Samfélagsmiðlar

Víðfrægur ostur og sterkvín úr mysu

Cheddar osturinn kemur frá samnefndu smáþorpi í Somerset á Englandi. Margir eru þó á því að bestu útgáfu þessa margrómaða osts sé að finna töluvert norðar en á upprunalegum slóðum eða á eyjunni Mull úti fyrir vesturströnd Skotlands. Þar er líka bruggað verðlaunað sterkvín úr mysu.

Þær skila mjólkinni í ostanna og úr mysunni er bruggað vín - MYND: Heimasíða Isle of Mull Cheese

Í lok áttunda áratugarins brá Reade fjölskyldan frá Somerset sér í sumarfrí til eyjunnar Mull. Hjónin Jeff og Christine, kölluð Chris, og synir þeirra fjórir voru svo hrifin að í kjölfarið tóku þau ákvörðun um að flytjast búferlum og koma sér fyrir á eyjunni. Þau voru þá með kúabú í Somerset og tóku ákvörðunina meðal annars út frá erfiðum markaðsskilyrðum fyrir mjólkurvörur vegna innflutnings frá meginlandi Evrópu og þeirri staðreynd að þarna hefðu þau tækifæri til að gefa íbúum eyjunnar tryggan aðgang að mjólk og mjólkurvörum.

Í ostagerðinni – MYND: Isle of Mull Cheese

Frá mjólk til osta
Íbúar Mull eru rétt um 3.000 talsins og flestir þeirra búa í þorpinu Tobermory. Kúabúið Sgriob-ruadhen er á norðurhluta eyjunnar en þangað fluttist Reade fjölskyldan og byggði býlið aftur upp nánast frá grunni. Flutningarnir fóru fram á árunum 1979-1981 og á tímabili héldu þau búskap á báðum stöðum þar til þau voru alflutt til Mull. Það var á þeim árum sem Chris lærði ostagerð. Hún starfar enn við býlið og framleiðsluna ásamt tíu manns úr þremur kynslóðum Reade fjölskyldunnar.

Chris útskýrir að fyrstu árin hafi þau sinnt mjólkurframleiðslu fyrir Mull og nálægar eyjar. Yfir vetrartímann var Isle of Mull-cheddar osturinn svo framleiddur í hóflegu magni en þegar leið að árinu 2000 var eftispurnin eftir ostunum orðin mun meiri en eftir mjólkinni. „Ákvörðunin var okkur þannig séð auðveld. Við hættum að selja mjólk árið 2000, festum kaup á nauðsynlegum tækjabúnaði og komum okkur upp ostagerð á bænum.“ Þróunin hefur haldið stöðugt áfram síðan þá og nú er einnig brugghús og kaffihúsið Glass Barn á bænum.

Christine Reade eða bara „Chris“ – MYND: Isle of Mull Cheese


Útsjónarsemi og sjálfsbjargarviðleitni stór þáttur í búskap
Sjálfbærni og nýtni eru leiðandi stef í öllum búskap og framleiðslu á Sgriob-ruadhen og á jörðinni er framleitt allt það rafmagn sem þarf til vinnslu og reksturs á bænum. Skotland fær svo sannarlega sinn skerf af roki og rigninu og upp úr 1990 hófust ábúendur handa við að byggja vatnstúrbínu og litla heimarafstöð sem þau svo hafa byggt við, bætt og stækkað með árunum og auknum umsvifum. Á Sgriob-ruadhen er einnig lítil vindmylla og í framtíðinni er ætlunin að fjölga sólarsellum.

Allur hiti fyrir ostagerðina og brugghúsið er fenginn með nýtingu lífmassa. Chris segir útsjónarsemi og sjálfsbjargarviðleitni vera stóran hluta af búskapnum eftir að hafa búið á eyju í yfir 40 ár, enda ekki endilega hlaupið að því að nálgast varahluti eða viðgerðarfólk með litlum fyrirvara.

„Við leggjum okkur fram um að endurnýta allt efni og búnað eins og við mögulega getum og hendum afskaplega fáu. Gott dæmi um þetta er kaffihúsið okkar sem við byggðum úr endurnýtanlegu efni úr gömlu samkomuhúsi í þorpinu.“

Jeff og Chris og þrír af sonunum á mynd sem tekin var 1984 – MYND: Isle of Mull Cheese

Fjölskylduverkefni
Árið 1980 voru 10 kýr á bænum. Nú eru þær orðnar 130 en kúastofninn á Sgriob-ruadhen er lokuð hjörð þar sem skepnurnar eru ræktaðar án utanaðkomandi kynbóta. Þannig segir Chris þau hafa betri yfirsýn yfir eiginleika og heilsu kúnna og geta þannig tryggt þeim gott líf sem skilar sér í enn betri mjólk. Kúastofninn er harðgerður og kýrnar eru dálítið kubbslegar og þykkar í vaxtarlagi miðað við kýr á meginlandinu, nokkuð sem hjálpar þeim við að takast á við landslagið og veðurfarið á eyjunni.

Þrjár kynslóðir Reade fjölskyldunnar starfa nú á býlinu sjálfu, í ostagerðinni, brugghúsinu og kaffihúsinu sem einnig er gestastofa þar sem tekið er á móti gestum allan ársins hring, en þó með takmarkaðari opnunartíma fyrir veturinn. „Það gleður mig mjög að tíu manns úr fjölskyldunni starfa við þetta í dag og við erum að ganga í sömu átt þegar kemur að metnaði fyrir vörunum okkar og því hversu spennt við erum fyrir að kynna frábæran mat og drykk fyrir fólki,“ segir Chris.

Búið og reksturinn er nú í eigu tveggja sona þeirra, Garth og Brendan ásamt Shelagh konu Brendan. Frá því Chris og Jeff fluttu með fjölskylduna til Mull hefur hún stækkað til muna en flestir úr Reade-fjölskyldunni búa og starfa á eyjunni við allt milli himins og jarðar, allt frá heilsugæslunni til kexverksmiðjunnar í þorpinu, Island Bakery, sem var stofnuð af yngsta syni þeirra, Joe. 

Hinn rómaði Isle of Mull-cheddar – MYND: Isle of Mull Cheese

Ostur eins og hann gerist bestur
Ostagerð á eyjunni Mull er alls ekki ný af nálinni en til að varðveita næringarefni og geymsluþol mjólkurinnar hafði ostur lengi verið búinn þar til. Á afskekktari svæðum Skotlands hafa harðir ostar verið algengari þar sem geymsluþol þeirra er mun lengra en mjúkosta og annarra mjólkurafurða. Cheddar osturinn er í harðari kantinum, gulur og unninn úr kúamjólk og sá langvinsælasti á öllum Bretlandseyjum og þó víðar væri leitað.

„Við höfum mikinn metnað fyrir ostagerðinni og í gegnum árin hefur fjölskyldan lært að bæta og þróa ostana okkar, með gómsætum árangri,“ útskýrir Chris og segir jafnframt að mjólkin sem fer í ostagerðina sé ógerilsneydd, svo bragðið úr haganum seitli mjúklega í gegnum mjólkina með góðgerlunum. Landið og veðurfarið mótar bragðið líka sem gerir hvern skammt af ostunum ólíkan innbyrgðis. „Það er aldrei nákvæmlega eins bragð að hverjum skammti fyrir sig, sem gerir þetta að nýrri uppgötvun í hvert einasta sinn.“

Brugghúsið – MYND: Isle of Mull Cheese

Ónýtta auðlindin mysa
Great British Food Awards voru afhent fyrr í haust en um er að ræða árlega verðlaunaafhendingu fyrir nýjungar í mat og drykk á Bretlandseyjum sem þykja skara fram úr. Þar hlutu öll sterkvínin frá Sgriob-ruadhen býlinu verðlaun en þau eru unnin úr mysu, nýting sem er nokkuð ný af nálinni. Mysa er Íslendingum að góðu kunn þó svo að fæstir drekki hana að staðaldri nú til dags. Hún gegndi hins vegar lykilhlutverki við geymslu matvæla áður fyrr og á nú athyglisverða endurkomu í áfengu formi.

Sgriob-ruadh-sterkvínið – MYND: Isle of Mull Cheese

„Frá því að við fórum að búa til osta hefur okkur langað til að nýta betur mysuna sem fellur til við ostagerðina. Áður notuðum við hana sem áburð á túnin. Við hugsuðum þetta lengi en ákváðum svo að fara út í þróun á sterkvíni, nokkuð sem okkur finnst passa fullkomlega með bragðmiklu ostunum okkar,“ segir Chris.

Í ostagerð verður mysa til þegar hleypt mjólk er síuð. Við víngerðina er mysan sett í tanka þar sem hún fær að gerjast. Þar er geri bætt við sem hámar í sig mjólkusykurinn og úr verður áfengi með sætum keim og margslungnu bragði. „Við erum mjög ánægð með útkomuna úr þróun sterkvínanna og það var afskaplega ánægjulegt að hljóta þessi verðlaun.

Við erum stöðugt að prófa okkur áfram og erum nú að hugsa um að bragðbæta vínin á ýmsan hátt, meðal annars með sólberjum og rabarbara sem við ræktum. Búið hefur þróast mikið á undanförnum árum og ég er mjög stolt af þeirri staðreynd að svo margir úr fjölskyldunni starfa hér og að við höldum áfram að gera þetta saman,“ segir Chris Reade að lokum í viðtali við FF7. 

Nýtt efni

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …