Samfélagsmiðlar

Blóðmissirinn gerði hann að Nóbelsskáldi

Þegar Jon Fosse var sjö ár komst hann í nálægð við dauðann og hafa þau kynni við dauðann litað allt  höfundarverk hans;  bæði skáldverk, leikrit og ljóð. Síðastliðinn laugardag veitti Jon Fosse viðtöku hinum æðstu verðlaunum bókmenntanna fyrir þessi bókmenntaafrek sín.

Jon Fosse tekur við Nóbelsverðaunum í bókenntum úr hendi Karls Gústafs, Svíakonungs - MYND: Nóbelnefnd Sænsku akademíunnar

Hinn nýbakaði Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, Jon Fosse, er bóndasonur. Hann ólst upp á litlum bóndabæ við Strandebarm á vesturströnd Noregs og átti hamingjuríka æskudaga þar. Þó lenti hann í alvarlegu óhappi þegar hann var sjö ára og var nær dauða en lífi. Vetrardag einn átti Jon Fosse einhver erindi með glerflösku fulla af appelsínusafa út á stétt þar sem flughálir svellbunkar höfðu myndast í norska vetrarfrostinu. Hann var eins og svo oft áður annars hugar og flaug á hausinn, missti flöskuna sem sveif eitt andartak í lausu lofti en lenti á stéttina við hlið hins sjö ára Jon Fosse og brotnaði í þúsund mola. Glerbrotin stungust inn í líkama litla drengnum og svo óheppilega vildi til að eitt glerbrot skar í sundur púlsæðina á úlnliðnum. Með snarræði tókst mömmu Fosse að stöðva blóðstrauminn en drengurinn hafði þegar misst mikið blóð. Hann var keyrður í snarhasti í bíl fjölskyldunnar á næsta sjúkrahús.

„Ég sat í bílnum en ég var ekki inni í sjálfum mér heldur sveif ég um og horfði á sjálfan mig sitja inni í bílnum fölur eins og kríuskítur,“ hefur Jon Fosse sagt í viðtölum þar sem skáldið rifjar þetta atvik upp. „Ég gerði mér grein fyrir að ég væri að deyja. Ég sá einhvern skjannabjartan ljóma í kringum mig. Mikla ofurbirtu. Allt var mjög friðsælt. Ég fann ekki fyrir sorg eða ótta heldur var það einungis fegurð augnabliksins sem greip mig.“

Einmitt þessi reynsla, þessi stuttu kynni við dauðann, hefur litað allt  höfundarverk Jons Fosse;  bæði skáldverk, leikrit og ljóð. Síðastliðinn laugardag veitti hann einmitt viðtöku hinum æðstu verðlaun bókmenntanna fyrir þessi bókmenntaafrek sín.

Stoltur verðlaunahafi – MYND: Nóbelsnefnd Sænsku akademíunnar

„Ég segi oft að til séu tvennskonar tungumál: orðin sem ég skrifa, orðin sem lesandinn skilur, en bak við þau leynist tungumál þagnarinnar og einmitt þar liggur kannski hin raunverulega merking. Það er aðeins í þögninni sem maður greinir rödd Guðs.“

Bækur Jon Fosse eru ekki sérlega vel þekktar utan Evrópu. Bandaríkjamenn byrjuðu til dæmis aðeins fyrir rúmu ári að þýða bækur hans. Í Evrópu hefur hann hins vegar verið mikil stjarna í áratugi, sérstaklega fyrir leikrit sín sem þykja minna mjög á verk Samuels Becketts.

Í tilefni af Nóbelsverðlaununum hefur Jon Fosse undanfarna daga verið á ferð um Svíþjóð og Noreg til að veita fjölmiðlum viðtöl. Í samtali við norskan blaðamann sagði hann að hann hefði ekki látið sér detta í hug að verða rithöfundur þegar hann var barn. Lífið snerist um búskap og pabbi hans sá þar að auki um verslunina í nálægu þorpi þar sem hann hjálpaði til. „Ég hafði miklu meiri áhuga á tónlist en á lestri. Sem unglingur var ég síðhærður eins og Bítlarnir og spilaði á gítar. Ég varð hljómsveitarmeðlimur þótt ég væri hörmulega lélegur á gítar. En þegar ég varð 14 ára – ég veit ekki hvað gerðist – hætti ég bara að spila á gítarinn minn, slökkti á plötuspilaranum og hætti líka að hlusta á tónlist. Í staðinn fyrir tónlistina fór ég að skrifa ljóð og sögur. Ég færði takt tónlistarinnar yfir á orðin og lagði mig fram um að ná þungum takti í skrifin og notaði endurtekningar eins og ég væri að reyna að halda tengslum við tónlistina. Svona hef ég skrifað í 40 ár.“

Fyrsta bók hans „Raudt, svart“  kom út árið 1983 og þá var Fosse tuttugu og fjögurra ára gamall. Á þeim árum gerði hann mikið úr því að hann væri trúleysingi og umgekkst fólk sem var sama sinnis í trúmálum. Að vísu var það í tísku á þessum árum að skrifa mjög pólitískar bækur. Allar bókmenntir áttu að vera pólitískar en Jon Fosse var því ekki sammála. „Bókmenntir eiga að snúast um bókmenntir og eiga ekki að reyna að hafa pólitísk markmið … ekki heldur trúarleg markmið.“

Eftir því sem Fosse skrifaði meira, sökkti sér dýpra ofan í skrifin, – hann gerði aldrei nein drög að því sem hann ætlaði að skrifa heldur lét textann bara velta út úr sér – fór hann að fjarlægjast trúleysið og hugmyndin um að Guð hefði áhrif á það sem hann skrifað sótti á hann. Áhugi hans á trúmálum jókst og hann fór að sækja fundi trúfélaga. Árangurinn var að smám saman fannst honum að skrifin bæru í sér þá ró og þá friðsemd sem hann hafði dreymt um að setja á blað. Á árunum í kringum 1990 gaf Jon Fosse út bókmenntarit þar sem hann tók Guð inn í skrif sín í andstöðu við þá pólitík sem þá var lenska. Þetta voru hvorki fræðslurit né neins konar trúboð. Fosse reyndi bara að vera opinn fyrir dulúð lífsins.

Á tíunda áratug síðustu aldar urðu leikrit Jon Fosse skyndileg mjög vinsæl og voru sett á svið um alla Evrópu. Höfundurinn ferðaðist linnulaust milli leiksviða til að hjálpa til við uppfærslu leikritanna sem veru ansi dularfull, minimalísk, melankólísk og alvarleg. Fyrir leikhúsmenn þess tíma var þetta mikil opinberun, gersamlega nýtt og byltingarkennt leikhús.

Á flakkinu milli leikhúsa missti Fosse tökin á áfengisdrykkju sinni. Hann var daglega undir áhrifum áfengis og drakk þegar verst lét eina flösku af vodka á dag. Áfengi var það eina sem hann lét ofan í sig og á endanum gafst líkaminn upp. Leikskáldið hrundi niður þegar hann var viðstaddur æfingu á einu af leikritum hans. Hann var keyrður í skyndi á spítala með alvarlega áfengiseitrun og þurfti að dvelja undir læknisumsjá í nokkrar viku. Þegar sonur hans sótti hann til að keyra hann heim eftir spítalavistina ákvað skáldið að hætta að drekka áfengi. „Nú er komið nóg, Jon,“ sagði hann við sjálfan sig og hefur hann ekki bragðað áfengisdropa síðan. Þetta áfall hafði svo mikil áhrif á höfundinn að hann fór að sækja kaþólskar messur „sem flytja sálina út úr sjálfum þér, alveg eins og þegar þú skrifar.“ Ári síðar snerist hann til kaþólskrar trúar. 

Nú hafa þrír kaþólskir rithöfundar frá Norðurlöndum fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum: Jon Fosse, Halldór Laxness og Sigrid Undset.

Jon Fosse hefur verið orðaður við Nóbelsverðlaunin í að minnsta kosti áratug og í hvert skipti sem október nálgaðist, mánuðurinn þegar Nóbelsverðlaun í bókmenntum eru tilkynnt, hefur Jon Fosse verið mjög órólegur. Og í ár gerðist það sem hann hafði óttast svo mjög og þráði svo heitt. Símtalið barst frá Stokkhólmi. „Ef þú trúir mér ekki,“ sagði röddin í símanum sem hafði tilkynnt honum um niðurstöðu Nóbelsnefndarinnar, „skaltu bara kveikja á útvarpinu klukkan eitt þá verður heiminum tilkynnt að Jon Fosse hafi unnið Nóbelsverðlaun í bókmenntum.“

Um leið og Jon Fosse stakk símann sínum aftur í buxnavasann hljóp hann út í bílinn sinn að gerðinni Toyota Yaris. Hann þaut af stað og lagði leið sína burt frá Ósló. Jon Fosse ákvað að láta sig sig hverfa. Hann brunaði þangað sem hann taldi sig óhultan fyrir alheimspressunni. Það kom í ljós að ekki auðvelt að fela sig í jafn litlu samfélagi og hinu norska þótt landið sé stórt. En Fosse reyndi.

Það tók NRK, norska ríkisútvarpið, þrettán klukkustundir að hafa upp á skáldinu. Fosse hafði falið sig í Frekhaug á vesturströnd Norður-Noregs, 463 km ökuleið frá Ósló. En höfundurinn var í of miklu uppnámi til að tala við fréttamenn. 

„No comment!“

„Í ár gerðist það sem hann hafði óttast svo mjög og þráði svo heitt“ – MYND: Nóbelsnefnd Sænsku akademíunnar

Á íslensku er fáanlegar sex bækur eftir Jon Fosse:
Morgunn og kvöld
Draumar Ólafs
Andvaka
Kvöldsyfja
Þetta er Alla
Þannig var það

Til að kaupa bækur Jons Fosse á íslensku er hægt að nálgast þær hér: Forlagið bókabúð eða hjá útgefandanum á Íslandi, bókaforlaginu Dimmu.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …