Samfélagsmiðlar

Síðasta pöntun á pöbbnum

Enn hallar undan fæti í rekstri bresku pöbbanna. Hækkandi rekstrarkostnaður, breyttur smekkur og nýir lífshættir þrengja mjög að þessari gömlu stofnun í bresku þjóðlífi.

The Grapes í Mathew Street í Liverpool - MYND: ÓJ

Pöbbarnir hafa um aldir gegnt mikilvægu hlutverki sem samkomustaðir og veitt skjól fyrir vætu og kulda í næðingssömu landi þar sem húsakostur þorra almennings var hvorki sérlega góður né bauð upp á að margir kæmu þar saman. Hinsvegar logaði ævinlega eldur á arni pöbbsins úti á horni og volgt ölið vætti kverkar manna og hlýjaði um hjarta að loknu púli dagsins. Bretinn talar um pöbbinn sinn sem „vökvunarstað“ (watering hole), þennan brunn eða kima í lífinu þar sem hægt er að setjast niður með sjálfum sér eða öðrum, vökva lífsblómið og hugsanlega fá sér eitthvað matarkyns í gogginn. Ekki þarf að hafa mörg orð um hvaða áhrif langar setur við drykkju á pöbbnum hafði á drykkjumennina sjálfa, fjölskyldur þeirra og samfélag. En þarna stóðu þeir í hverju þorpi, hverri borg og engum datt í hug annað en að þarna yrðu þeir áfram um ókomna tíð.

Glaðleg stemmning á The Vines í Liverpool – MYND: ÓJ

En allt er í heiminum hverfult. Nú er breski pöbbinn að lifa niðurlægingartíma þó að hann hafi nú áður séð það svart á uppgangstímum bindindishreyfinga. Það er komið að lokapöntun á barnum hjá stöðugt fleiri gestum. Pöbbarnir hafa neyðst til að láta gesti sína finna fyrir hækkandi verði á rafmagni, leigu og aðföngum. Bjórinn er orðinn alltof dýr að mati stöðugt fleira fólks. Þá hefur það gerst sem enginn hefði séð fyrir nema heittrúuðustu og vonglöðustu templararnir: Stöðugt fjölgar í hópi þeirra sem hætta áfengisdrykkju til að bæta heilsuna, kjósa hollari lífsstíl. Aðrir kaupa bjórinn úti í stórmarkaði og drekka frekar heima hjá sér yfir sjónvarpinu. Ætli það sé ekki óhollara en að fara á pöbbinn og hitta fólk?

Nýjar kynslóðir á áfengiskaupaaldri drekka miklu minna en þær eldri. Unga fólkið sækir frekar glaðleg og ilmandi kaffihús heldur en þunglamalega pöbbana sem þó eru lausir við reykjarstybbu fyrri tíðar og eru þess vegna orðnir miklu geðslegri staðir – ekki síst ef á að matast. Þessi þróun er þó hægt og bítandi að gera út af við pöbbahefðina í Bretlandi. Það er líður að síðustu pöntun á mörgum þeirra.

Virðulegur félagsskapur rekstraraðila bresku pöbbanna, The British Beer and Pub Association (BBPA), segir að fjöldi pöbbanna hafi farið úr 60.800 árið 2000 niður í 45.800 árið 2022. Á því ári einu fækkaði pöbbum á Englandi og í Wales um 386 og á fyrri helmingi þessa árs hættu álíka margir, eða 383, þjónustu sinni við öldrykkjumenn. Og pöbbunum hefur fækkað áfram á þessu ári vegna mikillar verðbólgu, hækkandi orkureikninga og opinberra gjalda, sem að samanlögðu éta upp hagnaðinn af bjórsölunni. Þau hjá BBPA segja að komandi ár geti ráðið úrslitum um hvort pöbbinn lifir eða deyr. Mikið er í húfi fyrir marga. Um 936 þúsund manns hafa lífsviðurværi sitt á pöbbum Bretlands. Eigendur vilja að stjórnvöld bregðist við með því að lækka gjöld á bjórnum, ýmsar rekstrarálögur og virðisaukaskattinn.

Aðkoman að The George í Soutwark – MYND: A London Inheritance

Saga pöbbsins er löng og margir telja mikilvægt að varðveita þessa stofnun í bresku þjóðlífi og segja: Friðum pöbbinn! National Trust, stofnun sem varðveitir og annast hús sem hafa menningarlegt eða sögulegt gildi víðsvegar um Bretland, hefur tekið 39 pöbba undir sinn verndarvæng. Einn þeirra er hinn sögufrægi George Inn eða bara The George í byggingu frá 1676 í Southwark, í sunnanverðri London. Meðal fastagesta var Charles Dickens, sem nefnir staðinn í einni sögu sinni.

Þó að Bretar sjálfir snúi sér í vaxandi mæli að sojalatte, orkudrykkjum og prótínbústi þá vill túristinn komast á ekta breskan pöbb. Það verður því kannski útlendi túristinn sem bjargar pöbbnum. „Það má vel vera að pöbbinn þurfi að laga sig að tíðarandanum en það verður alltaf pláss fyrir klassíska pöbba í bresku samfélagi. Hvernig væri London án þeirra,“ spyr John Warland, forstjóri ferðaskrifstofunnar Drykkjarsögutúrar (Liquid History Tours), í samtali við AFP-fréttastofuna.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …