Samfélagsmiðlar

Nútímalegur snúningur á íslenskum hefðum

„Það sem mér þykir best við að fá þessar viðurkenningar frá Michelin er að þær halda mér vakandi, sjá til þess að ég vilji alltaf gera betur, halda ákveðnum standard," segir Michelin-kokkurinn Gunnar Karl Gíslason á veitingastaðnum Dill í ítarlegu viðtali við FF7.

Gunnar Karl Gíslason, eigandi og yfirkokkur á Dill - MYND: ÓJ

Þegar blaðamaður gengur inn á Dill á Laugavegi 59 um miðjan dag í miðri viku er starfsfólkið að undirbúa kvöldið, útbúa ýmislegt fyrirfram sem fylgir 18 rétta matseðli kvöldsins. Það kostar vinnu og hæfileika að tryggja að gestir njóti þeirrar upplifunar sem þeir vænta með því að bóka borð löngu fyrirfram á þessum íslenska Michelin-stað. 

Rólegur vetrardagur í miðri viku á Laugavegi. Dill er á annarri hæð Kjörgarðs – MYND: ÓJ

Meistarinn sjálfur, Gunnar Karl Gíslason, tekur hlýlega á móti blaðamanni og við komum okkur fyrir í herbergi baksviðs á veitingahúsinu á annarri hæð í Kjörgarði, þessu merkilega húsi þar sem fyrsta verslunarmagasín landsins starfaði. Við ræðum strauma og stefnur í eldamennsku. 

„Áherslur eru alltaf að breytast. Það er undir hverjum og einum komið hvað hann ákveður að gera. Dillið og ég ákváðum fyrir 15 árum hvað við ætluðum að gera og höfum ekki farið langt út af þeirri braut. Auðvitað höfum við alltaf verið að breyta einhverju en það hefur aldrei verið neitt afgerandi. Dill var í byrjun norrænn veitingastaður sem notaði hráefni víða að frá Norðurlöndum. Síðan hefur hann þróast í þá átt að einblína æ meira á íslenskt hráefni, íslenskar uppskriftir og hefðir. Við reynum að finna nútímalegan snúning á þessu til að geta boðið það fram á fínum veitingastað árið 2023.“

Og Gunnari Karli er alvara þegar hann talar um að hann vilji styðjast við íslenskar matarhefðir.

„Við erum með svið sem aðalrétt á Dillinu í dag. Það er leitað í hefðirnar! Með hverju ári sem líður höfum við reynt að verða íslenskari, reynt að styðjast við hefðir okkar, nota gamlar geymsluaðferðir. Nú hafa allir fína þurrkofna og frysta, og hvað það allt heitir, en þá geta menn gleymt öllu hinu: súrnum, saltinu, reyknum, þurrkun í hjalli við sjó. En hér á Dillinu er þetta eins og á sveitabæ í gamla daga. Við erum allt sumarið að búa okkur undir veturinn. Þetta verður stöðugt stærri hluti af því sem við stöndum fyrir – okkar vörumerki. 

Á sumrin förum við út í náttúruna og tínum jurtir – nógu mikið til að geta lagt til hliðar fyrir veturinn. Það er gott að vita af því þegar frystir og fer að snjóa að maður eigi nóg af pikkluðum og gerjuðum jurtum í krukkum einhvers staðar á bakvið.“

Góðgæti í krukkum – MYND: ÓJ

Við ræðum áfram strauma og stefnur í matargerðarlistinni. 

„Það er auðvitað ýmislegt í gangi úti í hinum stóra heimi. Sumt getur maður kallað tískufyrirbæri, eitthvað sem kemur og fer, en svo er annað sem lifir áfram. Við á Dillinu höfum hinsvegar lítið breyst í gegnum árin. Það er frekar að við höfum þrengt rammann utan um okkur og reynt að vanda okkur enn meira við það sem við höfum verið að gera. Enn meiri áhersla er lögð á að bæta nýtingu og gæta þess að allt hráefni sem við kaupum sé gott. Ef um er að ræða afurðir af skepnum, að tryggt sé að þær hafi lifað góðu lífi, vel hafi verið hugsað um þær. Það sama gildir um fisk. Hann þarf að hafa lifað villtur og ekki af tegundum í útrýmingarhættu. Það er aðeins snúnara en áður að vera kokkur. Maður verður að huga að þessu öllu saman.“

Þú hringir ekki lengur bara í kaupfélagið.

„Nei, svo sannarlega ekki. Maður er alltaf að flækja þetta meira fyrir sér. En svo að lokum verður þetta ekkert svo flókið: Þú veist að sirka í þessum mánuði koma fyrstu rófurnar upp, uppskera vina þinna fyrir austan kemur á sínum tíma – og svo kemur lambið. Maður er kominn með ansi gott dagatal yfir það sem framundan er hverju sinni – eftir að hafa rekið Dillið í 15 ár og eldað í nokkuð mörg ár þar á undan.“

Bráðum verður allt klárt – MYND: ÓJ

Tölum um norræna eldhúsið. Þar var Claus Meyer, sem þú vannst fyrir í New York, frumkvöðull ásamt René Redzepi á Noma, sem er eiginlega uppfinningamaður og frægasti kokkurinn í þessari grein. 

„Þeir Claus Meyer og René Redzepi fara í það saman að búa til þetta norræna eldhús af því að veitingastaðir á Norðurlöndum áttu erfitt með að skapa sér nafn – verða að einhverju. Eins og Claus Meyer sagði einhvern tímann: Ólíklegt er að íslenska, danska, eða annað þjóðareldhús á Norðurlöndum, verði einhvern tímann risastórt. Það verður aldrei eins og ítalska eða franska eldhúsið. En ef við búum til eitthvað sem heitir norræna eldhúsið gæti það orðið að einhverju. Það var svo sannarlega rétt hjá honum. Annað eins hefur ekki gerst. Norræna eldhúsið skaust upp á stjörnuhimininn á einni nóttu.“

Og nú hefur Noma í Kaupmannahöfn starfað í 20 ár, Dill í 15 ár. Er norræna eldhúsið komið til að vera? Það er ekki jaðarfyrirbæri?

„Þetta er alltaf spurning um hvað þú vilt láta kalla þig. Mér þykir ekki rétt að kalla Dill ný-norrænt eldhús. Fyrir það fyrsta þá er það ekki nýtt lengur. Í öðru lagi þá er það miklu meira íslenskt en norrænt. Í lok dags blasir þó kannski við að allar norrænu þjóðirnar voru að gera það sama. Strangt tekið, þegar talað er um norræna eldhúsið, þá var um að ræða útgefnar reglur, nánast boðorðin tíu, sem sumir tóku mjög bókstaflega og héldu að ekki mætti víkja út frá þeim. Augljóslega voru þessar reglur þó hugsaðar sem viðmið. Talað er um að horfa sér nærri, nýta það sem er að finna í nærumhverfinu og gæta að hefðum. Að þessu leyti skiljum við okkur dálítið frá t.d. franska eldhúsinu, þó að það hafi auðvitað líka áhrif á okkur.“

Áður en Claus Meyer og René Redzepi og félagar fóru að láta að sér kveða í Kaupmannahöfn var franska eldhúsið líklega ráðandi, menn höfðu ekki sjálfstraust til að tala um norrænar venjur – nema þá helst þegar um var að ræða smørrebrød.

„Það er gaman af því að í Danmörku er smørrebrød enn lifandi hefð og vel það. Ungir matreiðslumenn opna nýja smurbrauðsstaði og bjóða upp á nútímalegt smørrebrød. Mér finnst ótrúlega gaman að sjá það.“

Starfsfólk Dill með stjörnuna góðu – MYND: Dill

Hvernig tekst ykkur upp í því að heilla reynda og siglda matgæðinga, fólk sem farið hefur víða og borðað á bestu stöðunum og sér síðan Dill í Michelin-bókinni og kemur til ykkar? Á þessi gestur að átta sig á því að á þessum stað kynnist hann einhverju alveg nýju – íslenskri matargerðarlist – eða viljið þið bara gleðja hann, punktur?

„Númer eitt, tvö og þrjú þá viljum við augljóslega gleðja gestinn. Taka vel á móti honum. Við viljum að gestinum líði vel á meðan hann er hjá okkur. Skapa notalega stemmningu og láta honum líða mjög vel hjá okkur. Á sama tíma þá er þetta ákveðið prógramm: Við viljum ekki að gesturinn sitji of lengi, það á að fara í þetta ákveðinn tími, tiltekinn fjöldi rétta er borinn fram og með því ákveðin vín. Svo er staðið upp og kvatt. Ég vil ekki að gesturinn fari héðan of saddur, að hann hafi setið hér of lengi. Á meðan hann situr hérna vil ég að alltaf sé eitthvað að gerast. Mér sjálfum leiðist að fara út að borða og bíða heillengi á milli rétta, vera of lengi úti að borða. Þrír tímar, kannski – það er flott! Ég á mjög erfitt þegar þetta er komið upp í fimm tíma. Þetta á að mörgu leyti að vera svipað og þegar þú ferð í leikhús. Á sama tíma viljum við að gesturinn fái mat sem augljóslega er með fókus á íslenskt hráefni, íslenskar hefðir og uppskriftir. Gesturinn á að þurfa að klóra sér aðeins í höfðinu og hugsa: Hvernig gerðu þau þetta? Hvernig datt þeim þetta í hug?“

Nokkrir réttir – MYNDIR: Dill

Dill býður upp á 18 rétta matseðil. Hluti af salnum er tvísetinn á einu kvöldi. Þannig tekst að halda niðri verðinu. Ef salurinn væri einsetinn myndi reikningur gestsins hækka um helming. Nokkrum sætum úr fyrri setunni er þó haldið eftir ef svo færi að einhverjir vildu vera lengur og fá sér eina vínflösku eftir matinn. 

Mörgum Íslendingum þykir dýrt að fara út að borða á góðum veitingastöðum. Veitingamenn segja hinsvegar gjarnan sjálfir að það sé ódýrt að borða fínan mat á Íslandi, verðmunurinn á mat í milliflokki og efsta gæðaflokki sé fáránlega lítill. Ertu sammála því?

„Já, það er hárrétt. Því betri sem maturinn er því ódýrari er hann. Einhver gæti hinsvegar sagt: Þú ferð á Dillið og þarft að borga 19 þúsund kall bara fyrir matinn – og fundist það mikill peningur. En þá verður að hafa í huga að hér sestu inn á einstaklega huggulegan veitingastað, færð góða þjónustu – og 18 rétti. Þá kemur í ljós að hver réttur kostar bara rúmlega þúsund kall. Þetta er allt frá einum munnbita og upp í nokkra munnbita. Augljóslega má hver réttur ekki vera of stór ef þú ætlar að borða 18 rétti. Þá væri þér farið að líða illa þegar þú ferð. Það verður að passa upp á það. En talandi um verðið, þá eru sambærilegir staðir og Dill í Kaupmannahöfn u.þ.b. helmingi dýrari.“

Ísland er fámennt land og ber ekki marga staði eins og Dill, held ég að sé óhætt að fullyrða. Þið hljótið að þurfa að treysta mjög á erlenda gesti.

„Erlendir gestir eru miklum meirihluta hjá okkur, ég myndi giska á um 80 prósent. En ég held að þetta þýði ekki að Íslendingarnir vilji ekki koma, frekar er skýringin einfaldlega sú að bókunarkerfið okkar er opið þrjá mánuði fram í tímann og yfirleitt eru erlendir ferðamenn búnir að bóka öll borðin áður en Íslendingum dettur í hug að fara út að borða.“

Það er ekki mjög íslenskt að bóka sig í mat með þriggja mánaða fyrirvara!

„Nei, nefnilega ekki. Mér dettur það ekki einu sinni sjálfum í hug! Stundum gerist það reyndar þannig að við höfum ákveðið að skreppa til Skandinavíu, skulum við segja, og þá heyrum við í einhverjum, t.d. í Svíþjóð, sem getur tryggt mér og konunni minni borð eftir tvo og hálfan mánuð á flottum veitingastað þar sem mig hefur lengi dreymt um að borða. Þá er ferðalagið skipulagt úr frá því. Almennt geri ég þó ekki mikið af því að bóka borð fram í tímann.“

Er hægt að komast á biðlista hér eftir borði?

„Já, en hann er oft mjög langur – sem betur fer.“

Þið treystið á erlenda ferðamenn en nú hefur komið bakslag vegna jarðskjálfta á Reykjanesskaga og hættu á yfirvofandi eldgosi við Grindavík. Finnið þið fyrir því?

„Við finnum mikið fyrir því. Margt fólk afbókar af því að það er hrætt við að koma til Íslands og festast. Aðrir láta vera að afbóka en mæta bara ekki. Við höfum verið að elda hér með tóm borð á kvöldin af því að gestir hafa ekki tekið sjensinn á því að ferðast til Íslands.“

Dill-kokkar við störf – MYND: ÓJ

Það er sagt að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi en þú fórst norður í heimahagana á Akureyri og stofnaðir veitingastað þar, North. Var það af hugsjónaástæðum eða kom þrýstingur að heiman?

„Þetta hafði verið draumur minn lengi – að flytjast til Akureyrar og opna veitingastað þar. Á sama tíma á ég konu sem er fædd og uppalin í Kópavogi og hefur engan áhuga á flytja til Akureyrar. Þetta var það næst besta sem ég gat gert. En ég hafði ekki áhuga á að stofna stað með kokki sem ég þyrfti að draga norður. Ég spurði félaga minn, Rafn Svansson, hvort hann vissi um einhvern áhugasaman kokk. Þá kom í ljós að hann, sem er frá Ólafsfirði, hafði látið sig dreyma um að fara aftur norður. Svo hann tók verkefnið að sér og hefur sinnt því með glæsibrag, er yfirkokkur og rekstrarstjóri á North. Mér fannst vanta stað á Akureyri sem einblíndi á að nota hráefni úr nærsveitum. Eyjafjörður er ótrúleg matarkista og mér þótti það vera synd að ekki væri veitingastaður á Akureyri sem setti fókus á það. North er staður sem rekinn er út frá svipuðum sjónarmiðum og Dill en munurinn liggur í meiri áherslu á norðlenskt hráefni frekar en annað. Stundum þurfum við samt auðvitað að nota hráefni annars staðar að – en við reynum að hafa það norðlenskt. Hver og einn aðalréttur er tileinkaður bóndanum á bænum þaðan sem hráefnið kom. Ég nefni sem dæmi kartöflurétt. Af því að kartöflurnar koma frá Pálma í Gröf þá er það tekið fram í heiti réttsins – og svo er sagt hvað borið er fram með þeim. Þannig viljum við gefa þessu frábæra fólki sem útvegar okkur úrvals hráefni klapp á bakið. Við ákváðum líka að matseðillinn á North yrði örlítið styttri en á Dillinu og þar með ódýrari. Ég held raunar að á North getir þú gert bestu kaupin – ekki bara á Akureyri heldur á landinu öllu.“

Ég geri ráð fyrir að þú farir sjálfur víða til að prófa mat hjá öðrum og til að kynna þér strauma og stefnur. Er matartúrismi býsna umfangsmikil grein ferðaþjónustunnar?

„Jú og örugglega miklu stærri en fólk áttar sig almennt á. Það er mjög algengt hjá okkur á Dill að til okkar komi erlendir ferðamenn sem hafa komið til Íslands, eru með þriggja daga dagskrá og hafa bókað öll kvöld á ákveðnum veitingahúsum til að borða og fljúga svo aftur heim. Þetta er ótrúlega algengt. Við fáum líka gesti sem fljúga til landsins, borða hér, fara í Bláa lónið og fljúga svo heim. Þá er eina ástæða Íslandsferðarinnar að borða á Dill og halda svo áfram með lífið.“

Hverju breytti Michelin-stjarnan fyrir þig og Dill?

„Það fer allt eftir því hvernig litið er á það. Út frá viðskiptalegu sjónarhorni séð þá breytti hún eiginlega engu. Við vorum með fullt hús á hverjum degi áður en hún kom. Bissnissinn gat ekki orðið mikið betri. Það er þó ekki spurning að aðsóknin varð enn meiri, biðlistarnir lengdust. Og þegar horft er til lengri tíma þá hjálpar það klárlega að vera með Michelin-stjörnu. Fyrir mig prívat og persónulega hafði það verið draumur í mörg ár að fá þessa viðurkenningu. Ég var eiginlega búinn að sætta mig við að Dillið myndi líklega aldrei fá stjörnu, orðinn leiður vegna þess að komu aldrei. Þeir sögðust vita vel af góðum veitingahúsum á Íslandi en vinnureglan væri sú að fara ekki í borgir með færri en 500 þúsund íbúa. Þá sá ég að við ættum lítinn sjens. En svo breyttu þeir til – væntanlega vegna tilkomu norræna eldhússins – og bjuggu til norræna handbók. Þá vissi maður að ekki væri hægt að sniðganga Ísland. Þetta er auðvitað mikil viðurkenning fyrir Dill og mig persónulega sem hafði dreymt um Michelin-stjörnu frá því að ég byrjaði að elda. Svo hefur græna stjarnan bæst við sem viðurkenning fyrir alla viðleitni okkar til að vera sjálfbær. Það sem mér þykir best við að fá þessar viðurkenningar frá Michelin er að þær halda mér vakandi, sjá til þess að ég vilji alltaf gera betur, halda ákveðnum standard.“

En Michelin-kokkar hafa  líka talað um að í því felist mikil harðstjórn. Þeir hafa jafnvel sagst ekki nenna því að vera undir þessari pressu og hoppað af þessari braut. Eru menn þá bara útbrunnir?

„Það gæti vel verið. En það er mjög misjafnt hvernig menn fara að þessu. Fyrir mig er þetta öðruvísi af því að Dillið hafði verið opið lengi þegar Michelin-handbókin loks heiðraði Ísland með nærveru sinni. Við breyttum engu. Dillið fór ekki af stað til að þóknast neinum nema sjálfum mér. Það finnst kannski einhverjum skrýtið að heyra þetta: Ef ég elskaði ekki það sem ég er að gera væri ég svo sannarlega ekki í þessu. Það er eiginlega það eina sem skiptir máli.“

Michelin-handbókin – MYND: ÓJ

Þú ert að segja að hægt sé að sinna svona rekstri með meira stressi?

„Það eru til veitingastaðir sem tilkynna við opnun að markmið þeirra sé að fá Michelin-stjörnu. Þessir sömu staðir fara af stað og reyna að uppfylla öll tiltekin skilyrði: Við þurfum að sjá til þess að salurinn sé fullkominn, vera með svona matseðil, vínseðil og diska. Ég myndi aldrei gera þetta svona. Ég er svo sannarlega ekki að þessu fyrir Michelin. Ég er bara að þessu fyrir sjálfan mig, eins eigingjarnt og það nú hljómar.“

Það er kannski galdurinn.

„Oft er ég spurður að því hvort  maður vilji svo ekki meira og meira. Augljóslega gætum við fengið stjörnu númer tvö eða þrjú. Jú, ég hef ekkert á móti því. Ég veit að með því að gera tilteknar breytingar myndi ég færast nær því að fá stjörnu númer tvö. En þá væri ég að gera þær breytingar fyrir Michelin en ekki mig sjálfan – og allra síst fyrir bissnissinn. Ég vil gera mitt. Augljóslega þarf bissnissinn að vera sjálfbær. Því í lok dags þá væri ég ekki með neinn bissniss ef hann er ekki sjálfbær. Ef þeir væru til í að gefa mér stjörnu númer tvö fyrir það sem við erum að gera – út frá okkar sjónarmiðum – þá væri það náttúrulega meiriháttar. Ég ætla ekki að breyta neinu til að þóknast þeim.“

Þú ert að segja að allt þetta starf sé jafnvægislist – að viðhalda gleðinni, tryggja gæði og að allt gangi upp sem rekstur?

„Allt þarf þetta að haldast í hendur.“

Veitingarekstur á Íslandi er mjög erfiður. Margir staðir leggja upp laupana af því að dæmið gengur ekki upp.

„Rekstrarumhverfið hefur verið hræðilegt í mörg ár. Það er auðvitað bilað að launakostnaður á veitingahúsum sé 45 til 50 prósent af allri innkomunni.  Þá á eftir að borga fyrir allt hráefni, leigu á húsnæði o.s.frv. Það má nánast ekkert út af bera. Frá því að ég flutti heim frá New York fyrir fimm árum hefur allt hækkað mjög mikið: launin, maturinn, vínið, leigan. Þó að fólk kvarti undan háu verði á veitingahúsum þá skila þessar hækkanir sér ekki út í verðlagið.“

Beðið gesta – MYND: Dill

Þið getið ekki velt verðhækkunum í rekstrinum yfir á matseðilinn?

„Það er ekki sjens. Hér á Dill þurfum við að setjast niður, klóra okkur í hausnum og reyna að finna leiðir til að vera skynsamari í rekstrinum – alveg sama hvað það er – til að ná endum saman. Samt er Dill svo lánsamt að það er full út úr dyrum nánast á hverju kvöldi. Það er ekki vandamálið. En jafnvel þó allt sé fullt þá er þetta erfitt.“

Þð hljómar ekki eins og góð viðskiptahugmynd að reka fínt veitingahús, leita sjálfbærra leiða, finna hreint og gott hráefni, tína grös upp um fjöll.

„Nei, svo sannarlega ekki. Það er vafalaust einhver annar bissniss sem er einfaldari og arðbærari en þetta. En hafandi sagt það, þá ætla ég ekki að kvarta. Ég er búinn að vera þetta lengi í þessu og hef fengið að gera það sem ég elska. Ég er ótrúlega lukkulegur.“

„Ef ég elskaði ekki það sem ég er að gera væri ég svo sannarlega ekki í þessu“ – MYND: Dill

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …