Samfélagsmiðlar

Hvað kom fyrir Jordan Henderson?

„Hvers vegna sneri Jordan Henderson baki við fótboltanum í Sádi-Arabíu?“ spyr margt fótboltaáhugafólk. Snæbjörn Arngrímsson í Kaupmannahöfn skrifar um þennan kappa sem tók hagsmuni fjölskyldunnar fram yfir fúlgur fjár.

Jordan Henderson í búningi Liverpool - MYND: Liverpool FC

Fyrir skemmstu ákvað fyrrum fyrirliði knattspyrnufélagsins Liverpool, Jordan Henderson, að rífa í sundur gífurlega rausnarlegan samning sem hann skrifað undir sex mánuðum fyrr við sádi-arabíska fótboltaliðið Al-Ettifaq. Samningurinn hefði tryggt Henderson 122 milljónir ÍKR í vikulaun í þrjú ár. Í staðinn undirritaði hann nýjan samning við hollenska liðið Ajax þar sem honum bauðst sjöfalt lægri laun en olíufurstarnir höfðu greitt honum. „Þetta var ekki auðveld ákvörðun,“ sagði Henderson í opinberri yfirlýsingu. „Ég geri það sem ég tel best fyrir mig og fjölskyldu mína.“

Hvað gerðist eiginlega? spyrja margir. „Hvers vegna sneri Jordan Henderson baki við fótboltanum í Sádi-Arabíu?“ 

Það kom satt að segja mörgum á óvart að einmitt Jordan Henderson skyldi láta freistast af gylliboðum frá olíufurstum með lífssýn sem mörgum þykir ekki fögur. Í hugum fólks var hann réttsýni Sunderland-drengurinn sem hafði með dugnaði sínum og samviskusemi tekist að vinna sig upp úr unglingaakademíu Sunderland-liðsins til að verða fyrirliði stórliðsins Liverpool.

Í lok ársins 2020 brást Jordan Henderson, þáverandi leikmaður Liverpool, við færslu ungs manns á Twitter sem sagði að fótboltafélag hans hefði hjálpað honum að horfast í augu við kynhneigð  sína þegar hann kom úr skápnum 17 ára gamall og það væri honum mikill uppörvuna að fyrirliði Liverpool bæri regnbogalitað fyrirliðaband til stuðnings LGBTQ+ hreyfingunni. Jordan Henderson tók þessari færslu opnum örmum og svaraði að ef það hjálpaði bara einum einstaklingi að hann bæri regnbogafyrirliðaband þá væri það nóg til að réttlæta armbandið og mikið framfaraskref. „Allir eru velkomnir hjá Liverpool, You Never Walk Alone,“ sagði hann í lok færslunnar. LGBT-stuðningshópur Liverpool fagnaði  þessari yfirlýsingu fyrirliðans og hyllti mjög afstöðu hans.

En í júlí 2023 vakti Jordan Henderson hins vegar gífurlega reiði þessa sama hóps þegar hann gekk til liðs við Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu. Thomas Hitzensberger, fyrrverandi þýskur landsliðsmaður í fótbolta, sem tilkynnti að hann væri samkynhneigður eftir að hann lauk knattspyrnuferlinum, var einn af þeim sem brást harkalega við þessum fréttum um liðaskipti Hendersons: „Ég hélt að stuðningur Jordan Hendersons við LGBTQ-hreyfinguna væri ekta og heilshugar. Þvílík heimska.“

Sjaldan hefur einn leikmaður mátt þola jafnmikla fordæmingu fyrir liðsskipti og Jordan Henderson. Samfélagsmiðlar loguðu og íþróttafréttamenn undruðu sig mjög á ákvörðun Liverpool-fyrirliðans og skrifuðu langar greinar þar sem þeir furðuðu sig á ákvörðun Jordan Henderson. Reiði LGBTQ-hreyfingarinnar var skiljanleg í ljósi þess að samkynhneigð er með öllu ólögleg í Sádi-Arabíu og dauðarefsing varðar brot á þeim lögum. Sádi-Arabía er ekki það land þar réttindi kvenna og samkynhneigðra eru í hávegum höfð og telja margir að nýfenginn áhugi landsins á fótbolta sé svokallað „sport-washing“ – það er þegar íþróttir eru notaðar til að beina athygli frá ósiðlegum athöfnum stjórnvalda. 

„Ætlar Jordan Henderson að taka fjölskyldu sína, tvær dætur og einn son, til Sádi-Arabíu og ala þau upp í samfélagi sem ber enga virðingu fyrir réttindum kvenna og samkynhneigðra?“ spurðu blaðamenn undrandi.

Jordan Henderson svaraði síðar í viðtali við The Atlantic: „Ég skil vel reiði fólks. Ég skil hana algjörlega. Ég er leiður yfir því að fólki líður á þennan hátt og bregst svona við. Það var ekki ætlun mín að særa neinn. Ég hef alltaf haft það að markmiði að styðja við fólk og samfélög þar ég hef verið beðinn um aðstoð.“

Í sumarlok ársins 2023 hafði Liverpool-fyrirliðinn pakkað búslóðinni, sent hana af stað til Sádi-Arabíu og í kjölfarið flogið á fyrsta farrými á vit Arabíuævintýris með fjölskyldu sinni. En Henderson hafði ekki spilað marga leiki fyrir Al-Ettifaq þegar efasemdir fóru að sækja á hann. Strax í október 2023 voru blikur á lofti. Þótt Henderson hefði gert sitt til að reyna að tryggja vellíðan fjölskyldu sinnar meðal annars með því að setjast að í Manama, höfuðborg nágrannaríkisins Bahrain sem er í 75 mínútna akstursfjarlægð frá æfingasvæði Al Ettifaq, var augljóst að ekki var allt með felldu. En til að þagga niður í efasemdaröddum lét hann hafa opinberlega á eftir sér að hann „sæi ekki eftir neinu“.

Mánuði síðar eða í landsliðshléinu í nóvember var augljóst að hann hafði fengið nóg og var að því kominn að gefast upp. Skynjuðu margir í kringum hann og fjölskyldu hans að tilveran var ekki auðveld fyrir knattspyrnumanninn. Honum fundust leikgæðin í sádi-arabísku deildinni langtum minni en hann hafði búist við, álagið var allt of mikið þar sem leikið var þriðja hvern dag, æfingaaðstaða Al-Ettifaq-félagsins var ekki nógu góð og langt fyrir neðan þann standard sem hann var vanur, áhorfendurnir á leikjunum voru neyðarlega fáir, yfirleitt bara nokkur hundruð, hitinn í landinu var yfirþyrmandi og það sem vó þyngst: Fjölskyldan hafði það ekki gott.

Jordan Henderson hafði sagt í viðtali við The Atlantic rétt eftir að hann skrifaði undir samninginn við Al-Ettifaq að hann langaði mjög til að leggja sitt af mörkum til að styðja við þróunina á „einni af bestu knattspyrnudeild heimsins.“ Í ljós kom að þessi sterka löngun dugði til að halda Henderson í sex mánuði í Arabíuríkinu. Ímynd og trúverðuleiki knattspyrnuhetjunnar hefur beðið hnekki en nú er hann og fjölskyldan komin til Amsterdam og fregnir herma að öllum sé létt.

Nýtt efni

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …