Samfélagsmiðlar

Allt að 40% af fötum eru aldrei notuð

Tíðni nýrra sendinga og nýrrar hönnunar hefur verið að aukast mjög. Ekki er lengur bara um vetrar- og sumartísku að ræða, heldur er nærri lagi að nú sé talað um tísku vikunnar hjá stærstu verslunarkeðjunum. Meðal Íslendingur losar sig við um 15-23 kg af textíl árlega.

MYND: PEXELS-EDGARS KISURO

Upp undir 40% af öllum fötum sem eru framleidd á ári í heiminum eru aldrei notuð og aldrei keypt. Þau enda mikið til á haugunum. Þetta gefur ný skýrsla til kynna.

Talið er að um 150 milljarðar af alls konar tegundum fata — peysum, skóm, jökkum, buxum, sokkum og þess háttar — séu framleiddir í heiminum öllum á ári hverju. Samkvæmt nýrri úttekt rannsóknarstofnunnar WGSN, sem er leiðandi í greiningum á neysluvenjum og tískusveiflum á heimsvísu, eru verulegar líkur á að allt upp undir 40% af öllum þessum fatnaði seljist aldrei. Það eru 60 milljarðar af fötum. 

Þetta er að hámarki. Hlutfallið gæti verið minna. Frekari rannsókna er þörf. Til þess að glíma við þessa gríðarlegu fatasóun segja sérfræðingar að nauðsynlegt sé að breyta framleiðslu- og verslunarháttum, auk þess sem þörf er á sérstöku regluverki. Fötin sem seljast ekki í verslunum ríkari þjóða heims er jafnan hrúgað í gáma og þeim siglt til fátækari þjóða. Samkvæmt greiningu Or stofnunarinnar, sem rannsakar áhrif fatasóunar á fátækari ríki, enda um 40% af þeim ónotaða fatnaði sem fer á markað hjá fátækari þjóðum á haugunum. 

Þræðir í fataframleiðslu. MYND: GETTY/UNSPLASH+

Þar bætist þessi fatnaður í ógnarstórar hrúgur alls þess notaða fatnaðar — sem þó seldist, en hefur runnið sitt skeið á enda — sem fer líka frá ríkari þjóðum til fátækari í milljarðavís. 

Fatasóun hefur verið vaxandi og illviðráðanlegt vandamál um langa hríð. Í umfjöllun Guardian um hin ónotuðu og óseldu föt er rætt við sérfræðinga sem tilgreina nokkrar mögulegar ástæður fyrir því að þessi offramleiðsla á fötum eigi sér stað. Fyrir það fyrsta er algengt að framleiðendur fari fram á að pantanir sé með lágmarksfjölda fata. Þeir senda ekki pantanir á þær verslanir sem tileinka sér hófsemi og panta lítið. 

Í annan stað þykir sýnt að tískusveiflurnar eru að styttast. Tíðni nýrra sendinga og nýrrar hönnunar hefur verið að aukast mjög. Ekki er lengur bara um vetrar- og sumartísku að ræða, heldur er nærri lagi að nú sé talað um tísku vikunnar hjá stærstu verslunarkeðjunum. Í þriðja lagi eru verslunareigendur og framleiðendur ekki alltaf snjallir í að lesa markaðinn og hvað viðskiptavinurinn vill. Urmull er til af dæmum um ömurleg föt sem enginn vildi kaupa, yfirleitt af augljósum ástæðum. 

Reynt hefur verið að innleiða alls kyns lausnir á þessu, einkum tæknilausnir, þar sem gervigreind er notuð til þess að spá fyrir um eftirspurn, langanir og þarfir kaupenda, þar sem takmarkið er að umbylta fataframleiðslunni þannig að föt séu einungis framleidd eftir þörfum. Fáir hins vegar nýta sér þessar lausnir. 

Orsakir offramleiðslunnar er einnig að finna í framleiðslukerfi sem setur magn í forgrunn. Eftir því sem fleiri stuttermabolir eru pantaðir því ódýrari verður hvert stykki. Kostnaðurinn við fataframleiðslu er mestur í hönnuninni og uppsetningu framleiðslutækjanna sem þarf að fara fram í upphafi, en svo verður fjöldaframleiðslan ódýrari. Í ofanálag þykir það vera martröð verslunareigandans að panta ekki nóg af vinsælli vöru. Flestir vilja ekki að bolirnir klárist. Því er yfirleitt pantað ríflega. 

Hér er úr vöndu að ráða. Fatasóun hefur verið töluvert í umræðunni hér á landi, eins og annars staðar. Fataiðnaðurinn veldur um 10% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem er meira en flug og skipaflutningar samtals. Auk þess hefur fataframleiðslan veruleg önnur umhverfisáhrif í för með sér, eins og mengun vatnsbóla. Minni sóun í tískuiðnaðinum skiptir þvi miklu máli þegar kemur að áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir í umhverfismálum. 

Í leit að notuðum fötum. MYND: GLEM ONOJEGHUO / UNSPLASH

Á heimasíðunni Saman gegn sóun, sem Umhverfisstofnun heldur úti, er farið yfir helstu stærðir og áskoranir þegar kemur að fötum og textíl almennt. Þar er til dæmis bent á að frá aldamótum hafi framleiðsla á fötum nær tvöfaldast og að nýtingartími fatnaðar hafi styst gríðarlega. Fötin endi hraðar í ruslinu, eða söfnunargámum. Sökina sé einkum að finna í svokallaðri skynditísku, eða fast fashion. 

Í skynditískugeiranum gildir að framleiða sem mest af ódýrum flíkum með litlum gæðum á sem skemmstum tíma og með sem minnstum fjárhagslegum tilkostnaði. Þessi eitraði kokteill hámarkar neikvæð áhrif á umhverfið og byggir ekki síður á bágbornum félagslegum skilyrðum vinnuaflsins. 

Þessir framleiðsluhættir hafa fallið í kramið hjá almennum neytendum ríkari þjóða heims. Á sama tíma og kaup á textíl hafa aukist verulega hefur nýtni fatnaðar dregist saman, og föt eru nú notuð í færri og færri skipti. Liðin er sú tíð, þótt vissulega geti þeir tímar runnið upp aftur, að fólk keypti fáar en góðar flíkur og var í þeim oft.  Samkvæmt yfirliti Umhverfisstofnunar dróst meðalfjöldi skipta, í heiminum öllum, sem hver flík er notuð, saman um fjórðung frá aldamótum til 2015. Fatnaðar var að meðaltali notaður í 200 skipti, en sú tala var komin niður í 150 árið 2015, og hefur lækkað síðan enn frekar. Nýjustu greiningar benda til að að hver fatnaðar sé nú notaður í 120 skipti, og svo í ruslið. 

Og úrgangurinn skapar vanda. Á Saman gegn sóun segir að meðal Íslendingur losi sig við um 15-23 kg af textíl árlega.  Áætlað er að um 60% sé urðaður með blönduðum úrgangi og að Rauði krossinn taki við um 40% til endurnotkunar og endurvinnslu, sem fer fram erlendis. 

Samkvæmt nýjum ákvæðum í lögum um meðhöndlun úrgangs, sem gengu í gildi fyrir um ári síðan og eru almennt kölluð lög um hringrásarhagkerfi, eiga sveitarfélög núna að taka að sér sofnun og meðhöndlun á notuðum textíl. Sorpa mun því brátt taka við fatasöfnun á höfuðborgarsvæðinu, en fatagámar Rauða krossins leggjast af. Rauði krossinn mun þó halda áfram að starfrækja búðir sínar með notuð föt og einhvers konar samstarf á milli Sorpu og Rauða krossins er í bígerð, samkvæmt minnisblaði frá Sorpu. 

„SORPA mun leggja höfuðáherslu á að tryggja ábyrga og gagnsæja afsetningu á þeim textíl sem ekki verður hægt að selja innanlands eða endurvinna með einhverjum hætti,“ segir í minnisblaðinu.  „Áhersla verður einnig á að stuðla að eins miklum endurnotum innanlands og mögulegt er. Auk þessa verður lögð áhersla á að tryggja eins hagstæð verð fyrir þann textíl sem SORPA sendir frá sér og kostur er.“

Töluverð umræða og vitund meðal almennings hefur skapast um notuð föt og notaðan textíl. Rauði krossinn rekur 19 verslanir víða um landið með notuð föt, og er raunar stærsta fataverslunarkeðjan á Íslandi. 

Sá flötur fatasóunnar sem lýtur að óseldum og ónotuðum fötum hefur þó ekki verið mikið í sviðsljósinu. Og nú eru semsagt líkur á að mun meira sé flutt inn heldur en nýtt er. Ráða má af lauslegri greiningu á innflutningstölum Hagstofunnar að Íslendingar hafi flutt inn um 15 kíló á mann af fötum og skóm árið 2022, eða um 6000 tonn. Af tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu að dæma eru Íslendingar yfir meðallagi. Samkvæmt þeim neyta Evrópubúar tæpra níu kílóa af fötum og skóm á ári. 

En nú er hins vegar spurning hvað Íslendingar nota mikið af þessu í raun og veru. Eitt er að flytja inn. Svo þarf að selja. Ef greiningar á óseldum fötum eru réttar, um að allt að 40% seljist aldrei og sé aldrei notað, fara allt að 2400 tonn af fötum aldrei í fataskápana eða í notkun hér á landi, eða í verslanir Rauða krossins að notkun lokinni, af þeim 6000 tonnum sem eru flutt inn. Þau fara beint aftur í gám og svo eitthvert til útlanda, og svo á haugana í fátækari ríkjum heims. 

Vont ef rétt er. Þetta þarf að greina frekar. Hér er komið verðugt rannsóknarefni fyrir skeleggan háskólanema. 

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …