Samfélagsmiðlar

Framtíð vatnssalans tryggð á fimmtán örlagamínútum

Saga Victors Osimhen, markaskorara Napolí-liðsins á Ítalíu og landsliðsmanns Nígeríu, er ævintýri líkust. Hann ólst upp í örbirgð við risavaxinn sorphaug í úthverfi Laos en er nú með eftirsóttari knattspyrnuhetjum heims.

Victor Osimhen

Victor Osimhen, nígeríski framherji Napolí-liðsins - MYND: SSC Napoli

Samkvæmt kenningum þeirra sem rannsaka hin svokölluðu árangursfræði (successology) eru afkomendur þeirra sem eru frægir, ríkir, bestir, flottastir, gáfaðastir, áhrifaríkastir og eftirsóttastir líklegastir til að verða frægir, ríkir, bestir, gáfaðastir, flottastir, áhrifaríkastir og eftirsóttastir. Þetta er kallað hringrás velgengninnar. Þetta hljómar einfalt en er ekki alltaf jafn einfalt og fræðin segja því að leiðinni til frama er líka stýrt af öflum sem eru algjörlega stjórnlaus og tilviljunarkennd. Heppni er kannski þáttur sem oft er vanmetinn.

Þeir sem hafa áhuga á fótbolta þekkja knattspyrnuhetjuna Victor Osimhen sem nú leikur fyrir landslið Nígeríu á Afríkuleikunum í fótbolta. Hann er langur og mjór, 186 cm á hæð, og hefur í fljótu bragði ekki líkamsburði til að vera topp fótboltamaður.

Dags daglega spilar Osimhen á Ítalíu fyrir lið sitt Napolí og þar raðar hann inn mörkum. Á síðasta keppnistímabili varð hann markahæsti leikmaður ítölsku deildarinnar, skoraði 18 mörk í 32 leikjum. Hann var líka kjörinn besti leikmaður ítölsku deildarinnar og besti fótboltamaður Afríku (þar sem Salah og Mané voru líka í kjöri).

Ef marka má hin miklu árangursfræði sem vitnað var í hér að ofan eru líkurnar á því að Victor Osimhen sé nú einn af eftirsóttustu knattspyrnumönnum heims afar litlar. Hann fæddist og ólst upp í úthverfi Laos, svokölluðu Olusosun-hverfi sem er aðallega þekkt fyrir risavaxinn ruslahaug á stærð við evrópskt smáríki, mikla landfyllingu sem notuð er til að farga allskonar baneitruðum efnaútgangi, fyrir súra ruslaþoku sem grúfir yfir fátæklegum heimilunum og eiturefnaskýi sem lyktar eins og haugur af rotnandi svínum.

Osimhen reynir ekki að gera fátækt sína eða uppvöxt á þessum skítahaug að ævintýri sem endar vel. „Þegar ég hugsa um hverfið mitt, Olusosun … ja, það er ekki staður sem vekur hjá manni vonir eða gleði. Inn í hverfið koma 10.000 tonn af rusli á hverjum degi. Mikið af því eru alls konar ónýt rafeindatæki, tunnur fullar af einhverju eitruðu sulli sem síast niður í jörðina og gufa upp í andrúmsloftið svo lyktin þar er andstyggileg. Þarna er engin von og það er enginn sem trúir á þig eða á framtíðina yfirleitt.“

„Ég fæddist árið 1989, þann 29. desember, og ég á sex systkini. Mamma dó þegar ég var smábarn og pabbi var atvinnulaus. Við systkinin urðum að bjarga okkur og þurftum að gera eitthvað til að fjölskyldan fengi að borða. Bróðir minn seldi dagblöð, ég sjálfur seldi vatn á flöskum á hraðbrautinni sem liggur í útjaðri hverfisins, sló gras og var í alls konar reddingum,“ sagði Osimhen í blaðaviðtali þegar hann gekk til liðs við Napolí árið 2020.

„Pabbi vildi að ég yrði læknir, sem var auðvitað hlægilegt, en ég vildi verða Didier Drogba. Ég spilaði fótbolta með vatnsflöskum við bræður mína. Mér tókst að finna fótboltaskó á ruslahaugunum og það gerði mig að mikilli hetju hjá vinum mínum. Ég var langur og mjór, miklu hærri en jafnaldrar mínir. Það hafði sína kosti. Ég gekk því til liðs við fótboltafélagið í hverfinu, Olusosun United, og þar var aðalmaðurinn Paul Erikewe, eða „Baba“ eins og hann er kallaður. Hann þjálfaði okkur.“

Fljótlega kom í ljós að Osimhen var efnilegur fótboltamaður og var hann fljótlega kallaður til liðs við stærra félag í Laos, Ultimate Strikers Academy. Þar spilaði hann þangað til hann var 15 ára gamall. Kvöld eitt lék félag Osimhen keppnisleik við nágrannalið og þar var staddur náungi að nafni Shira Ayila, svokallaður „scout“. Honum þótti þessi renglulegi framherji Ultimate Strikers áhugaverður og eftir leikinn spurði hann Osimhen hvort hann hefði áhuga á að koma til prufuæfingar hjá U17 ára landsliði Nígeríu. Þetta var svokölluð fjöldaæfing því þarna fengu mörg hundruð nígeríanskir drengir möguleika á að sýna sig fyrir þjálfara U17 ára landsliðsins Emmanuel Amunike, fyrrum leikmanni Barcelona,

Vandinn var sá að æfingin var haldin í 500 kílómetra fjarlægð frá heimili Osimhen sem átti ekki túkall með gati og gat því með engum móti fjármagnað slíka langferð. Shira Ayila ákvað að taka áhættuna, tróð drengnum inn í drusluna sína og keyrði hann alla 500 kílómetrana á æfinguna. Þjálfari U17 liðsins, Amunike, sá ekki mikið í þessum mikla langintes og þótti ekki sérlega mikið til hans koma en féllst þó á (eftir áeggjan Shira Aylia) að gefa honum tækifæri til að koma inn á í æfingaleik. Osimhen fékk 15 mínútur til að sýna sig og þetta voru sannarlega örlagríkar 15 mínútur. Framtíð drengsins var ráðin. Osimhen stóð sig frábærlega í leiknum og skoraði tvö glæsimörk í þessari stuttu innáskiptingu. Þjálfarinn var þó enn ekki sannfærður um Osimhen. „Ég sagði við aðstoðarmenn mína að ég sæi svo sem ekki svo mikið í þessum dreng þótt hann hefði skorað tvö mörk. En allir aðrir voru sannfærðir um að hann væri mikið efni og ætti skilið að spila fyrir liðið. Meira að segja liðslæknirinn kom að máli við mig og sagði að ég ætti að velja Osimhen,“ sagði Amunike.

„Næsta dag ákvað ég að fylgjast betur með honum á æfingu. Og þá sá ég að auk knattspyrnuhæfileikana bjó í honum svo mikill vilji, ástríða og hungur. Hann var baráttumaður. Það voru fyrst og fremst þessi persónueinkenni sem sannfærðu mig um að velja hann í liðið. Ég var ekki svo áhugasamur um það hvernig hann spilaði fótbolta heldur var ég miklu áhugasamari um heilan í honum, fótboltagáfur hans.“

Þetta var árið 2015 og Osimhen var að endingu valinn til að ferðast með U17 liði Nígeríu til Chile til að taka þátt í heimsmeistarakeppni unglingalandsliða, leikmanna undir 17 ára. Í stuttu máli varð Nígería heimsmeistari og Osimhen skoraði mark í öllum leikjum liðsins, samtals 10 mörk í 6 leikjum og varð markahæsti leikmaður mótsins.

Eftir heimsmeistarmótið í Chile varð skiljanlega allt vitlaust. Öll topplið evrópska fótboltans vildu þennan langa framherja til liðs við sig: Barcelona, Ajax, Atletico Madrid, Inter Milan og Arsenal. Arsene Wenger, þjálfari Arsenal, var í símanum á hverjum degi til  að reyna að sannfæra Osimhen og að skrifa undir samning við lið sitt.

Victor Osimhen

Victor Osimhen sendir fingurkoss til áhorfenda á Diego Maradona-leikvanginum í Napolí – MYND: SSC Napoli

En það var þýska knattspyrnufélagið Wolfsburg sem tókst að sannfæra Osimhen. „Við gátum boðið honum upp á meiri rólegheit,“ sagði Olaf Rebbe, sem var íþróttastjóri Wolfsborg á þessum tíma. „Hann trúði því að við meintum allt sem við sögðum og að við vildum gera leiðina að aðalliðinu greiða. Hann var að yfirgefa heimili sitt í fyrsta skipti og hann þurfti á tryggum ramma að halda. Við trúðum á hann og öllum líkaði vel við hann – meira að segja stóru stjörnunum okkar.“

Osimhen gat þó ekki skrifað undir samning fyrr en hann var orðinn 18 ára, eða í blálok ársins 2016, en honum var boðið að vera með í æfingabúðum þar til samningurinn gat verið undirritaður.

Það fylgir þó þessari sögu að Wolfsburg var með annan ungan framherja í sigtinu. Hann hafði líka raðað inn mörkum fyrir lið sín en hann var 18 mánuðum yngri en Osimhen og því var leiðin að aðalliðinu enn lengri en hjá Osimhen. En hver veit hvernig sagan hefði þróast hefði Wolfsburg valið að gera frekar samning við ljóshærða drenginn frá Noregi, Erling Haaland?

Opinberlega gekk Victor Osimhen til liðs við Wolfsburg árið 2017 og næstu 18 mánuði spilaði hann 16 leiki og skoraði nákvæmlega ekkert mark. Allt var honum í óhag; markaþurrð, hnémeiðsli, malaría og algjör skortur á sjálfstrausti. Þetta var mikið hörmungarár og á endanum sendi Wolfsburg drenginn á lánssamning til Belgíu til Charleroi-liðsins. Í lánssamningnum var málsgrein sem tryggði Charleroi rétt til að kaupa Osimhen fyrir 3 milljónir evra í lok tímabilsins.

Þetta reyndist mikill happafengur því frá fyrsta leik með Charleroi byrjaði Osimhen aftur að raða inn mörkum. Í 36 leikjum fyrir Charleroi skoraði Osimhen 20 mörk. Charleroi var lið í mikilli fjárhagsklípu og sáu forsvarsmenn liðsins sér leik á borði. Liðið ákvað að kaupa Osimhen og selja hann strax. Bauð franska liðið Lille 15 milljónir evra fyrir unga framherjann. Osimhen þakkaði fyrir traustið og hélt áfram að skora mörk í frönsku deildinni; 18 mörk fyrir Lille á fyrsta keppnistímabilinu og allt í einu var þessi nígeríski framherji orðinn einn heitasti framherji Evrópu. Napólí fékk leikmanninn fyrir 70 milljónir evra. Í þau þrjú ár sem Osimhen hefur leikið fyrir Napólí hefur hann skorað um 60 mörk.

Þrátt fyrir að lið frá Sádí-Arabíu hafi boðið 200 milljónir fyrir leikmanninn síðastliðið  sumar ákvað Victor Osimhen að endurnýja samning sinn við Napólí og gildir hann til ársins 2026.

Nýtt efni

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …