Samfélagsmiðlar

Hvað hefur Roald Dahl gert af sér?

Roald Dahl - MYND: Encyclopaedia Britannica

Fyrir nokkrum vikum voru frumsýndar á Netflix fjórar kvikmyndir eftir hinn fræga kvikmyndaleikstjóra Wes Anderson sem hann byggði á sögum enska barnabókahöfundarins Roald Dahl. Þetta eru stuttar kvikmyndir, stysta er 17 mínútur og sú lengsta 39 mínútur:

The Wonderful Story of Henry Sugar (sú lengsta),
The Swan
The Rat Catcher
Poison 

Benedict Cumberbatch fer með hlutverk Henry Sugar í The Wonderful Story of Henry Sugar – MYND: Netflix

Allar hafa stuttmyndirnar fengið framúrskarandi viðtökur enda eru þær mjög í anda Wes Anderson sem hefur tileinkað sér afar sérstakan stíl í kvikmyndatöku og frásagnaraðferð. Í rauninni eru þessar fjórar kvikmyndir leiknar hljóðbækur, einskonar bókmenntamyndbönd í anda tónlistarmyndbandanna, því texti höfundarins er fluttur nær óbreyttur. 

Þrátt fyrir allt hólið sem Wes Anderson hefur fengið fyrir kvikmyndirnar hafa svörtu skýin sem hafa fylgt Roald Dahl hin síðari ár skyggt á gleði leikstjórans. Hefur hann ítrekað verið spurður hvaða skoðanir hann hafi á rithöfundinum og verið beðinn að taka afstöðu gegn meintum fordómum hans. Wes Anderson hefur algjörlega neitað því og látið þess getið að bækur Roald Dahls séu engu verri þótt höfundur þeirra hafi ekki alltaf hegðað sér eins og engill, verið til fyrirmyndar eða haft skoðanir sem hann sjálfur sé ekki hlynntur.

Og hvað er svo að Roald Dahl? Hvað hefur hann sagt og hvað hefur hann gert af sér?

Ein þekktasta bók Roalds Dahl er um stúlkuna Matthildi

Í huga flestra er enski rithöfundurinn Roald Dahl snillingur og höfundur margra af vinsælustu barnabóka heimsins eins og Kalli og sælgætisgerðin, Matthildur, Nornirnar og fleiri.

Árið 1982 heimsótti Frank Delaney einn af þekktustu sjónvarpsmönnum BBC Roald Dahl og tók við hann frægt viðtal þar sem skáldið fer um víðan völl. Í viðtalinu segir Roald Dahl meðal annars frá vinnudegi sínum og þótti skáldið koma mjög vel frá þessu sjónvarpsviðtali og ýtti það enn frekar undir aðdáun samlanda sinna.

Sjónvarpsáhorfendur fengu að sjá hina mildu hlið Roald Dahl sem rölti í rólegheitum að morgni dags frá húsi sínu og út að litlum skrifskúr í garðinum. Þar sat hann næstu fjóra klukkutímana og skrifaði.

Þetta var viðkunnanlegt sjónvarpsefni og áhorfendum þótti notaleg sjón að sjá rithöfundinn koma sér fyrir í skúrnum, stinga sér ofan í svefnpoka og draga hann alveg upp að brjósti („manni má ekki verða kalt“), fá sér sæti á risavöxnum stól vil lítið borð, ydda sex blýanta („þeir þurfa allir sex að vera yddaðir áður en ég byrja“) og taka til starfa. Sígaretta í munnvikinu og hitabrúsi með kaffi í seilingarfjarlægð.

„Að endingu afkastar þú að minnsta kosti einhverju,“ sagði Dahl brosandi við sjónvarpsmanninn Delaney. „Þeir sem ekki trúa á töfra munu aldrei sjálfir skynja mátt þeirra,“ sagði skáldið, horfði í myndavélina og skrúfaði upp sjarmann. 

En það var ekki fyrr en eftir dauða Roald Dahls, árið 1990, að hinar dökku hliðar skáldsins fóru fyrir alvöru að vekja spurningar um verk hans og arfleifð.

Þótt að Roald Dahl hafi opinberlega gengist við því að hann væri haldinn gyðingaandúð í viðtali sem tekið var við hann stuttu fyrir dauða hans var í langan tíma eins og ómældar vinsældir bóka hans yfirskyggðu þær áhyggjurnar sem komu fram um fordóma hans. Í viðtalinu sagði Roald Dahl: „Það er eitthvað í fari gyðinga, eitthvað í persónuleika þeirra, sem vekur upp hatur og andúð … ég á við að það er ekki að ástæðulausu sem and-eitthvað kviknar. Meira segja fúlmenni eins og Hitler hafði ekki horn í síðu gyðinga að ástæðulausu … .“  Þrátt fyrir allar þær ábendingar sem komið höfðu fram um kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu Roalds Dahl gátu aðdáendur hans bara ekki trúað upp á rithöfundinn að hann væri sá skíthæll sem síðar hefur komið í ljós. Ekki bara „hálfgerður skíthæll heldur, andstyggilegur og hreinn skítakarakter,“ eins og einn af fyrrum samstarfsmönnum hans skrifar í æviminningum sínum.

Roald Dahl í skrifskúrnum með yddaða býanta til reiðu – MYND: The Roald Dahl Museum and Story Centre

„Hann fyrirleit konur, hataði gyðinga, hann svindlaði og sveik og hann var hrokafullur frekjuhundur.“ Jeps, þetta er lýsing af Roald Dahl, náunganum sem skrifaði Matthildi (að vísu kemur í ljós að í upprunalegu útgáfu Roalds Dahl er Matthildur heimsk og illa innrætt stelpa sem níðist á bláfátækum foreldrum sínum, en eftir mikla baráttu ritstjóra hans á forlaginu, Steven Roxburgh, fékk Matthildur mun viðkunnanlegri persónueinkenni í lokaútgáfunni.) Roald Dahl var frægur fyrir að móðga fólk, stofna til illinda og var hann bara almennt talinn leiðinlegur við annað fólk. Fyrsta kona hans Patricia Neal uppnefndi hann Roald the Rotten.

En Roald Dahl tókst þrátt fyrir allt að skrifa nokkrar nokkrar stórkostlegar bækur sem enn í dag teljast til þess besta í barnaheimsbókmenntunum. Útgefandi hans í tuttugu ár var Alfred A. Knopf í New York og nánasti samstarfsmaður hans þar var Robert Gottlieb sem skrifaði um samstarf þeirra í æviminningum sínum:

„Hegðun hans gagnvart samstarfsfólki mínu á forlaginu var bæði svo frekjuleg og dónaleg að enginn vildi vinna með honum og í raun og veru var heldur enginn á forlaginu nógu góður fyrir hann. Eftir því sem árin liðu varð hegðun hans sífellt ruddalegri og ófyrirsjáanlegri. Hann kom fram við ritara forlagsins sem þjóna sína, hann tók æðisköst bæði á skrifstofunni og í sendibréfum sínum og þegar Bob Bernstein (gyðingur), forstjóri forlagsins, varð ekki við fáránlegum og ögrandi launakröfum hans kom svæsin gyðingaandúðin fram í reiðilegu svarbréfi hans.“

Dropinn sem fyllti mælinn, þótt ótrúlegt megi virðast, var deila um blýanta. Árið 1980 sendi Roald Dahl bréf til Roberts Gottlieb til að tilkynna honum að hann væri að verða uppiskroppa með alla blýantana sína (Dixon Ticonderoga, 1388–2-5/10 Medium) og hvort hann hefði ekki einhvern á skrifstofunni sem væri nógu vaskur til að færa honum blýanta af þessari gerð. „Það væri fínt að fá sex pakka með tólf blýöntum.“

Gottlieb hélt að Roald væri að grínast og virti bón skáldsins að vettugi. En Roald gaf sig ekki og þremur mánuðum síðar skrifaði hann aftur og ítrekaði bón sína í nokkuð harðorðu bréfi. Í þetta sinn svaraði hægri hönd Gottlieb og sendi höfundinum blýanta, þó ekki af þeirri gerð sem skáldið hafði óskað. Roald brást æfur við sendingunni. Blýantarnir sem honum hefðu borist væru argasta rusl. Og hann lét kvartanir yfir sendingunni ekki nægja. Hann bætti við fleiri óskum og nýjum kröfum. Í kjölfarið kom svo annað bréf þar sem hann hótaði að flytja allt höfundarverkið frá útgáfunni og finna nýjan útgefanda. Robert Gottlieb greip boltann á lofti og svaraði:

Kæri Roald
Þetta bréf er ekki ætlað að svara sérstaklega síðustu bréfum þínum til mín og samstarfsmanna minna heldur er bréfið almenn viðbrögð við því sem við höfum mátt þola frá þinni hendi síðustu misserin.

Í stuttu máli – og eins laust við alla tilfinningasemi og mér er unnt – verð ég segja eftirfarandi: Frá því að þér fór að finnast að við Bob Bernstein sinntum ekki samningsbundnum skyldum okkar við þig hefur framkoma þín gagnvart okkur í sannleika sagt verið langt út fyrir öll velsæmismörk. Undanfarið hefur þú einnig látið þessa óhefluðu hegðun bitna á öðrum hér á skrifstofunni, fólki sem ekki hefur sömu möguleika og ég á að svara á móti. Um tíma reyndi ég að afsaka hegðun þína vegna þeirra líkamlegu þjáninga sem ég veit að hafa angrað þig. En nú hef ég áttað mig á því að líkamskvalirnar eru ekki ástæða fruntaskaparins; þú ætlar þér bara að halda áfram að reyna að ráðskast með okkar með frekju  og dónaskap.

Þú hefur hótað að yfirgefa Knopf-forlagið þegar núgildandi samningur rennur út. Okkur getur ekki staðið meira á sama. Okkur þykir leitt að leiðir okkar þurfa að skilja en það er einungis frá viðskiptalegu sjónarmiði. Sá efnahagslegi ávinningur er þó ekki nógu mikill til að við viljum halda áfram að umbera þessa óþolandi framkomu. Ég hef lagt mig fram um að vera þér góður ritstjóri en nú er nóg komið. Þér hefur tekist að eyðileggja alla gleði okkar við að gefa út bækurnar þínar.

Til að ekkert fari á milli mála þá gríp ég hótun þína á lofti og beini henni gegn þér sjálfum: Ef þú bætir ekki ráð þitt og ferð að haga þér eins og maður er algjörlega útilokað að við viljum halda áfram að gefa út bækur þínar. Þar að auki mun ég ekki – og ekkert okkar – svara bréfum frá þér sem við teljum orðuð á jafn ruddalegan hátt og þau bréf sem okkur hefur borist upp á síðkastið.

Með trega,
Robert Gottlieb

Eins og Wes Anderson hefur réttilega bent á: Bækur Roalds Dahl standa enn fyrir sínu og þessar fjórar stuttmyndir sem Wes Anderson hefur framleitt og eru nú sýndar á Netflix eru stórkostlegur vitnisburður um hæfileika þessar tveggja manna: Wes Anderson og Roalds Dahl.

Richard Ayoade, Rupert Friend og Ralph Fiennes í hlutverkum sínum í The Rat Catcher – MYND: Netflix

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru mikilvæg tekjulind fjölmiðla allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 starfar samkvæmt íslenskum …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …