Samfélagsmiðlar

„Fjölþjóðasamfélagið sigraði í Dúbæ“

„Mörg vandamál voru skilin eftir á COP28," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem segir að þó niðurstaðan í Dúbæ sé ekki bindandi þá hafi hornsteinn verið lagður að því að skilja jarðefnaeldsneyti eftir í fortíðinni.

Forseti COP28, Sultan Ahmed Al-Jaber - MYND: COP28

„Alþjóðleg samvinna stendur höllum fæti, stríð í Úkraínu og Palestínu. Sameinuðu þjóðirnar virðast lítils mega sín. Hvort heldur horft er á sjónvarp eða fréttir lesnar á vefnum blasa við limlestingar og dráp á saklausum börnum. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir ályktun um vopnahlé með yfirgnæfandi meirihluta en hún er ekki bindandi. 

Hið sama gildir um niðurstöðu COP28 í Dubai. Hún er ekki bindandi. Engu að síður virðist ljóst að í Dubai var lagður hornsteinn alþjóðlegrar samvinnu til að skilja jarðefnaeldsneyti eftir í fortíðinni.

Jafnframt var samþykkt var að þrefalda nýtingu endurnýjanlegrar orku fyrir árið 2030. Við megum engan tíma missa. Fjölþjóðasamfélagið sigraði,“ sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, þegar FF7 leitaði fyrstu viðbragða hans við niðurstöðu Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dúbæ í morgun.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands

Þó margir fagni tímamóta samningi í Dúbæ er gríðarlega margt óunnið, segir Árni:

„Mörg vandamál voru skilin eftir á COP28. Fátæk ríki fengu enga tryggingu fyrir fjármögnun aðgerða til að gera þeim kleift að þróa hagkerfi sín með endurnýjanlegum orkugjöfum. Fjármögnun hamfarasjóðs til að bæta þessum ríkjum tjón af völdum ofsaveður, langvarandi þurrka eða eyðingu skóga er hafin. Allir fögnuðu – en allir vita að mikið skortir á til að unnt verði að bæta þann skaða sem efnalitlar þjóðir ráða ekki við. Bandaríkin lögðu til 17 milljónir dollara. Ein F16 stríðsþota kostar ríflega 60 milljónir dollara!“

Árni setur þessa fjárhæð í íslenskt samhengi: 

„Tjónið í Grindavík og nemur milljörðum króna og Íslendingar ráða við að koma Grindvíkingum til aðstoðar en upphaflegt framlag Íslands til hamfarasjóðsins nemur 600.000 dollurum eða 84 milljónum króna á gengi dagsins. Þetta er til umhugsunar nú á aðventunni.“

En er samningurinn á COP28 ekki mikilvægur áfangi?

„Í Dubai náðist samstaða meðal mikils meirihluta nærri 200 aðildarríkja Parísarsamningsins, stórra sem smárra, um að kol, olía og gas væru best geymd neðan jarðar. Bandaríkin, smáu eyríkin, Evrópusambandið, Suður Ameríka, Ástralía og litla Ísland lýstu því öll yfir að útfasa yrði jarðefnaeldsneyti til að eygja von á að takmarka hækkun hitastigs Jarðar við 1,5 gráður á Celsíus við lok þessarar aldar.  Það er mjög stórt skref.“

En það fylgir ekki tímasett áætlun. Það hlýtur að valda áhyggjum? 

„Samkomulagið er ekki lagalega skuldbindandi og eftir eru alls kyns undankomuleiðir fyrir ríki sem vilja komast hjá aðgerðum, öllum til heilla. Áfram mun framtíð smárra og láglendra eyríkja hanga á bláþræði enda langt í að tryggt verði að unnt verði að takmarka hækkun hitastigs við 1,5 °C. Að sama skapi er alls óvíst að hægt verði að stöðva mjög hraða súrnun í Norður Atlantshafi sem segir okkur að framtíð Íslands hangir á sama þræði og vonir Marshall-eyinga í Kyrrahafi um að heimili þeirra verði enn ofan sjávar við lok þessarar aldar.“

En þegar rætt er um loftslagsmálin er mikilvægt að missa ekki trúna, eins og Árni Finnson leggur áherslu á:

„Stóra myndin lofar góðu. Þróun vindorku er mjög hröð og sólarorka þróast enn hraðar. Með þróun er átt við að orkuframleiðsla eykst og kostnaður á orkueiningu minnkar. Indland heitir því að stórauka nýtingu sólarorku og þrátt fyrir öll kolaorkuverin fjárfesta Kínverjar mest allra þjóða í sólarorku. Samhliða þessari jákvæðu þróun verða rafhlöður æ minni og ódýrari. Í dag er hægt að hlaða rafhlöður fyrir heimili að degi til hafa nóg rafmagn yfir nóttina. Auk þess færast möguleikar til að nýta sólarorku æ norðar.“

En hver eru tækifæri Íslands til að hafa áhrif á stóru myndina?

„Tækifæri Íslands felast í að hafa áhrif og ná árangri í umhverfismálum með aþjóðlegri samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna er besta dæmið þar um. Í dag stöndum við frammi fyrir mjög örri bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum. Við því verða íslensk stjórnvöld að bregðast með banni við bruna og flutningi á svartolíu innan 12 mílna landhelgi. Slík aðgerð af Íslands hálfu gæfi skýr skilaboð á vettvangi Alþjóðasiglingamála-stofnunarinnar (IMO), á vettvangi Norðurskautsráðsins og í norrænni samvinnu, um nauðsyn þess að hægja verulega á bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum. Aðgerð sem myndi setja Ísland á kortið í baráttunni fyrir verndun Norðurslóða.“

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …