Samfélagsmiðlar

„Þetta sýnir breiddina í ferðaþjónustunni um allt land“

Ferðakaupstefnan Mannamót er nú haldin í tíunda sinn og hefur þátttaka fyrirtækja og gesta aldrei verið meiri. „Ferðaþjónustan var lengi að berjast við að koma sér í gang eftir Covid. Nú erum við sannarlega farin af stað. Þetta er góður dagur," segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri.

Arnheiður Jóhannsdóttir á Mannamóti - MYND: ÓJ

Það sést um leið og gengið er inn í íþróttamiðstöðina Kórinn í Kópavogi að virkir þáttakendur á Mannamóti eru fleiri en í fyrra, það er meira líf í salnum og jafnvel bjartara yfir fólki. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, er í forsvari fyrir þennan árlega stórviðburð ferðaþjónustufólks af öllu landinu sem markaðsstofurnar halda og gagnast bæði fyrirtækjum úti á landi og þeim í Reykjavík sem ævinlega eru að leita nýrra möguleika í þjónustu við viðskiptavini. Um 250 fyrirtæki sýna og fulltrúar þeirra eru um 500. Hátt í 600 gestir eru skráðir og síðan drífur alltaf að fleira forvitið fólk um gróskuna í íslenskri ferðaþjónustu.

Rétt fyrir opnun – MYND: ÓJ

„Grasrótin kemur suður og fyrirtækin geta með einföldum hætti kynnt sér vöruframboð um allt land. Þetta þýðir að fleiri nýjungar verða til í þjónustu þeirra. Ferðamenn okkar verða ánægðari fyrir vikið. Þessi ferðakaupstefna er öðruvísi en aðrar að því leyti að hér má kynnast glænýjum litlum grasrótarverkefnum innan um þau grónu og stóru,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, og bætir við:

„Það er meiri nýliðun en áður í ferðaþjónustunni, ný fyrirtæki eru að spretta upp og nýtt fólk hefur tekið til starfa með margskonar spennandi verkefni og gaman er að sjá þau slíta barnsskónum.“

Greinir þú einhverjar nýjar áherslur?

„Það er unnið meira úr því sem fyrir er, dýpka þjónustuna. Við sjáum aukna áherslu á menningarverkefni. Menningin er að sækja meira fram sem hluti af ferðaþjónustunni, sem gaman er að sjá.“

Tveir að austan: Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Bogi Nils Bogason – MYND: ÓJ

Meðal lykilhugtaka í umræðu dagsins eru sjálfbærni og nærandi ferðaþjónusta. Sérðu þetta raungerast – að fólk í greininni sé með hugann við þetta?

„Við höfum alltaf litið á sjálfbærni sem kjarna ferðaþjónustunnar. Sjálfbærni er innbyggð í starfsemi margra fyrirtækja – þegar kemur að því að kaupa matvæli og aðrar vörur úr heimabyggð eða nýta vinnuafl þar, byggja á grunni sem heimamenn hafa lagt. Þetta hefur alltaf verið sýnilegt og er enn. Það sem vantar er að við drögum þetta meira fram og seljum þetta. Það er verkefni okkar á næstu árum.“

Á Vestfjarða-ganginum – MYND: ÓJ

Þetta eru ótrúlega mörg fyrirtæki – stór og smá. Nokkur eru með umsvifamikinn rekstur en svo eru hér margar fjölskyldur sem eru að spreyta sig í þjónustu við ferðafólk eða vill selja því varning.

„Þetta sýnir breiddina í ferðaþjónustunni um allt land. Fyrirtækin verða aldrei of mörg. Þetta er viðbragðið við þeirri miklu spurn sem er eftir Íslandi núna. Hér inni sjáum við það raungerast – hversu mörg þau eru og hvernig þau hafa stækkað. Þau eru að laga sig að því markmiði að geta tekið á móti fleiri gestum án þess að fjárfesta mikið meira og auka mannskap.“

Sannkallað Mannamót – MYNDIR: ÓJ

Þið hafið áður upplifað bakslag í baráttu ykkar á landsbyggðinni fyrir því að fá meira beint alþjóðaflug. En nú þið fagnið komu Easyjet til Akureyrar og beinu flugi milli Norðurlands og Bretlands. Sjáið þið merki um meiri grósku í greininni vegna þessa beina flugs?

„Já, við sjáum skýr merki um það. Erlendum gestum fjölgar hægt og bítandi fyrir norðan vegna komu Easyjet. Sætanýtingin batnar stöðugt. Fyrirtækin finna fyrir þessu og hafa getað lengt afgreiðslutíma. Við sjáum líka meira af því að fyrirtæki taki sig saman og þrói verkefni sem beint er að þessum farþegahópi. Í gær var lokaviðburður verkefnis sem við köllum Straumhvörf, þar sem nokkrir aðilar á Norður- og Austurlandi kynntu vöruþróunarverkefni sem unnin hafa verið í samstarfi þeirra sem vilja njóta áhrifa flugsins.

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …