Samfélagsmiðlar

Gamla netagerðin á Ísafirði glædd nýju skapandi lífi

Listafólk, arkitekt, klæðskeri, blómaskreytir, leirlistafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar á ýmsum sviðum hafa nú glætt efri hæð gömlu netagerðarinnar á Ísafirði nýju lífi. Halla Ólafsdóttir heimsótti þessa orkustöð á Ísafirði og ræddi við þau sem þar stunda sína skapandi vinnu.

Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, forsprakki vinnustofunnar í Netagerðinni á Ísafirði - MYND: HÓ

„Ég hugsaði að ég myndi kannski fylla einn þriðja af þessum 680 fermetrum og ákvað að taka fyrst bara helminginn – svo leið mánuður og þá var ég búin fylla þann þriðjung,“ segir Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, forsprakki nýrra skapandi vinnustofa í gömlu Netagerðinni á Ísafirði.

Litla systir Íshússins í Hafnarfirði

Heiðrún Björk er listakona og hönnuður frá Ísafirði. Hún flutti fyrir tveimur árum aftur vestur úr Garðabæ. „Mig vantaði vinnustofu og ég saknaði Íshússins í Hafnarfirði og langaði til að hafa Íshúsið á Ísafirði. Þegar ég sá þetta húsnæði losna þá fannst mér snjallt að vinna með þetta konsept og fá fleiri í lið með mér,“ segir hún. Íshúsið í Hafnarfirði er samstarf skapandi hönnuða, iðn- og listamanna í gömlu frystihúsi við smábátahöfnina í Hafnarfirði. Heiðrún var með vinnustofu í Íshúsinu í hátt í fimm ár. „Netagerðin er svona litla systir Íshússins,“ segir Heiðrún. 

Gamla netagerðin – MYND: ja.is

Vinnustaður netagerðarfólks 

Hús netagerðarinnar stendur við Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði, á milli Eyrarinnar á Ísafirði og Holtahverfis. Lengi vel var Netagerð Vestfjarða í húsinu og nú síðustu ár Hampiðjan þar til hún flutti í nýtt atvinnuhúsnæði á Suðurtanga á Ísafirði. Húsið er nú í eigu Vestfirskra verktaka. Enn má sjá króka og tæki í vinnustofunum sem áður fyrr voru nýtt við netagerð og viðgerðir. 

„Ef einhver getur gert eitthvað – þá get ég það líka“

Heiðrún tók við húsinu 19. apríl og hefur varið nótt og degi í að útbúa 26 vinnustofur sem um fjörutíu manns deila. „Það er dýrt að fá smiði í vinnu, fólk er líka fast í vinnu og svona. Ef einhver getur gert eitthvað – þá get ég það líka,“ segir Heiðrún. Vinnustofurnar eru gerðar úr þeim efnivið sem hefur fallið til; leikmynd úr kvikmyndaverkefni sem var áður í húsinu, gömlum hurðum og gluggum úr gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði, vörubrettum og hinu og þessu. „Fólk hefur okkur í huga og vill frekar að hlutir nýtist heldur en að henda þeim. Þannig hefur þetta orðið að samvinnuverkefni bæjarbúa,“ segir Heiðrún. Þegar fólk kemur svo við í Netagerðinni er eins víst að það rekist á gamla parketið sitt eða rúmgaflinn. Eina efnið sem Heiðrún hefur þurft að kaupa er málning á gólfið, skrúfur og raflagnaefni. 

Kjartan Árnason – MYND: HÓ

Alls staðar tilraunir með rými, form og efni

Undir stórum þakglugga innarlega í Netagerðinni hefur Kjartan Árnason, arkitekt, komið sér fyrir. „Ég var búinn að ganga með draum í maganum í mörg ár að það yrði til eitthvað samsvarandi þessu rými og þegar ég sá að þetta væri að gerast þá meldaði ég mig,“ segir Kjartan. Hann segir að þótt auðvitað sé ekki hægt að ganga að neinu vísu þá sé þetta, enn sem komið er, framar öllum vonum. 

Vinnurýmin eru misstór – MYND: HBJ

Þótt Heiðrún Björk hafi sett upp vinnustofurnar þá er það undir hverjum og einum komið að útbúa þær og innrétta eftir eigin nefi. „Það er mjög skemmtilegt að sjá frumleg efnistök og tilraunir með rými, form og efni,“ segir Kjartan. „Og það er hægt að gera gólfefnaprufur – án þess að skemma neitt!“

Teikningar af stúdentagörðum – MYND: HÓ

Kjartan starfar mikið með öðrum arkitekt, Ólafi Hjördísarsyni Jónssyni, sem er staðsettur á Höfuðborgarsvæðinu. Þeir sinna verkefnum um allt land en Kjartan telur að um helmingur verkefnanna séu á Vestfjörðum – allt frá innréttingum í skipulagsverkefni. „Við sinnum því sem rekur til okkar,“ segir Kjartan og sem dæmi má nefna að Kjartan og Ólafur teiknuðu nýja stúdentagarða fyrir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða sem voru opnaðir á Ísafirði fyrir skömmu. 

Jólaskraut á 200 þúsund – MYND: HÓ

Vinnustofur, samkomusalur og listagallerí

Til viðbótar við vinnustofurnar 26 er unnið að því að útbúa lítinn sal fyrir viðburði, námskeið og sýningar og þá er í anddyri Netagerðarinnar lítið gallerí sem hefur fengið nafnið Andvari. Þar eru haldnar samsýningar listafólksins í Netagerðinni sem og gesta. Síðasta sýning hét Það er heiður að fá að hanga hér og var sýning á jólaskrauti eftir listafólk Netagerðarinnar. Jólaskrautið var til sölu og kostaði tvö hundruð þúsund krónur stykkið – og var þannig vísun í umdeilda ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að útnefna ekki bæjarlistamann heldur kaupa jólaskraut fyrir tvö hundruð þúsund krónur. Núverandi sýning í gallerí Andvara er eftir nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði.  

Netagerðin reyndist himnasending

Innan um fallegar skálar, bolla og ýmis tól til leirvinnslu starfar Unnur Bjarnadóttir, leirlistakona. „Ég var nánast búin að gefa það upp á bátinn að geta haldið áfram að vinna með leir eftir að ég flutti inn á Ísafjörð,“ segir hún. Unnur flutti úr Dýrafirði á Ísafjörð fyrir tveimur árum og hafði ekki haft vinnuaðstöðu eftir að hún flutti, enda mikið sem fylgir leirnum: rennibekkur, áhöld og ofn. Það var því himnasending þegar hún sá aðstöðu auglýsta í Netagerðinni.

Unnur Bjarnadóttir – MYND: HÓ

Unnur hefur unnið með leir síðan 1988 og það jókst eftir að hún flutti á Núp í Dýrafirði 1992 þar sem hún var með góða aðstöðu. Smám saman fór hún að helga sig leirlistinni og hún gerir einna helst það sem hún kallar nytjalist; skálar, blómavasa, blómaker og bolla. Þegar hún missti aðstöðuna varð hlé á vinnunni.

Bollar eftir Unni – MYND: UB

Netagerðin opnaði því nýjar dyr fyrir Unni sem hún sá ekki fyrir. Hún á fimm börn sem eru nú öll orðin stór og nú hefur hún því bæði tíma og aðstöðu til að helga sig leirlistinni á ný. Unnur mætir flesta daga í Netagerðina. „Ég fæ fráhvarfseinkenni ef ég kem ekki,“ segir hún og hlær. „Þetta er núna mín vinna – og ég fæ rosalega mikið út úr þessu.“

Þróar nú vörur úr laufblaðaleðri

Skapandi vinnustofur Netagerðarinnar eru á annarri hæð hússins og þangað inn er gengið bakatil og þaðan upp stiga. Auk anddyrisins er eitt stórt rými á jarðhæðinni þar sem Heiðrún Björk hefur komið sér fyrir. Heiðrún hefur starfað sem listakona og hönnuður síðan 2010. Þá bjó hún á Grænlandi og fór að vinna með selskinn. Hönnunin vatt hratt upp á sig og fljótlega fór hún að helga sig alfarið hönnun. Hún vinnur mikið með leður skinn og fjaðrir – aukaafurðir sem annars myndu fara í urðun. „Núna er ég komin með nýtt efni í hendurnar – laufblaðaleður! Það er leður úr stórum laufblöðum. Þetta er vistvænt, vegan,“ segir Heiðrún en hún rakst á efnið í New York þar sem er leðurverksmiðja sem vinnur þetta efni. „Ég verð fyrst á Íslandi til að vera með 100% vegan leður,“ segir hún.

Laufblaðaleður – MYND: HBJ

Gerði allt sem hún gat með barn á bakinu

Brattur stigi leiðir fólk upp á efri hæð Netagerðarinnar. Næst stiganum hefur Íris Ösp Heiðrúnardóttir komið sér fyrir. Íris var sú fyrsta til að koma sér upp vinnustofu enda hefur hún verið með mömmu sinni í verkefninu frá upphafi. „Ég gerði allt sem er hægt að gera með barn á bakinu,“ segir Íris. „Eins og að mála og skipta mér af – en mamma á heiðurinn af allri smíðavinnunni.“ 

Íris Ösp Heiðrúnardóttir – MYND: HÓ

Íris ver öllum tíma sem hún á aflögu í Netagerðinni. „Ég er alltaf að vonast til að geta starfað alfarið sjálfstætt,“ segir Íris, en það breyttist eftir að hún eignaðist barn á síðasta ári. Þessa dagana er Íris að vinna með keramík og er að gera það sem hún kallar lifandi persónuleikabolla. „Þeir eiga hug minn allan, þeir eru líka svo góð hugleiðsla,“ segir Íris. 

Í vinnustofu Írisar má einnig líta vatnslitamyndir og lager af jógaspilum. Íris er jógakennari og fyrir jólin 2019 hannaði hún og vatnslitamálaði spilastokk með 52 jógastöðum. „Það var náttúrlega frábær tímasetning, því þetta var rétt fyrir covid og allir fóru að gera jóga heima hjá sér,“ segir Íris. Ári síðar gaf hún út barnaútgáfu af spilunum. Spilin hafa verið endurprentuð mörgum sinnum. „Ég er að vinna að nýju jógaspili en ég veit ekki hvenær það kemur út. Nú eiga bollarnir hug minn allan,“ segir Íris. 

Bollar eftir Írisi – MYNDIR:

Íris segir að Netagerðin hafi farið langt fram úr björtustu vonum. „Mig langaði til að þetta yrði staður fyrir skapandi einstaklinga til að koma saman og hjálpast að, að hver og einn listamaður sé ekki út af fyrir sig í sínu eigin rými.  Ekki endilega að vinna að sama verkefninu heldur að hjálpast að,“ segir Íris. Hún segir að þær mamma hennar hafi búist kannski við sex einstaklingum í húsið en nú er biðlisti og að hún ákvað að deila sinni vinnustofu með hjónum sem þær mæðgurnar vildu endilega fá í húsið. „Þetta sprakk algjörlega,“ segir Íris. 

Eftirspurnin kom á óvart

„Það er miklu meiri þörf en mig grunaði. Ég þekki fullt af fólki í bænum en hér er fullt af bláókunnugu fólki, allt öðru fólki en ég sá fyrir mér að myndu nýta rýmið,“ segir Heiðrún. „Ég hélt að ég myndi ekki ná jafnmörgum listamönnum hingað – eins og ég raunverulega gerði. Ég hélt að þetta yrði frekar skrifstofur, en svo er hérna bara öll flóran af list,“ segir Heiðrún Björk. „Þetta er vettvangur fyrir fólk til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, koma þeim á markað og stofna til samstarfs. Við erum sterkari saman. Svo er þetta líka bara félagslegt og bráðnauðsynlegt að hittast yfir kaffibolla. Þetta stækkar tengslanetið hjá öllum. Í rauninni hefur þetta þróast á þann hátt sem ég óskaði mér. Allir vinir og gott samkomulag á milli allra. Það er mjög góður andi í húsinu.“ 

Plötusala er í einu horninu – MYND: HÓ

Góð laun sem felast í meðbyrnum

Netagerðin opnar dyrnar fyrir gestum og gangandi annað slagið, þar með talið tvisvar á aðventunni. „Það hafa heimsótt okkur fleiri hundruð manns. Fólk er forvitið og glatt og ánægt með framtakið. Svo eru þetta líka viðskiptavinir okkar,“ segir Heiðrún. Hún segist hafa fundið mikinn meðbyr frá samfélaginu. „Fólk er ánægt og klappar manni á bakið – það eru góð laun út af fyrir sig – að finna svona meðbyr.“ 

„Og nú er Netagerðin orðin til – við fjölskyldan höfum ekki ástæðu til að fara aftur til baka suður. Við höfum allt sem okkur listir – og Netagerðin er orðin okkar akkeri,“ segir Heiðrún Björk Jóhannsdóttir. 

Hægt er að fylgjast með því sem fram fer í Netagerðinni á Instagram.

Inngangurinn – MYND: HÓ


Áskrift að FF7 veitir þér aðgang að öllum greinum, viðtölum og fréttum sem hér birtast. Um leið gerir þú okkur kleift að efla fjölmiðilinn. Kaupa áskrift

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …