Samfélagsmiðlar

Óvænt stjarna jólabókaflóðs

„Hvað veldur því að ísfirski rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl, öllum að óvörum, er skærasta stjarna jólanna með tæplega 600 síðna múrstein - Náttúrulögmálin?" spyr Snæbjörn Arngrímsson og vísar til þess að nú virðist annars tími stuttu bókanna runninn upp.  

Eiríkur Örn Norðdahl - MYND: Philippe Matsas

Í upphafi jólabókavertíðar var töluvert rætt og ritað um að nú væri tími stuttu bókanna. 500 síðna doðrantar ættu ekki lengur upp á pallborðið hjá lesendum sem á síðari tímum eiga erfitt að einbeita sér lengur en tvær mínútur í senn. Lestur langra bóka er því mörgum jafn torveld raun og að ganga upp á efsta tind Mount Everest. Upp á síðkastið hafa bókmenntaunnendur á alþjóðavettvangi í auknum mæli leitað í stuttar skáldsögur og hafa höfundar eins og Annie Ernoux, Clair Keegan, Deborah Levy, Fleur Jaeggy allar slegið í gegn með sínar 150 blaðsíðna bækur. En öllum að óvörum er það þó 597 síðna bókarhlunkur sem virðist hlaupa með mestu athyglina í íslenska jólabókaflóðinu í ár. 

Hvað veldur því að ísfirski rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl, öllum að óvörum, er skærasta stjarna jólanna með tæplega 600 síðna múrstein – Náttúrulögmálin?  

Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl. Útgefandi: Forlagið – Mál og menning

Í aðdraganda jólavertíðar þótti líklegt að athygli bókaunnenda mundi fyrst og fremst beinast að bókum Auðar Övu Ólafsdóttur (DJ Bambi), Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Duft), Sigríðar Hagalín (Deus), Þórdísar Helgadóttur (Armilló), Steinunnar Sigurðardóttur (Ból) eða jafnvel að skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur (Men). En nú á endaspretti jólabókakapphlaupsins kemur í ljós að það er rithöfundurinn með kúluhattinn, Eiríkur Örn Norðdahl, sem kastljósið beinist að. 

Náttúrulögmálin hafa nánast alls staðar fengið rífandi góða dóma. Til dæmis hrópaði Þorgeir Tryggvason bókmenntagagnrýnandi Kiljunnar upp yfir sig af hrifningu: „Vá og bravó!“  Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Kristján Jóhann Jónsson sagði  í sínum dómi: „Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl er örugglega ein skemmtilegasta íslenska skáldsagan sem kemur út þetta árið. Það get ég staðhæft þó að ég hafi ekki lesið þær allar.“ Betri dóma fær maður varla. 

Svo mjög hefur velgengni bókarinnar vakið eftirtekt að meira að segja sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn bað Eirík að koma í þáttinn sinn og sprella. Það er ekki á hverjum degi sem rithöfundi er boðið að taka þátt í þessum vinsæla sjónvarpsþætti Gísla Marteins. Höfundur Náttúrulögmálanna er búsettur á Ísafirði og sá sér því ekki fært að þiggja þetta góða boð sjónvarpsmannsins.

Skáldið kemur úr flugi að vestan – MYND: ÓJ

Þótt Eiríkur Örn sé alls ekki óþekktur á rithöfundur á Íslandi er það í sjálfu sér afrek að fá þessa miklu athygli á bók sína mánuðina fyrir jól. Flestir höfundar sem senda ritverk frá sér á þessum tíma reyna hvað þeir geta til að fá eftirtekt lesenda og beita sér mjög á félagsmiðlum eins og Facebook og Instagram og reyna að hrópa hátt. En rödd fæstra nær áheyrn. Alls ekki er sjálfgefið að sjónir bókmenntaáhugamanna beinist að ákveðinni skáldsögu þótt hún þyki góð og fái góða ritdóma. Fáir lesendur ná að plægja sig í gegnum 600 blaðsíður á þeim stutta tíma sem er á milli útgáfu bóka og endaloka jólavertíðar. En Eiríki tókst með miklum dugnaði að setja bók sína á kortið strax í upphafi vertíðar þegar hann tilkynnti opinberlega að hann mundi halda af stað í mikið kynningaferðalag um allt land í október og nóvember. 

Skáldið keypti ný dekk á bílinn sinn, leigði posa og teiknaði upp langferð hringinn í kringum Ísland, þar sem hann mætti í eigin persónu með eigin bækur (nýja og gamlar) á bíl með nýjum vetrardekkjum. Fjörutíu stopp á þrjátíu dögum. Hann las upp úr Náttúrulögmálunum, hélt slideshow um sögusvið bókarinnar sem gerist á Ísafirði árið 1925, ræddi við lesendur og vonaðist til að fjármagna sjálfan sig og posaleiguna með massívri bóksölu. Vakti herferð Eiríks mikla athygli og dásömuðu margir framtak hans. Sjálfur réttlætti hann þessa mánaðarreisu á heimasíðu sinni og tilgreindi tuttugu og eina ástæðu fyrir því að halda einn af stað í þessa vafasömu langferð. Ástæða númer þrettán: „Mér finnst líklegt að þetta verði til þess að vekja athygli og jafnvel áhuga á bókinni minni.“ Og þarna hitti Eiríkur naglann á höfuðið. Náttúrulögmálin sigla hraðbyri upp alla bóksölulista og situr bókin nú í sjöunda sæti yfir skáldverk og stefnir hærra. 

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …