Samfélagsmiðlar

Bláa lónið opnað að nýju

MYND: Bláa lónið

Bláa lónið verður opnað að hluta til að nýju klukkan 11 á þrettándanum eftir að nýtt áhættumat var gefið út af Veðurstofunni í gær. Gestir geta þá farið í sjálft baðlónið, á Blue Café, Lava Restaurant, Retreat Spa, Spa Restaurant og verslunina á staðnum.

Í tilkynningu frá Bláa lóninu segir að opnunartíminn sé breyttur frá því sem var en opið verður daglega milli klukkan 11 og 20. Silica Hotel og Retreat Hotel verða opnuð gestum að morgni þriðjudagsins 9. janúar. Daginn eftir geta gestir svo notið veitinga á Michelin-staðnum Moss Restaurant.

Þessi ákvörðun um opnun Bláa lónsins var auðvitað tekin í samráði við yfirvöld og Almannavarnir. Bláa lón­ið hefur verið lokað frá 19. des­em­ber.

Mynd: Veðurstofa Íslands

Veðurstofan gaf í gær út uppfært hættumatskort þar sem segir:

„Aðalbreytingin er á Svartsengi svæðinu (svæði 1), þar sem nú er talin vera „nokkur hætta“, en það er lækkun frá síðustu útgáfu kortsins. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að hætta vegna myndunar á stórum sprungum á yfirborði er talinn minni þar sem engar nýjar slíkar sprungur hafa myndast að undanförnu. Auk þess sem samtúlkun vísindafólks á vöktunargögnum á samráðsfundi Veðurstofunnar, bendir til þess að Sundhnúksgígaröðin, milli Stóra-Skógfells og Hagafells, sé lang líklegasta upptakasvæði eldgoss.“

Á grundvelli þessa mats er talið óhætt að opna Bláa lónið að nýju en auðvitað verður grannt fylgst með öllum breytingum, eins og segir í nýja hættumatinu:

„Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.“

Bláa lónið er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Gestajöldi þar árið 2022 svaraði til um helmings af heildarfjölda þeirra sem þá komu til landsins en árið 2019 var hlutfallið 65 prósent. Í viðtali við FF7 í tilefni af áramótum ræddi Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, eldsumbrotin á Reykjanesskaga og mikilvægi Bláa lónsins:

„Þessir atburðir snerta ferðaþjónustuna gríðarlega mikið. Ef við horfum bara til Bláa lónsins, þá er það mjög þýðingarmikill áfangastaður og stór hluti af ímynd Íslands sem ferðamannalands. Ísland án Bláa lónsins væri mjög breyttur áfangastaður. Ég veit ekki hvort er hægt að nefna til samanburðar Egyptaland án píramídanna. Bláa lónið skiptir gríðarlega miklu máli. Það hefur mjög mikil áhrif, ekki bara á Reykjanesskagann heldur verðmætasköpun ferðaþjónustunnar í heild sinni og þar af leiðandi þjóðarbúið. Þarna starfa yfir 700 manns, þar af um 100 úr Grindavík.“ 

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …