Samfélagsmiðlar

Heitt loft og haldfastar aðgerðir – hundrað þúsund lítil skref á Loftslagsráðstefnunni í Dúbæ

Meðal þeirra sem sóttu Loftslagsráðstefnuna í Dúbæ var Kristján Guy Burgess, starfsmaður UNESCO í París. Hann ræddi þar um rangupplýsingar og upplýsingaóreiðu. Hér segir Kristján lesendum FF7 frá erindi sínu og upplifun - og líka af kynnum sínum af Sultan Al Jaber.

Kristján Guy Burgess talar á COP28 í Dúbæ - MYND: Andreas Omvik/norden.org

Fólkið á skráningarborðinu tók mér vel, það voru engar raðir og merkingar skýrar. Ég var kominn með passann um hálsinn og mættur á loftslagsráðstefnuna í Dúbæ. Ég gekk vasklega inn í stærsta ráðstefnusalinn á svæðinu, þann allra fínasta, framhjá fánum og fyrirmennum og áhrifavöldum að taka sjálfur með flóknum tæknibúnaði, og settist niður. Leit upp og hvað blasti þá við annað en 180 gráður af íslenskri náttúru, græn, fögur fjöll í rigningu, varpað upp á risaskjái í hálfhring. Eftir sjö tíma flug frá París í suðaustur var maður kannski ekki kominn heim, en tilfinningin var góð.

Íslenskt landslag á COP28 – MYND: Kristján Guy Burgess

Í stóru húsi sem lá til hliðar við þennan sal, var samningafólk frá 200 löndum að rökræða um orðalag í lokaályktun ráðstefnunnar. Á þeim tíma sem ég staldraði við þennan daginn, tókust þau á um orðalag sjöttu greinar, málsgreinar tvö um framgang Parísarsamkomulagsins. Að kunna sig á loftslagsráðstefnu snýst að miklu leyti um að læra tungumálið sem talað er, þekkja hugtökin og skilja átakafletina sem geta kallað fram harkalegar umræður um atviksorð í miðri málsgrein. Á að fasa jarðefnaeldsneyti út eða niður eða bara ekki neitt, hverjir tala um „unabated“ jarðefnaeldsneyti og í hvaða tilgangi? Hvaða hagsmunir lúra á bakvið áherslur í orðavali, og eru til málamiðlanir sem hægt verður að samþykkja að lokum?

Samræður í Dúbæ – MYND: Andreas Omvik/norden.org

Samningaviðræður eru þolinmæðisvinna og þegar þetta er skrifað, er ekki komið í ljós hvernig þær munu enda og hvort tilefni verður til bjartsýni um árangur af hinum formlega hluta ráðstefnunnar áður en aftur verður hist að ári í Aserbaísjan. Stóra verkefnið snýst um að ná samhljómi meðal allra þjóða um skjal sem hjálpar heiminum að takast á við hamfarahlýnun af völdum loftslagsbreytinga og halda hlýnun innan þeirra marka sem ákveðið var í Parísarsáttmálanum, eina og hálfa gráðu fram til aldamóta. 

Þegar ég setti saman námskeið í Háskóla Íslands um loftslagsbreytingar, alþjóðasamninga og græn stjórnmál, gerði ég það á þeim grunni að hér væri um að ræða eitt mikilvægasta alþjóðapólitíska verkefni samtímans, sem ætti heima sem fag í stjórnmálafræðideild. Það er sérstaklega forvitnilegt að sjá í rauntíma hvernig slíkir hlutir gerast, og leggja síðan mat á hvort unnið sé í rétta átt, eða hvort nýta þurfi önnur tæki til að kalla fram pólitískan vilja til breytinga. Hvernig stjórnmálin geta fjallað um loftslagsbreytingar og hvernig stjórnmálafólk getur fundið leiðirnar og sannfært almenning um að gera það sem gera þarf og kosta því til sem það kostar. Námskeiðið gekk vel og aldrei að vita nema það verði einhverntímann aftur kennt í framtíðinni.

Í Dúbæ var mikill fjöldi af ráðstefnum þessa daga til viðbótar við hina formlegu dagskrá samningaviðræðna. Það sem mun skila mestum árangri á endanum eru öll stefnumótin sem fólk og félagasamtök, frumkvöðlar, fyrirtæki og forsprakkar borga og ríkja áttu á meðan þau voru á svæðinu. Samvinnuverkefni um þróun og innleiðingu nýrrar tækni, fjárfestingar í loftslagsaðgerðum af hálfu ríkja, stofnanafjárfesta og fyrirtækja. Hvernig verður með orkuskiptin? Verður hægt að þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku, hvernig verður fjárfest í aðlögun og mótvægisaðgerðum þar sem afleiðingar loftslagsbreytinga ógna afkomu fólks og lífi?

Mótmæli á COP28 – MYND: Kristján Guy Burgess

Mér var boðið á loftslagsráðstefnuna sem fulltrúa UNESCO, þar sem ég starfa, til að tala um mál sem The New York Times sagði á forsíðu, daginn sem ráðstefnan hófst, að væri eitt af mikilvægustu umræðuefnunum. Það er á ensku kallað disinformation og við getum kallað það rangupplýsingar, upplýsingamengun eða upplýsingaóreiðu, hvernig villandi upplýsingum er miðlað til almennings með ýmsum leiðum um raunveruleika loftslagsbreytinga og hvernig á að takast á við þær.  

Kannanir sem hafa verið gerðar nýlega, sýna að milli 55-85 prósent af almennum borgurum í ólíkum löndum trúir einhverjum af röngum lykilstaðhæfingum um loftslagsmál. Og ef almenningur hvorki trúir né skilur það sem er að gerast í loftslaginu, er þeim mun minni líkur á að erfiðar og kostnaðarsamar aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í, fái stuðning.

Annað mikilvægt efni er að fólk hefur rétt til aðgangs að sem bestum upplýsingum um það sem er að gerast í náttúrunni til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Upplýsingamengun hamlar þeim rétti sem er útfærður í 19. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem varð 75 ára um helgina sem leið. 

Með réttum upplýsingum, geta samfélög heims tekist á við þrefaldar hamfarir í umhverfinu, hlýnandi loftslag, minnkandi líffræðilegan fjölbreytileika og loftmengun og besta leiðin til að fólk fái upplýsingar er að blaðamenn og fjölmiðlar geti aflað þeirra af vettvangi og með samtölum við vísindafólk og aðra sérfræðinga, og miðlað til almennings. En þetta er hættulegur heimur. 

Fyrir utan fréttamenn á stríðssvæðum, eru umhverfisblaðamenn sú tegund blaðamanna sem er í mestri lífshættu. Félagasamtökin Blaðamenn án landamæra birtu tölur árið 2021 um að á áratuginum þar á undan, hefði 21 blaðamaður verið ráðinn af dögum við að afla frétta af umhverfismálum og yfir 30 hnepptir í fangelsi. Blaðamenn sem hætta sér inn á hamfarasvæði af völdum ofsaveðurs, flóða og skógarelda, komast oft í tæri við hörmulega atburði og þurfa sálrænan stuðning, líkt og þau sem segja fréttir af stríðum.

Evrópusamtök blaðamanna hafa einnig birt greiningar um að umhverfisblaðamenn verði fyrir frekari árásum og áreiti á samfélagsmiðlum en aðrir blaðamenn vegna þess hversu harðar deilur geta orðið um málin sem þeir fjalla um. UNESCO hefur ákveðið að ráðast í frekari greiningar á þessum málum á árinu sem senn fer í hönd, enda stofnunin sú sem heldur utanum áætlun Sameinuðu þjóðanna um vernd blaðamanna á heimsvísu. 

Þetta kemur ýmsum á óvart, enda þekkir fólk UNESCO sem þá stofnun Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um menntamál og menningu, vísindi og verndun mikilvægra svæða, en UNESCO er einnig sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem stýrir verkefnum um tjáningarfrelsi, aðgengi að upplýsingum og öryggi blaðamanna.

Viðburðurinn sem ég talaði á var skipulagður af Norrænu ráðherranefndinni og fastanefnd Danmerkur hjá UNESCO. Hann var haldinn í Norræna skálanum, Bláa svæðinu, nánar tiltekið svæði B-6, húsi 75. Þar voru einnig í grennd skálar Svíþjóðar og Eistlands, Úganda og Danmörk og Noregur og Finnland skammt undan. Í franska skálanum sátu fimm virðulegir stútungskarlar í jakkafötum og útskýrðu orkuskipti í samgöngum á ensku með frönskum hreim. Það er margt jákvætt að gerast en betur má ef duga skal, ef ég skildi þá rétt.

Í náttúruskálanum, inni á svæði B-2 ræddu frumbyggjar Brasilíu nauðsyn þess að vernda regnskógana fyrir taumlausri skógareyðingu, og handan við næsta þil ræddu fjórir ungir frumkvöðlar hvernig gervigreind gæti gagnast í baráttunni við hlýnun jarðar. Þegar einn þeirra hafði lýst kerfinu sem fyrirtæki hans hafði þróað, spurði fundarstjórinn: Segðu mér nú, hvað segir gervigreindin um það hvenær íslenska eldfjallið muni gjósa? Ég festist nefnilega í Svíþjóð þegar síðasta íslenska eldfjall gaus. Frumkvöðullinn hikstaði vandræðalega, og hafði ekki reiknað með þessari spurningu. Umlaði eitthvað ofaní hálsmálið sem gaf til kynna að upplýsingafundir almannavarna hafi að mestu leyti farið framhjá bæði honum og gervigreindinni hans.

Á Græna svæðinu var endalaust af skálum, sýningum og viðburðum og ég viðurkenni fúslega að það hefði þurft nokkuð fleiri daga, eða mánuði, til að ná með fullnægjandi hætti utanum það sem þar var að gerast. Á stórum hnetti á miðju svæðinu milli þess græna og bláa var varpað myndum og róandi tónlist spiluð til að auka slökun hjá strekktum ráðstefnugestum. Á göngu um svæðið rakst maður á fjölda fólks, leysti málin og spurði frétta. Tugir þúsunda smárra skrefa sem stigin voru um risastórt ráðstefnusvæðið á hverjum degi, eru kannski ágæt áminning um að það er þar sem þarf til að glíma við loftslagsdrauginn, ekki ein barbabrella, heldur þúsundir skrefa.

Félagslega hliðin var oftar en ekki ræktuð í móttökum vítt og breitt um ráðstefnusvæðið og borgina alla og yfir málsverðum á hótelum, morgna, kvölds og miðjan dag. Besta matarupplifun þessara daga var á samkomu þar sem öllum Íslendingum var safnað saman og úsbeskur matur reiddur fram. Yfir og undir borðum ræddu fulltrúar orkufyrirtækja, stjórnvalda, þingmannanefndin og frumkvöðlarnir alla mögulega anga milli þess sem upplifunum var deilt um það sem hægt var að gera í borginni. Ég naut þess að hafa góðan félagsskap af gömlum vinum sem voru í ólíkum erindagjörðum, að fást við samfélagslegt aðhald frjálsra félagasamtaka og hins vegar nýsköpun.

Glæsilegur ráðstefnusalurinn í Dúbæ – MYND: COP28

Þetta var í þriðja skipti sem ég heimsæki Dúbæ. Meginbreytingin frá síðasta skipti er borgarlínan sem nú liggur þvert á borgina, milli flugvallar og ráðstefnusvæðisins. Línan liggur meðfram meginakbraut furstadæmisins, þar sem áður fyrr var endalaus umferðarteppa en nú snyrtilegir vagnar sem þvera borgina og flytja fjöldann allan af fólki endanna á milli, allan daginn.

Fyrir utan ráðstefnusalina gat ekki verið mikið ólíkara umhorfs en á myndunum frá fallegu grænu íslensku fjöllunum í rigningu. Hér var hátt í 30 stiga hiti og landslagið að öllu leyti manngert, eyjar og turnar, steypa og gler. Hæsti turn í heimi, Burj Khalifa hefur sérstakt aðdráttarafl á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum en þá er hann lýstur upp, allar hæðirnar 160. Síðast þegar ég kom til Dubai, var hann enn í byggingu og þótti manni nóg um, en þá þegar hafði opnað skíðabrekkan í verslanamiðstöðinni, nokkuð sem er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem sækja þessa vin í eyðimörkinni. 

Sultan Al Jaber talar á COP28 – MYND: COP28/Ramzi Haddad

Í bæði skiptin sem ég hafði áður komið, var það til að hitta mann sem þá var fyrsti forstjóri metnaðarfulls hreinorkufyrirtækis, Masdar, sem fjármagnað var af stjórn Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna og átti að verða leiðandi á heimsvísu. Ég hafði lagt því lið að sá ungi maður, Sultan Al Jaber, hafði komið ásamt sendinefnd til Íslands í boði Ólafs Ragnars Grímssonar þáverandi forseta Íslands, að kynna sér jarðhita og aðra íslenska tækni og árangur í orkumálum. 

Sultan Al Jaber leiðir umræður – MYND: COP28

Spurningin var hvernig unnt væri að tengja íslenska þekkingu og þau tæki og fjármagn sem Masdar hafði yfir að ráða. Úr þessu urðu áhugaverð verkefni til en nú er Sultan aðalmaðurinn í bænum sem forseti loftslagsráðstefnunnar og forstjóri bæði Masdar og ríkisolíufélagsins Adnoc. Það eru ekki allir hrifnir af því en það gleður mig að geta rifjað upp hvað hann hefur ferðast langa leið frá ferð okkar í Kringluna forðum að bera saman verslanamiðstöðvar í Háaleitinu og Persaflóa. Megi honum farnast vel í því að koma saman niðurstöðu á síðustu dögum ráðstefnunnar.

Höfundur:

Kristján Guy Burgess

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …