Samfélagsmiðlar

Dýrðarljómi og svört ský yfir hinum mikla keisara fótboltans

Eftir úrslitaleikinn gegn Hollandi á HM 1974: leikmennirnir Gerd Müller, Franz Beckenbauer og þjálfarinn Helmut Schön - MYND: Wikipedia

„Staða hans í heiminum var á milli kanslarans og Guðs, það er að segja rétt fyrir neðan Guð en langt fyrir ofan kanslarann.“

Svona er nú talað um knattspyrnugoðið Franz Beckenbauer sem lést þann 7. janúar. Dauði hans eru slík stórtíðindi að sjónvarpsstöðvar í Þýskalandi hafa ýtt áætluðum útsendingum til hliðar til að gera lífi og dauða hins mikla fótboltakeisara skil. Þessi glæsilegi stýrimaður þýsku varnarinnar – alltaf kallaður Der Kaiser af Þjóðverjum – tryggði Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn í fótbolta árið 1974 sem fyrirliði og aftur 16 árum síðar, eða árið 1990, og þá sem landsliðsþjálfari. En þrátt fyrir gífurlega velgengni á fótboltavellinum átti hann utan vallar eftir að berjast við þrálátan orðróm um spillingu, peningagræðgi og valdafíkn. 

Franz Beckenbauer fæddist í München, fæðingarborg nasistahreyfingarinnar, rétt eftir lok stríðs árið 1945. Þá var borgin rústir einar og lýsandi fyrir hið mikla hernaðarlega- og móralska gjaldþrot þýsku þjóðarinnar. Sjálfur ólst Beckenbauer upp við kröpp kjör í Giesingen, sem er lítill bær í jaðri München. Fljótlega komu einstakir fótboltahæfileikar unga mannsins í ljós og 19 ára hóf hann að spila með aðalliði hins mikla knattspyrnuveldis, Bayern München. Hann tók sér stöðu aftast í vörn þýska liðsins, hnarreistur, sjálfsöruggur, leikinn og með einstaka yfirsýn í stöðu sem í þann tíð var kölluð „libero“. 

„Franz Beckenbauer hafði yfirskilvitlega eiginleika til að lesa leikinn. Hann gat á augabragði, og langt á undan öllum öðrum, séð á hvaða hátt leikurinn mundi þróast og brugðist við því. Það var hans stóra leyndarmál,“ sagði hinn þekkti danski íþróttablaðamaður Per Høyer Hansen um hæfileika Beckenbauer. 

„Í sex ár þegar við spiluðum báðir fyrir Bayern München æfði ég nær daglega með Beckenbauer. Ég segi það alveg satt að mér tókst aldrei að ná boltanum af honum. Boltinn var límdur við hann og hann hafði einhvern innbyggðan radar þannig að hann hafði fullkomna yfirsýn yfir það sem gerðist á vellinum. Ekkert fór framhjá honum,“ sagði danski landsliðsmaðurinn Johnny Hansen um sinn gamla liðsfélaga.

Beckenbauer hafði ekki aðeins hæfileika til að skilja fótboltaleikinn sjálfan betur en aðrir. Hann varð líka fyrstur til að skilja hvernig peningatannhjól íþróttarinnar snerust og hvernig máttur peninganna átti eftir að stýra öllu í knattspyrnuheiminum. Hann tók þátt í auglýsingarherferðum fyrir stórfyrirtæki löngu áður en aðrir frægir knattspyrnumenn sáu möguleika á því að nýta vinsældir sínar til að selja hársnyrtivörur, jakkaföt eða bíla. Andlit hans sást oft í sjónvarpsauglýsingum og í stórum blaðaauglýsingum fyrir hin ýmsu vörumerki. En það var á þeim tímum þegar orðið „sponsor“ var enn óþekkt í fótboltanum. 

Allt gekk honum í haginn, sól hans var hátt á lofti og árið 1976 var Beckenbauer keyptur til Bandaríkjanna. Hann gekk til liðs við New York Cosmos og varð strax einn af þotuliði New York-borgar sem þá var að stíga sín fyrstu skref í slúðurpressunni. Hann varð svo frægur að meira að segja Andy Warhol málaði af honum mynd. 

Koma hans til vesturheims var þáttur í að gera evrópsku knattspyrnuna vinsæla í landi þar sem menn höfðu aldrei skilið evrópskan fótbolta. Brasilíski knattspyrnumaðurinn Pele var fenginn í sama tilgangi. Herferðin misheppnaðist í það skiptið þótt miklum peningum hafði verið dælt í tilraunina. En Beckenbauer tókst að vinna bandaríska meistaratitilinn þrisvar sinnum með New York Cosmos. 

Eftir dvölina í Bandaríkjunum, þegar Beckenbauer hafði lagt skónna á hilluna, gerðist hann landsliðsþjálfari Þýskalands. Þar sló hann líka í gegn því strax árið 1986, tveimur árum frá því að hann tók við starfinu, varð Þýskaland í öðru sæti heimsmeistaramótsins eftir tap í úrslitaleik gegn Argentínumönnum sem höfðu Diago Maradonna innanborðs. Og fjórum árum síðar, árið 1990, varð Þýskaland heimsmeistari í knattspyrnu karla með keisarann sem þjálfara.

Franz Beckenbauer var áratugum saman allt í öllu í lífi þýska fótboltans. Það var því ekki undarlegt að Þjóðverjar skyldu fá hann til að veita forystu nefndinni sem átti að tryggja þeim HM árið 2006. Það tókst og keppnin var kölluð „sumarævintýrið,“ slík var gleði Þjóðverja. Allt virtist ganga keisaranum í haginn en svört ský sáust þó út við sjónarrönd. Brátt fóru nefnilega að heyrast raddir um að hann hefði ekki hreint mjöl í pokahorninu. Var hann þrálátlega bendlaður við furðulegar peningafærslur og þátttöku í undarlegum viðskiptum í tengslum við hið ofurspillta og ormétna knattspyrnusamband FIFA. Tímaritið Spiegel afhjúpaði síðan leynisjóði og þátt Franz Beckenbauer í þeim mútugreiðslum sem inntar voru af hendi til að tryggja rétt Þjóðverja til að halda heimsmeistaramótið árið 2006. Svo mjög voru spillingarsögur um keisarann þrálátar og ágengar að hann ákvað að leggjast í útlegð og fluttist frá Þýskalandi til austurrísku borgarinnar Salzburg þar sem hann bjó til dauðadags. 

Flestir líta á Beckenbauer sem áhrifamikla og tilkomumikla hetju sem hafði „jafnmikil áhrif á sambandslýðveldið Þýskaland og bæði Konrad Adenauer og Willy Brandt,“ eins og Spiegel skrifaði og vísaði þar til tveggja af áhrifamestu könslurum Þýskalands eftirstríðsáranna. Aðrir hafa láta spillingarmálin yfirskyggja öll önnur afrek Beckenbauers og líta á hann sem tragíska veru sem hafi villst af leið í fótboltaheiminum þar sem peningar og valdametnaður geta auðveldlega „klobbað“ knattspyrnuhetju með yfirskilvitlegan leikskilning. 

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …