Samfélagsmiðlar

Þróun stærstu bókamarkaða heims

Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir, Rebecca Yarros og Colleen Hoover eru meðal þeirra sem halda uppi bóksölunni.

Á fyrstu dögum nýs árs var haft eftir Bryndísi Loftsdóttur, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bókaútgefenda, í fjölmiðlum að bóksala hefði gengið vel á Íslandi árið 2023. Taldi hún að bóksala hafi aukist um 1-2 prósent frá árinu á undan. Hingað til hefur verið algjör skortur á tölfræðigögnum um sölu bóka á Íslandi og því er kannski erfitt fyrir að segja nákvæmlega til um þróun bókamarkaðarins á Íslandi á síðasta ári. En af orðum framkvæmdastjórans má ætla að þeir sem komi nálægt bóksölu á Íslandi skynji örlítinn framgang.

Síðustu árin hefur bókasala í Evrópu og Bandaríkjunum sveiflast mjög. Margskonar utanaðkomandi áhrifavaldar hafa orðið til þess að sala á bókum gengur í miklum sveiflum um þessar mundir. Covid-faraldurinn jók bóksölu umtalsvert en óttinn við efnahagskreppu, áhrif  stríðsins í Úkraínu og verðbólgan sem geisar víða um heim hefur hins vegar dregið úr sölunni.  

Á síðasta ári voru flestir innan bókageirans neyddir til að takast á við aukinn rekstrar- og framleiðslukostnað. Prentverð hækkaði, pappírsverð hækkaði, dreifingarkostnaður bóka hækkaði,  launakostnaður hækkaði og hafa þessi auknu útgjöld endurspeglast í hærra bókaverði víða um heim.

Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Nielsen Book Scan hækkuðu sölutekjur í Bretlandi vegna bóka árið 2023. Heildarvelta bókabransans var 1,83 milljarðar punda, eða um það bil 320 milljarðar íslenskra króna, sem er hækkun um 1,3 prósent frá árinu áður. Aldrei fyrr hafa tekjur af bóksölu verið svo háar. Þessi hækkun á sér hins vegar augljósar skýringar: Verðhækkanir. Meðalverð bóka hækkaði um 5,7 prósent í Bretlandi frá árinu á undan. Þótt tekjur hefðu aukist seldust samt færri bækur. 5 prósentum færri prentaðar bækur seldust árið 2023 en árið 2022. 

Þessi sama þróun er greinileg í öðrum Evrópulöndum. Í heildina hækkuðu tekjur af sölu bóka í Þýskalandi um  4,9 prósent – en seldum bókum fækkaði um 1,9 prósent. Karin Schmidt-Friedrich, framkvæmdastjóri bóksalasamtakanna í landinu, bendir þó á að miklar breytingar hafa orðið á hegðun neytenda í Þýskalandi. Fólk heldur mun fastar um budduna en áður og kemur það greinilega mest niður á menningarneyslu og bókakaupum þar sem litið er á bækur sem lúxusvarning. Einnig fækkar þeim sem leggja leið sína niður í bæ til að fara í verslunarleiðangur. Færri viðskiptavinir koma inn í bókabúðirnar þar sem bókaviðskipti færast í auknum mæli yfir á netið. Bókabúðir hafa hingað til leikið lykilhlutverk í að kynna kaupendum fyrir áður óþekktum höfundum og nýjum bókum. Hefur fagfólk innan bókageirans töluverðar áhyggjur af þessari nýju þróun og þeim vondu áhrifum sem netsalan hefur á menningarlegan fjölbreytileika. 

Sömu sögu er að segja um bandaríska markaðinn og þann evrópska. Færri titlar seljast en áður. Á miðju ári óttuðust bandarískir bóksalar og bókaútgefendur að árið 2023 yrði hræðilegt bóksöluár þar sem mjög hafði dregið úr sölu. En á þriðja ársfjórðungi tók bóksalan mikinn kipp og bjargaði það árinu gersamlega. Samkvæmt mælingu  bandaríska greinarmiðilsins Circana Book Scans, minnkaði sala prentaðra bóka í heildina um 2,6 prósent árið 2023. Tímaritið Publishers Weekly bendir þó á að 1 prósent fleiri skáldsögur seldust í Bandaríkjunum í ár en árið á undan og er skáldkonunum Colleen Hoover og Rebeccu Yarros þakkaður sá framgangur. Sala á bókum þeirra eykst ár frá ári. 

Á Íslandi voru það fyrst of fremst glæpasögurnar sem héldu uppi bóksölu ársins. Fimm af tuttugu söluhæstu bókum ársins voru glæpasögur: Sæluríki, Arnalds Indriðasonar. Frýs í æðum blóð eftir Yrsu Sigurðardóttur, Hvítalogn eftir Ragnar Jónasson,  Borg hinna dauðu eftir Stefán Mána og Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …