlega aldar þref, hártoganir og andvökunætur var sú að það er áreiðanlega bara einn Guð. En samt höfum við þessa þrenningu: Guð, Jesú, og heilagur andi.

Þrjár verur sem ekki verða greindar í sundur.

En eru, þrátt fyrir það, þrír sjálfstæðir veruleikar innan hins eina Guðdóms.

Við trúum á þrenningu í aðgreindum persónum, en jafnframt á einingu guðdómsins. Megum ekki rugla þeim saman, en greinum veruna samt ekki í sundur.

Með öðrum orðum: Hinn þríeini Guð.

Sem er í senn rökrétt niðurstaða, og fullkomlega óskiljanleg.

Sumar rökræður kirkjuþinganna voru þó jarðneskari, og það bókstaflega, því þau glímdu við hina þrálátu spurningu um sambandið milli hins mannlega og guðlega í Kristi. Fyrstu þrjú þingin, það fyrsta árið 325, virtust ýta undir þá skoðun að Jesús væri aðeins Guð, en ekki maður. En það skapaðist lítil sátt með þá niðurstöðu, þannig að fjórða kirkjuþingið var kallað saman árið 451 og þar var kveðið uppúr, að Jesús hefði sannarleg verið maður og því bundinn takmörkunum tíma og rúms – en kirkjunnar menn gátu ekki þó hugsað sér að Jesús hefði þurft að glíma við það sem fylgir því að vera maður, að vera bundinn sínum líkama; undirseldur girnd, harðsperrum, svitalykt, tannpínu. Og þurfti Jesú jafnvel að fara á klósettið?

Nei, þar námu kirkjunnar menn staðar. Þeir sögðu harðlega, hingað og ekki lengra, og kváðu uppúr með að Jesús hefði sannarlega neytt matar, en eigi haft hægðir.

Niðurstöður þessara kirkjuþinga og rúmlega 100 ára deilna, og það sem við göngum útfrá í dag, má því draga saman í tvær ólíkar setningar:

Jesús neytti matar en hafði eigi hægðir.

Jesús er Guð í eilífðinni, maður í tímanum.

En  hvort sem Jesús neytti matar eða ekki, þá breytti hann öllu. Bókstaflega öllu. Breytti ásýnd Guðs, og nam, með sinni fórn, dauða og loks með því að sigra sjálfan dauðann, lögmál Gamla testamentsins sumpart úr gildi. Lögmál Móses.

Það er Páll postuli sem einna fyrstur kemst að þessari niðurstöðu; að líf, fórn og dauði Krists hefðu numið gömlu lögmálin úr gildi. Sá lærði, duglegi, umdeildi Páll, grískumælandi Gyðingur sem kom úr allt annarri átt en aðrir postular, og flestir þeir sem voru vel megandi í frumkirkjunni. Bréf hans eru elstu rit Nýja testamentsins, skrifuð uppúr 50, eða rúmum 20 árum eftir dauða Krists, sem Páll hitti aldrei; og um 20 árum áður en elsta Guðspjallið var fest niður; í kjölfar misheppnaðrar uppreisnar Gyðinga og síðan eyðileggingu mustersins í Jerúsalem, sem var mikið áfall – Markúsar guðspjallið, það elsta, er því skrifað á tímum áfalla, tráma, í sögu Gyðinga og frumkristninnar.

En ef eitthvað var ritað um Jesú meðan hann lifði, eða haft eftir honum, þá er það fullkomlega glatað. Allt sem tengist og lýsir honum var skrifað löngu eftir hans dag; þegar sögurnar höfðu farið í gegnum kynslóðir, og tekið þar sínum breytingum eins og sagna er háttur og eðli.

Allt er því í óvissu, hvað gerðist, hvað var sagt – það er, ef maður er ekki sannfærður í trúnni. Ef maður er ekki trúaður.

Sem breytir því ekki að ævi Jesú, hvernig sem hún var í raun og sann, gerbreytti öllu; ævi hans og orð – eins og það birtist okkur í guðspjöllunum fjórum í Nýja testamentinu.

Bréf Páls höfðu þó ekki síður djúplæg áhrif; áhrif sem rista líklega mun dýpra en margur gerir sér grein fyrir. Bæði það sem hann skrifaði en einnig – það tengist raunar – hans þrotlausa verk að fara víða til að kristna þá sem ekki voru Gyðingar.

Ein af helstu deilum sem Páll átti í við aðrar deildir eða skóla innan frumkristninnar á þessu tíma, snerust einmitt um það hvort og þá hvernig ætti að kristna heiðingja, það er, þá sem ekki voru Gyðingar. Skólinn kenndur við Jerúsalem var líklega einskonar valdamiðja, þar sat í forsæti Jakob, bróðir Jesú, og hann, ásamt mörgum innan frumkristninnar, hneigðust til þess að halda boðun Krists innan raða Gyðinga; ef það ætti hinsvegar að kristna þá sem ekki væru Gyðingar, skyldu þeir undirgangast alla þeirra siði.

Öfugt við félaga sína suður í Jerúsalem, Jakob og Pétur postuli þeirra á meðal, var Páll heimsmaður; vel menntaður, afskaplega vel að sér í ritum Gamla testamentsins, fór víða til boða fagnaðarerindið og rakst þar á hindranir; til að mynda þær að fólk sem vildi taka á móti Kristi, var ekki reiðubúið að kasta öllum siðum sínum og menningu, frá sér, og gangast undir siði Gyðinga, svo sem að láta umskera sig – sem var ekki hættulaust værir þú kominn á fullorðins ár. Þessvegna var ein heitasta deila innan frumkirkjunnar um það hvort óumskorinn karlmaður gæti tekið á móti fagnarerindi Krists.

Hljómar undarlega, ef ekki fáránlega, í eyrum nútímamannsins, en þetta voru harðar deilur, lengi vel óvíst um niðurstöðu, og kristnin hugsanlega ekki náð mikilli útbreiðslu, eða það hefði hægt verulega á henni, hefði Páll ekki haft þar sigur.

Bréf Páls höfðu mótandi áhrif á kirkjuna og hugsanir okkar um guðdóminn. Það er hinsvegar mikilvægt að hafa í huga að af þeim 13 eða 14 bréfum sem um aldir voru eignuð honum, þá eru einungis 7-8 eftir hann, hin skrifuð eftir hans daga. Og sum þeirra sem voru sannarlegu skrifuð af Páli, eru fleyguð seinnitíma innskotum sem sum urðu bæði fleyg og alræmd; til að mynda að konur skuli „þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima.“

Þessi orð ganga þvert á skoðanir Páls víða í bréfunum; og þetta innskot, sem og önnur skyld, eftir nafnlausa, íhaldsama fulltrúa feðraveldisins, hafa í aldir verið notuð til að halda konum niðri, kúga þær – og svert ímynd Páls postula.

En – þegar hátíð fer í hönd.

Ég var nefnilega að tala um Benedikt í Aðventu, og nefndi síðan gamlan félaga úr Keflavík, þingmann Sjálfstæðisflokksins, afar trúaðan mann, sem vill helst ekki aðra flóttamenn en þá sem eru kristnir.

Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Óvíða í Biblíunni, í báðum ritum þess, finnum við setningar sem virðast kjarna sjálfa gæskuna.

En manneskjan er full af mótsögnum, og ein þeirra er sú að stundum er leitun af þröngsýnna fólki en því sem telja sig sannkristið, fólk sem í sínu daglega lífi og orðum virðist stöðugt taka mið af orðum Biblíunnar og Krists. Ég veit ekki hvort minn gamli vin úr Keflavík, og þingmaður, sé í slíkum hópi, en orð hans um flóttamenn, að við skulum hiklaust að taka kristna einstaklinga framyfir aðra, virðast því miður benda í þá átt. Með þeim virðist hann skipa sér í hóp þeirra, því miður sístækkandi, sem vilja skipta veröldinni upp í okkur og hina.

Samkvæmt þeim skilningi eru hinir minnstu bræður okkar einvörðungu þeir Kristnu.

Fólkið sem drukknar núna á Miðjarðarhafinu, manneskjur sem yfirgáfu heimkynni sín, yfirgáfu allt sem það átti og tók það eitt með sér sem það gat borið á langri ferð, yfirgáfu menningu sína, æsku, staðina sem eru þeim hjartfólgnir, samfélagið sem það þekkir; yfirgefa það vegna hörmunga af völdum stríðs, hnattrænnar stiknunar og eina vonin um mannsæmandi líf er að leggja upp í langt, mjög erfitt, óvisst ferðalag; til þess eins að drukkna í lekum bátum eða vera vistað í ömurlegum flóttamannabúðum; neitað um að eignast annað líf. Neitað um að fá að elta drauma sína. Neitað um að búa börnum sínum trygga framtíð. Þau eru þyrst, en við gefum þeim ekki að drekka, vegna þess að þau eru ekki kristin, tilheyra okkur ekki. Þau eru hvorki bræður okkar né systur. Ekki heldur meginþorri Palestínumanna sem nú missa heimili sín, fjölskyldu, vini. Þau eru ekki bræður okkar og systur, og við snúum baki við þeim.

Þær veru líka lifandi verur, hugsar Benedikt í Aðventu, og fer þessvegna í sitt erfiða ferðalag til að sækja þær kindur sem hann ekki á.

Og maður hugsar kannski; bara ef maður hefði kjark, afl, og þá góðsemd sem þarf að hafa til að fylgja því sem Kristur boðaði.

En það er erfitt að vera manneskja.

Það er svo margt sem fennir að okkur.

Hversdagurinn umlykur okkur hvern dag, hvern klukkutíma, hverja mínútu, hverja sekúndu, með suði sínu. Umlykur og mylur niður drauma og háleitar fyrirætlanir. Það þarf að gera þetta, og það þarf að gera hitt. Dagarnir þrotlaust flæði af smáum og stórum verkefnum hversdagsins. Höfum ekki tíma til að sinna öðru. Höfum ekki aflið eða viljann til að fylgja Benedikt eftir upp á öræfin. Hvort sem hann er að bjarga kindum eða vaða út í Miðjarðarhafið til að draga sökkvandi báta að landi, ganga þrjóskur á milli ráðamanna og minna þá á að allt það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra, það gerum við líka okkur sjálfum.

Erfitt að vera manneskja sem þráir að gera eitthvað gott, sem í einlægni vill gera heiminn að betri stað. Erfitt vegna þess að það er svo ískyggilega auðvelt að láta hversdaginn svæfa sig. Og lifa í suði hans.

Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurkramið hjarta, segir í Sálmunum; Drottinn er þeim nálægur. En hvað um okkur?

„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ segir Kristur í Markúsarguðspjalli, og bætir við: „Ekkert boðorð annað er þessu meira.“

Það er auðvitað freistandi að skipta veröldinni upp í okkur og hina. Gleyma því, þykjast ekki muna, að heimurinn okkar, þessi fallega, bláa pláneta, er bara agnarsmár dropi í ógnarvíðáttu himingeimsins. Dropi umluktur myrkri. Eða þá bátur sem siglir það myrkur, og við öll þar af leiðandi þóftubræður. Að halda öðru fram er ekki bara rangt; það er að afneita einföldum staðreyndum. Og markviss leið til að gera heiminn að verri stað.

Elskaðu náungann eins og sjálfan þig. 

Góðsemdin, gæskan, samúðin, samhygð til annarra á okkar bláu plánetu í myrkri einsemd himingeimsins, ætti því ekki að vera undantekning heldur rökrétt niðurstaða. Niðurstaða sem Jesús dró saman í þeim orðum, að allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Skýrari verður það ekki:

Að þeir sem vilja eða hneigjast til að skipta veröldinni í okkur og hina, ganga gegn Kristi. Ganga gegn gæskunni. Ganga gegn því besta, fallegasta, mikilvægasta og sárasta í manneskjunni.

Það er eitthvað sem vert er íhuga á aðventunni.

Jón Kalman Stefánsson,

Flutt í Dómkirkjunni 3. desember 2023

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru mikilvæg tekjulind fjölmiðla allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 starfar samkvæmt íslenskum …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …