Samfélagsmiðlar

„Ekkert er raunverulegt“

Nú var loksins haldið til Liverpool að vitja æskuslóða Bítlanna, sjá allt með eigin augum - standa inni í tveimur strákaherbergjum og skynja eitthvað af því sem þar var hugsað. Þó að ekkert sé raunverulegt og kannski ekki ástæða til grufla of mikið í því, svo vitnað sé óbeint í John Lennon.

Út um gluggann í herbergi Johns - MYND: ÓJ

Þegar Bítladellan er á háu stigi dugar ekki tónlistin heldur leggst maður í bækur, greinar og viðtöl við þessa fjóra stráka frá Liverpool. Áhrif Bítlanna á tónlistarsköpun, sjálfsmynd heillar kynslóðar, lífsviðhorf og stíl eru mikil. Margir af eldri kynslóðinni supu hveljur yfir vinsældum hljómsveitarinnar sem losaði um hömlur sem ungviði eftirstríðsáranna hafði búið við.

George Harrison, Paul McCartney, Ringo Starr og John Lennon í Royal Albert Dock árið 1962

Það er ótrúlegt en satt að Bítlatónlistin þótti mörgum ómerkileg. Svavar Gests, skólaður dægurlagamúsíkant og hljómsveitarstjóri, skrifaði 7. júlí 1963 í Lesbók Morgunblaðsins um útkomu þriðju smáskífu Bítlanna í Bretlandi með lögunum From Me To You og Thank You Girl

„Lögin semja þeir sjálfir, og bæði lögin á þessari plötu eru sérkennileg, þó ekki risti þau djúpt. Söngurinn er líka öðruvísi en maður á að venjast, allt að því hjáróma söngur, og eilítið falskur á köflum, en kannski eiga „The Beatles“ eftir að ná sömu vinsældum meðal táninganna á íslandi, eins og í Bretlandi, já, og reyndar víðar. Plötur þeirra seljast eins og heitar lummur á Norðurlöndum, Þýzkalandi og víðar.“ 

Heitur Bítlaaðdáandi hneykslast auðvitað á þessari einkunnagjöf. Lögin tvö höfðu verið hljóðrituð í Abbey Road-hljóðverinu í London á einum og sama deginum, 5. mars 1963. George Martin, upptökustjóri, sagði þetta um lagið á A-hliðinni, From Me To You

„Ég bað strákana um lag sem væri jafn gott og Please, Please Me og það gerðu þeir: From Me To You. Þarna virtist botnlaus söngvabrunnur.“

Þó að íslenski plötudómarinn hafi ekki talið ástæðu til að hrósa eða nefna neitt jákvætt við From Me To You, sat lagið í 21 viku samfleytt á vinsældalistum – þar af 7 vikur í fyrsta sæti. Lesendur geta sjálfir skellt því á fóninn og dæmt um gæðin.

I´ve got everything that you want 

Like a heart that´s, oh, so true 

Just call on me and I´ll send it along 

With love, from me to you.

En nú er ég kominn út af sporinu, eins og oft vill verða þegar Bítlana ber á góma. Strax sokkinn í einhvern fróðleik eða sparðatíning. Þetta átti ekki að verða einhver greining á tónlist Bítlanna heldur lítil ferðafrásögn. 

Eftir að hafa alist upp við tónlist Bítlanna og sótt í þann brunn með hléum – til að hlusta betur, uppgötva eitthvað nýtt – eða bara til að komast í gott skap – gleyma sorg og súld, þá varð ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að enn vantaði mynd í þennan langa sögurefil sem teygði sig aftur til bernskuáranna: Ég hafði aldrei komið til Liverpool! Ég á erfitt með að skýra hvers vegna ég lét ekki verða af því fyrr en ég var orðinn ári eldri en þessi gamli og rómantíski sem Paul lýsti í brag sem hann samdi til að gleðja pabba gamla en endaði á Sgt. Pepper´ s -plötunni. Kannski var ég hræddur um að verða fyrir vonbrigðum eða vildi geyma mér þessa upplifun þar til að ég hefði fengið nauðsynlega fjarlægð til að yfirvega áhrif þessa staðar, hafnarborgarinnar Liverpool, á strákana fjóra sem áttu eftir að sigra heiminn.

Vissulega hafði ég farið á tónleika með snillingnum Paul McCartney, sem flutti mér tárvotum af geðshræringu Bítlalögin í bland við sín eigin – og Ringo Starr hafði ég séð tilsýndar með Yoko Ono hér uppi á Íslandi. En ég hafði ekki vitjað upphafsreitsins. 

Þrír dagar í ágúst voru ætlaðir í þessa söguferð. 

There are places I´ll remember

All my life, though some have changed.

Some forever, not for better;

Some have gone and some remain.

Þannig orti John Lennon 25 ára gamall og leit tregafullur um öxl – til uppvaxtaráranna í Liverpool. Nú var ég á leiðinni þangað í afmælisferð – í boði eiginkonu minnar, sem reglulega hafði minnt mig á hvað ég ætti ógert – að koma mér til Bítlaborgarinnar.

Það er svo sem ekki flókið að ferðast til Liverpool, annað hvort í beinu flugi til flugvallarins sem ber nafnið Liverpool John Lennon Airport eða í gegnum Manchester, sem er næsti bær við, og taka lestina þaðan inn á Lime Street-stöðina í miðborg Liverpool. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu í miðborginni héldum við rakleiðis í Mathew Street, þar sem Cavern-klúbburinn var – og er í dag endurbyggður fast við upprunastaðinn. Þvílík skammsýni að hafa ekki varðveitt klúbbinn nákvæmlega eins og hann var á árunum 1961 til 63 þegar Bítlarnir komu þar fram 292 sinnum – síðast 3.ágúst 1963. Þarna var maður 60 árum og einum degi síðar og ýtti þeim vangaveltum til hliðar.

Fyrir utan The Cavern Club – MYND: ÓJ

Mathew Street er í dag ansi sjoppuleg, ein miðstöðva Bítlatúrismans í Liverpool. Gaman var hinsvegar að setjast inn á Grapes, krána gegnt Cavern. Þangað stungu þeir sér inn strákarnir til að fá sér bjór eftir tónleika, en áfengi var ekki löglega í boði í Cavern-klúbbnum. Svo er auðvitað þess virði að fara niður tröppurnar í klúbbinn endurreista og skynja hversu þröng þessi húsakynni voru til tónleikahalds. Þarna var á bernskudögum rokksins mikill hávaði, mjög heitt og svitinn lak niður veggina – líka þegar Hljómar frá Keflavík spiluðu þarna 1964. Nú gerum við vel tilhafðir, síðmiðaldra og sællegir bítlatúristarnir, okkar besta til að endurlifa söguna með aðstoð hermikráka á sviðinu. 

Inni í Cavern-klúbbnum – MYND: ÓJ

Það rignir stundum í Liverpool og laugardagurinn rann upp dálítið súldarlegur. Framundan var hinsvegar spennandi dagskrá – og regnhlífin var höfð með. Eiginkonan hafði keypt miða í skoðunarferð á æskuheimili John og Paul, sem nú eru í eigu National Trust, sjálfsstæðs varðveislusjóðs sögulegra bygginga og landssvæða sem mikilvægt þykir að vernda í Bretlandi. Kaupa verður miða í þessa skoðunarferð með fyrirvara á netinu. Tveir miðar og vandaðir bæklingar um heimili Lennon&McCartney kostuðu 78 pund, eða rúmar 13 þúsund krónur. Þeim peningum var vel varið.

Horft út um framrúðu í bíl National Heritage. All You Need Is Love hljómar í hátölurum – MYND: ÓJ

Við héldum með leigubíl að móttökuhúsi við Speke Hall, þaðan sem við fórum, um 10 manna hópur, að skoða parhúsið fína Mendips við Menlove Avenue númer 251, þar sem John óx upp í skjóli Mimi frænku, og síðan í hús McCartney-fjölskyldunnar á Forthlin Road númer 20.

Þessi skoðunarferð var sannarlega mikil upplifun – ógleymanleg. Allt gekk upp. Það var nánast yfirþyrmandi á köflum að ganga um þessi hús – það hrærði upp í mörgum stöðvum í höfðinu – en um leið var þetta skemmtilegur leiðangur með vandaðri leiðsögn í góðum hópi: Við tvö frá Íslandi, frönsk fjölskylda og Bretar á ýmsum aldri. Öll vorum við uppnumin af því að fá að ganga um æskuheimili þessara manna sem sigruðu heiminn og hafa tryggt sér sess í sögunni. Það er bannað að taka ljósmyndir og fyrir vikið eru heimsóknirnar í þessi hús dýrmætari. Ef þessi gólf og veggir gætu talað!

Við heimreiðina að Mendips – MYND: ÓJ

Það kemur sjálfsagt einhverjum á óvart að lesa að John Lennon hafi búið við langbestar ytri aðstæður Bítlanna lengst af í æsku, í skjóli Mimi móðursystur sinnar og eiginmanns hennar, George Smith – á meðan hans naut við. „Ég bjó í úthverfi í notalegu parhúsi með litlum garði og í kring bjuggu læknar, lögfræðingar og svoleiðis lið. Ég var stilltur og snyrtilegur úthverfisstrákur,“ sagði John þegar hann rifjaði upp dvölina í Mendips, þar sem að hann var skráður til heimilis frá 1946 til 63. En dvölin þarna var ekki áfallalaus. Á götunni fyrir framan móti lét móðir hans Julia lífið þegar hún var á leið yfir á strætóstoppistöð eftir heimsókn hjá systur sinni. John var ekki heima. Lögreglumaður á frívakt ók á hana. Á einum sumardegi 1958 breyttist veröldin hjá John Lennon þó hann lét fátt uppi um það til að byrja með. 

Húsið Mendips var „næstum því fínt í fínu hverfi,“ eins og Paul orðaði það. Parhús með garði, byggt 1933. Það skartar steindu gleri í Art Nouveau-stíl. Fáir gengu um forstofuna við aðalinngang hússins en hún hafði góðan hljómburð sem John og Paul nýttu sér. Gegnt er inn í eldhúsið úr garðinum bakatil og þar fyrir innan er morgunherbergið svonefnda, hjarta hússins þar sem John drakk teið með Mimi. Svo er þarna borðstofa og setustofa með arni og bókahillum. Yoko Ono, sem keypti húsið og gaf National Trust til varðveislu, segir að John hafi sagt henni sögur af því hvernig varast þurfti að stíga á tiltekna tröppu í stiganum upp á hæðina fyrir ofan – ef komast átti hjá því að framkalla brakið sem vekti Mimi frænku. Þarna uppi eru baðherbergi og klósett, tvö stór svefnherbergi og eitt lítið sem John átti og var beint fyrir ofan aðalinnganginn. Gluggarnir í því skörtuðu steinda glerinu. Það hlýtur að hafa haft áhrif á drenginn að horfa út í Liverpool-grámann í gegnum litina í glerinu. Heimurinn getur verið óraunverulegur.

Mendips var bókaheimili. Þegar Paul og aðrir vinir komu í heimsókn göptu þeir á hillur fullar af bókum – sem John las. Blöðin sem bárust á heimilið voru drengnum líka mikilvægur innblástur. Lítil frétt gat komið huganum á flug. Þetta áttu þeir John og Paul sameiginlegt – og fylgdi þeim. Ótal textar sputtu upp úr smáfréttum í dagblöðunum. 

Við látum þetta duga um Mendips. Heimsókn þangað lætur engan Bítlaunnanda ósnortinn. Yoko á heiður skilinn fyrir að átta sig á því að þetta hús þyrfti að varðveita í sem næst upprunalegu horfi og gefa það National Trust árið 2002. Frábær leiðsögumaður okkar í Mendips, Peter Grant, spurði mig þegar hann kvaddi fyrir utan húsið: „What did you think of it?“ Ég varpaði öndinni og svaraði: „I´m overwhelmed!“ Hann tók um hönd mína og sagði skilningsríkur: „I know, I understand.“

Peter Grant, leiðsögumaður í Mendips, kveður með friðarmerkinu – MYND: ÓJ

Bílstjórinn sem ók hópnum benti okkur á að skáhallt á móti Mendips, handan við Menlove Avenue, væri golfvöllur Allerton Manor-klúbbsins og meðfram honum lægi stígur yfir í hverfið þar sem Paul bjó. Þegar þeir vinirnir heimsóttu hvorn annan skutust þeir þarna yfir. Ekki fer fleiri sögum af ferðum þeirra um golfvelli heimsins. Raunar fór John oftar heim til Pauls en öfugt. Mimi frænka setti fleiri reglur um hávaða og stuð en Jim pabbi Pauls.

Þarna í húsinu númer 20 við Forthlin Road í Allerton sömdu þeir Paul og John mörg fyrstu laga sinna og Quarrymen og síðar Bítlar fengu næði til að æfa sig – nánast að vild. Tónlistarmaðurinn Jim hafði góðan skilning á því. Hann hafði missti eiginkonuna 1956, á upphafsárinu í þessu húsi, og bjó þarna næstu árin með sonunum tveimur Paul og Mike – og hafði ekkert á móti því að líf væri í húsinu.

Hópurinn á undan okkur kveður 20 Forthlin Road – MYND: ÓJ

Einstakar ljósmyndir Mike, sem birtar eru í bæklingi National Trust, staðfesta að neðri hæðin var oft undirlögð af hljóðfærum. Ein myndin sýnir unga George Harrison með þeim John og Paul við bakhlið hússins, önnur sýnir Paul að setja þvott í vél og sú þriðja John að hella upp á te undir vökulu eftirliti Pauls, sem var eini Bítlanna sem kunni til húsverka og var sjálfbjarga í eldhúsi þegar þeir fluttust að heiman fjórmenningarnir – í burtu frá Liverpool til höfuðborgarinnar London að elta frægðina.

Segja má að Bítlarnir hafi orðið til á heimili Paul McCartney – MYND: Bæklingur National Trust / ÓJ

Það er magnað að skoða þetta látlausa hús, eitt margra þarna sem borgin lét byggja eftir stríðið sem lék Liverpool illa, og sjá með eigin augum hversu vel það hefur varðveist. Paul bjó þarna á mótunartíma sínum, 1956 til 64, á árunum þegar Bítlahljómurinn varð til. Þegar ólíft var orðið fyrir Jim að búa þarna vegna ágangs æstra aðdáenda eldri sonarins fluttist hann annað. Húsið eignaðist fólk sem var nægjusamt og hélt flestu óbreyttu í áratugi. Flísar á gólfi eru þær sömu. Á þeim gengu Paul, John, George, Ringo og allir vinirnir! Eldhúsvaskurinn er sá sami. Klósettið á efri hæð lítt breytt. Á bak við veggfóðrið þar gæti leynst riss eftir Paul – kannski drög að textum. Þetta verður rannsakað betur eins og Pompei í suðrinu.

Upphaflegar gólfflísar í eldhúsi McCartney-fjölskyldunnar – MYND: ÓJ

Paul hefur sagt frá því að vinum sem komu í heimsókn hafi þótt stórsniðugt og merkilegt að á neðri hæðinni væri hægt að fara hringinn um dyr á milli borðstofu, setustofu og eldhúss. Þetta varð vinsæll hlaupahringur. Úr eldhúsi er gegnt út í garð þar sem var kolageymsla og útikamar. Þó eru baðherbergi og klósett í sjálfu húsinu, sem var kærkominn lúxus alþýðufólks á þessum tíma. Og svo var McCartney-fjölskyldan með síma af því að það varð að vera hægt að ná sambandi við ljósmóðurina Mary.  

Bakgarðurinn á 20 Forthlin Road. Jim McCartney ræktaði þar blóm og grænmeti – MYND: ÓJ

Það var nánast óraunverulegt að skoða þetta hús, þar sem segja má að Bítlarnir hafi orðið til, að fá tækifæri til að standa einn og ótruflaður um stund í litla herberginu hans Pauls og horfa út um gluggann – eins og hann. Þökk sé National Trust fyrir að hafa keypt húsið loksins 1995 og varðveita það svona vel og fallega.  

Horft út um gluggann á herbergi Pauls – MYND: ÓJ

Þessi heimsókn á æskuheimili Johns og Pauls í úthverfinu gefur besta innsýn í Bítlasöguna og um jarðveginn sem þeir eru sprottnir úr. Liverpool var sein að átta sig á mikilvægi Bítlasögunnar fyrir borgina – og hefur ekki enn að fullu áttað sig. Ekkert hefur verið gert til að heiðra minningu George Harrison á bernskuheimili hans. Það er ekki einu sinni minningarskjöldur á húsinu númer 12 við Arnold Grove, þar sem hann fæddist og ólst upp við fremur kröpp kjör en naut meira öryggis, hlýju og ástúðar fjölskyldulífs en hinir Bítlarnir í uppvextinum. Húsið þar sem Ringo Starr fæddist í við Madryn Street var jafnað við jörðu þrátt fyrir undirskriftum væri safnað með hvatningu um varðveislu þess. Enn stendur þó litla húsið við Admiral Grove númer 10, sem Ringo fluttist í með móður sinni 1943 þegar fjölskyldufaðirinn lét sig hverfa. Þar sem bjó Ringo til 1963 þegar Bítlasólin tók að rísa. Á gafli húsalengjunnar er mynd af trymblinum ástsæla.

Ný kynslóð kynnir sér Bítlasöguna á The Beatles Story-sýningunni í Royal Albert Dock – MYND: ÓJ

Bítlatúrisminn er blómlegur í Liverpool. Auk húseignanna í eigu National Trust er bítlasafnið Liverpool Beatles Museum við Mathew Street, og Bítlasýningin í Royal Albert Dock, The Beatles Story, þar sem getur að líta gleraugu Johns og fyrsta gítar George – og eftirmyndir nokkurra staða úr Bítlasögunni.

Aðdráttaraflið enn til staðar – MYND: ÓJ

Styttur af Bítlunum þarna við hafnarsvæðið draga að sér mikinn fjölda fólks. Úti á Mersey-ánni sigla ferjur, skip og bátar – og mávarnir sveima yfir. Upp í hugann kemur bragurinn sem Paul samdi og færði Ringo til söngs: 

In the town where I was born,

Lived a man who sailed the sea.

And he told us of his life,

In the land of submarines. 

Bítlarútan á leið niður Penny Lane. Rakarastofa Tony Slavin enn á sínum stað – MYND: ÓJ

Stöðugur straumur fólks er í strætóferðir með leiðsögn um söguslóðir Bítlanna. Flestir láta sér slíka ferð duga. Við skelltum okkur í strætóferð síðasta daginn. Það var gott að fá betri tilfinningu fyrir borginni og sjá úr fjarlægð staði sem tengjast sögu hljómsveitarinnar. Á Penny Lane fékk maður að heyra þau dapurlegu tíðindi að brátt yrði rakarastofunni sem Paul orti um lokað:

In Penny Lane there is a barber showing photographs

Of every head he´s had the pleasure to know.

Og enn stendur hliðið að Strawberry Field, þar sem rekið var barnaheimili í húsi sem rifið var 1973. Í garðinum lék John sér ungur og nafnið lifir í textanum sem hann samdi: Ekkert er raunverulegt og ekki ástæða til að grufla of mikið í hlutunum.

Let me take you down,

´cause I´m going to Strawberry Fields.

Nothing is real,

And nothing to get hung about.

Strawberry Fields forever.

Hliðið að Strawberry Field er orðið helgistaður Bítlatúristanna – MYND: ÓJ

Þá var komið að því að kveðja Liverpool. Þarna í hafnarborginni varð til suðupottur tónlistar, straumar frá Ameríku bárust með plötum sem sjómenn fluttu með sér. Bítlarnir urðu til. Minnisvarði um þá sem lengst mun standa er sjálf tónlistin og hana má heimsækja hvenær sem er. 

(Tilvitnanir í texta laga eftir Lennon&McCartney: From me to you, In My Life, Yellow Submarine, Penny Lane, Strawberry Fields Forever)

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …