Samfélagsmiðlar

Margt skrítið við heitasta ár sögunnar

Á síðasta ári gerðist það í fyrsta skipti að hver einasti dagur var einni gráðu heitari en meðalhiti sama tíma frá því fyrir iðnbyltingu. Vísindasamfélagið á eftir að melta og rannsaka frekar alla þá krafta sem þarna voru að verki. Guðmundur Steingrímsson gerir upp hitaárið 2023.

„Hraðinn og ákafinn í hitaaukningunni kemur vísindasamfélaginu á óvart" - MYND: Pexels-Pixabay

Vísindasamfélagið sá það ekki beinlínis fyrir að árið 2023 yrði svo heitt sem raun ber vitni. 

Loftslagsstofnun Evrópusambandsins, Kóperníkus, hefur nú staðfest að árið 2023 var heitasta ár sögunnar, og líklega það heitasta í yfir hundrað þúsund ár.  Meðalhiti var 1,48 gráðum yfir meðalhita frá því fyrir iðnbyltingu. 

Margt forvitnilegt er að finna í samantekt sem Kóperníkus hefur nú gefið út af þessu tilefni. Meðal annars er þar farið yfir það hvort vísindamenn hafi séð þetta fyrir. Sambland gróðurhúsaáhrifa af manna völdum og veðurfyrirbrigðisins El Niño, gerðu það að verkum að flestir töldu jú að árið yrði hlýtt. Hins vegar gáfu gögn frá veðurathugunarstöðum það ekki til kynna í lok árs 2022 að næsta ár yrði svo rosalega heitt eins og raun bar vitni. 

Hitaaukningin sem varð á milli áranna 2022 og 2023 var í litlu samræmi við reynslu fyrri ára og mælingar. Aldrei áður hefur mælst svo mikil breyting á hita milli ára. Þetta er merkilegt staðreynd í ljósi þess að síðustu ár hafa verið þau hlýjustu síðan mælingar hófust. Ástæður hitamunarins voru því ekki þær að árið 2022 hafi verið óvenju kalt. Ástæðan liggur í því að árið 2023 var frámunalega heitt. Veröldin fór úr miklum hita í mun meiri hita. 

Alþjóðaveðurfræðistofnunin gaf það út árið 2022 að það væru þá 48 prósenta líkur á því að eitthvert ár, til 2026, myndi fara yfir einnar og hálfrar gráðu markið. Á síðasta ári uppfærði stofnunin þessa spá og taldi 66 prósenta líkur á að eitthvert ár, til 2027, færi yfir þetta mark.  Og nú gerðist það semsagt strax á fyrsta ári þessara spádóma að hækkunin fór nánast yfir þennan þröskuld. 

Hraðinn og ákafinn í hitaaukningunni kemur vísindasamfélaginu á óvart. Á síðasta ári gerðist það í fyrsta skipti að hver einasti dagur var einni gráðu heitari en meðalhiti sama tíma frá því fyrir iðnbyltingu.  Um helmingur daganna var einni og hálfru gráðu heitari og á tveimur dögum í nóvember gerðist það í fyrsta skipti að hitinn var tveimur gráðum hærri. Það glittir því í tveggja gráðu þröskuld Parísarsamningsins. 

Meðalhiti sjávar fór í 21,02 gráðu á Celcius þann 24. ágúst, sem er nýtt met. Það er óvenjulegt, því yfirleitt er meðalhiti sjávar hæstur í mars, fer svo dvínandi og hækkar lítillega í júlí og ágúst. Á síðasta ári hækkaði hitinn í mars, lækkaði svo lítið og hækkaði ennþá meira í júlí og ágúst. Hvern einasta dag í ágúst var sjórinn hlýrri en fyrra hitamet, sem var sett í mars 2016. 

Ljóst er að veðurfyrirbrigið El Niño, sem lætur reglulega að sér kveða, hafði áhrif til hlýnunar á síðasata ári, auk gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. En hver áhrif El Niño voru eru þó um margt óljóst. 

Vanalega þegar El Niño lætur að sér kveða er hitahækkuninn meiri í veröldinni á síðari mánuðum veðurfyrirbrigðsins, en það er að renna upp núna — ef allar hefðir standast — og El Niño mun væntanlega fara dvínandi fram á mitt ár. Á síðasti ári hins vegar, var El Niño vaxandi og hefði því ekki miðað við fyrri El Niño átt að skapa svona mikinn hita á þessum mánuðum. Þar að auki er þessi El Niño ekki jafnsterkur og síðustu tveir bræður hans, sem komu árin 1997-98 og 2015-16. 

Frá Saint-Malo á Bretagne. Strandstaðir við Ermarsund verða stöðugt vinsælli í hlýnandi loftslagi – MYND: ÓJ

Aðrar vísbendingar um að El Niño sé ekki endilega aðaláhrifavaldurinn í þessari hitaaukningu þykir felast í því, samkvæmt skýrslu Kóperníkusar, að meðalhiti yfir landi var mun hærra á síðasta ári en yfir hafi, en El Niño er tengdur hafi. Einnig þykir grunsamlegt að hitastig hafsins var hátt svo til alls staðar á hnettinum. El Niño er hins vegar staðbundið fyrirbrigði, með rætur í Kyrrahafi, og þótt áhrifa gæti víða er varla hægt að kenna honum um slíkar hitatölur í hafi á heimsvísu og yfir landi nánast alls staðar. 

Vísindasamfélagið á eftir að melta þetta og rannsaka frekar. Sá sem einna fyrstur varaði við gróðurhúsaáhrifunum fyrir Bandaríkjaþingi árið 1988, loftslagsvísindamaðurinn James Hansen, er einn af þeim sem hugsar ákaft þessa dagana og rýnir í tölur. Á dögunum birti hann hugleiðingar sínar ásamt kollegum. 

Hansen telur að vísindasamfélagið, þar á meðal Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sé stórkostlega að vanmeta þá miklu hitaaukningu sem framundan er. Veröldin muni bruna yfir einnar og hálfru gráðu þröskuldinn á núll einni, og fara þráðbeint yfir tveggja gráðu markið um og uppúr 2030. 

Hansen segir að nú séu í raun hafin háskaleg víxlverkunaráhrif á Jörðu. Ís hefur bráðnað í stórum stíl, þar á meðal á Suðurskautinu. Þetta gerir það að verkum að plánetan sem við búum á endurkastar ekki sólargeislum í jafnmiklum mæli og áður. Hitinn verður eftir. Þessi áhrif, segir Hansen, jafngilda því að magn koltvísýrings í andrúmslofti hafi allt í einu hækkað um 25%. 

Það myndi jafngilda því að fara úr öskunni í eldinn.  Þess ber að geta að þónokkuð margir vísindamenn eru ósammála þessu mati Hansens

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …