Samfélagsmiðlar

Vandaðir áfengislausir valkostir og ekkert vesen

Sólrún María Reginsdóttir hefur rekið Tefélagið frá árinu 2019 og átt stóran þátt í að lyfta temenningu landans á áhugaverðara plan. Fyrir nokkrum árum smakkaði hún svo drykk sem átti eftir að opna nýja möguleika. Til varð dótturfélagið Akkúrat, sem sérhæfir sig í vönduðum áfengislausum drykkjum.

Með nýjum vönduðum 0% drykkjum þarf stemningin ekki að líða fyrir áfengisleysið, nema síður sé - MYND: Akkúrat

„Ég kem úr fjölskyldu þar sem enginn drekkur áfengi, fyrir utan pabba sem fær sér örsjaldan rauðvínsglas. Mamma hefur aldrei drukkið áfengi og af henni lærðum við að velja áfengislausan lífstíl. Sjálf drekk ég hvorki gosdrykki né djúsa, bara vatn og í seinni tíð áfengislausa drykki. Það voru tengdaforeldrar mínir sem færðu okkur einu sinni flösku af Copenhagen Sparkling Tea sem þau keyptu á Kastrup. Þarna var ég komin með þessa fallegu flösku í hendurnar, umbúðir og innihald með vönduðu handbragði og tappinn meira að segja poppaði. Fyrir mér var þetta hinn fullkomni drykkur, nákvæmlega það sem ég vissi ekki að mig hafði alltaf vantað,“ segir Sólrún María og bætir við:

„Við þekkjum flest þennan öryggisventil að halda á glasi í einhverskonar mannfögnuðum og í öllum brúðkaupum og viðburðum sem ég hafði verið í var mér alltaf boðið sódavatn. Þá kannski ósjálfrátt upplifir maður sig á ákveðinn hátt utan við fögnuðinn og að það fylgi því alltaf einhverjar sérþarfir og smá vesen að drekka ekki áfengi. Upp úr þessu áttaði ég mig á því að auðvitað erum við ekki eina fjölskyldan sem drekkur ekki áfengi og í kjölfarið flutti ég inn eina pallettu af Copenhagen Sparkling Tea, bara til að prófa. Það var í nóvember 2017 og hún var bókstaflega rifin út, svo mikil var eftirspurnin. Ég pantaði aðrar þrjár fyrir jól og sagan endurtók sig. Í kjölfarið fór ég að skoða markaðinn út frá þessum gríðarlega góðu móttökum og skaut á að hlutfall þeirra sem drekka ekki áfengi væri um það bil 15-20 prósent. Eftir að hafa svo skoðað gögn frá öllum heimshornum komst ég að því að hlutfallið reyndist vera hærra eða um það bil 30 prósent.  Út frá þessu ákveð ég að fara í þessa vegferð með Akkúrat,“ útskýrir Sólrún.

„Fyrir mér var þetta hinn fullkomni drykkur“ – MYND: Akkúrat

Verandi mikill aðdáandi vel ígrundaðra langtímamarkmiða segist Sólrún vera lítið fyrir stórtækar og snöggar lífstílsbreytingar í janúarbyrjun eins og stundum verða ríkjandi á þessum árstíma. Hún segir Akkúrat vera þessa dagana að sigla rólega inn í „Dry January“ sem nokkurs konar upphitun fyrir „Edrúar“ í febrúarmánuði. Báðir viðburðir hafa sótt í sig veðrið á alþjóðavettvangi undanfarin ár en tilgangurinn er að skapa umræður um áfengisneyslu, hvetja fólk til að skoða samband sitt við áfengi og prófa að sleppa því að neyta áfengis þann mánuðinn.

„Það er búið að vera frábært að sjá hvað þessi vitundarvakning verður umfangsmeiri ár frá ári. Að þessu sinni er boðskapurinn okkar svolítið að prófa úrvalið af áfengislausum drykkjum og velja þá á þeim stundum sem þú hefðir alla jafna fengið þér áfengan drykk. Staldra svo aðeins við og finna hvernig þér líður með það þá stundina, í lok dagsins og jafnvel daginn eftir. Á tímum þar sem fólk gerir ýmislegt til að stuðla að góðri andlegri og líkamlegri heilsu þá er þetta svo sannarlega þáttur sem vert er að skoða.“

Þurr janúar er upphitun fyrir þurran febrúar – MYND: Akkúrat

„Markmiðið með Akkúrat og sú framtíðarsýn sem ég hef er að markaðurinn þróist á þann hátt að alls staðar þar sem áfengi er í boði, þar er líka boðið upp á áfengislausa drykki. Þá er ég ekki að tala um gosdrykki því það er himinn og haf á milli hefðbundinna gosdrykkja og vandaðra, áfengislausra drykkja. Ég fylgist mjög vel með markaðnum og bæði vel ég áhugaverða framleiðendur með góðar vörur en svo hefur líka verið haft samband við okkur af þeim sem vilja koma í samstarf svo það er allur gangur á því. Gott bragð og gott handbragð er lykilatriðið fyrir mér og helst vil ég að sem minnstu sé bætt við drykkina, s.s. sykri, og vel lífræna kosti þar sem því verður við komið. Þarna er nefnilega komin ákveðin menning og metnaður í framleiðslu, líkt og hjá þeim sem framleiða áfenga drykki.

Ég vil að báðum hópum, þeim sem drekka og þeim sem drekka ekki, sé gert jafn hátt undir höfði. Að veitingastaðir og barir séu með drykkjarseðlana þannig að þú getur til dæmis fengið þér rauðvín eða góðan kokteil, með eða án áfengis. Einfalt mál. Ég vil leggja mitt af mörkum til að auka aðgengi að þessum valkostum og forvarnaþátturinn, um að fólk geti bara valið að drekka ekki áfengi án þess að það þýði einhverskonar auka fyrirhöfn, þykir mér líka áhugaverður. Með því að bjóða úrval af áfengislausum drykkjum ertu að lýsa því yfir að allir gestirnir þínir séu jafn mikilvægir og á sama tíma jafnvel aðstoða þau sem eiga erfitt með að halda sig réttu megin við línuna. Þar sem við höfum verið fengin til að sjá um drykkjarföngin á viðburðum hefur okkar reynsla undantekningarlaust verið sú að fólk velur frekar áfengislausu drykkina fram yfir þá áfengu. Og það er mjög ánægt. Við þurfum líka að skoða hvaða skilaboð það að bjóða upp á áfengi sendir út í samfélagið.

Við vorum með flottan viðburð fyrir bílaumboð sem var að frumsýna nýjan bíl. Allir eru með það á hreinu að það á ekki að keyra eftir að hafa neytt áfengis en á viðburðum eins og þessum er nær undantekningarlaust áfengi á boðstólum. Þarna var hins vegar allt áfengislaust, þetta var sparilegur og skemmtilegur viðburður og svo keyrðu allir heim.“

Sólrún María Reginsdóttir – MYND: Akkúrat

Sólrún segir að heilt yfir hafi viðtökur verslunarfólks og veitingastaða við áfengislausum kostum verið mjög góðar, enda hafi það sýnt sig að fólk er tvímælalaust tilbúið að borga meira fyrir góða áfengislausa kokteila heldur en kók í stóru bjórglasi sem það lætur jafnvel endast út kvöldið. Hins vegar þyki henni viðbrögð ÁTVR nokkuð sérstök en þegar hún falaðist eftir að selja áfengislausa drykki í Vínbúðum var því hafnað og í kjölfarið hættu þær alfarið að bjóða upp á áfengislausa kosti í sínum verslunum.

„Þarna er ÁTVR að mínu mati að bregðast samfélagslegri ábyrgð sinni. Eitt af hlutverkum þess er að reyna að minnka skaðsemi áfengra drykkja og mér finnst þau ekki vera að gera það með þessum hætti. Mín reynsla er sú að einmitt með því að hafa áfengislausa kosti í boði með þeim áfengu ertu að gefa fólki meira val. Það getur jafnvel valið að kaupa tvær hvítvínsflöskur, aðra með áfengi en hina áfengislausa. Ég hef bara átt í góðum samskiptum við Vínbúðina en mér finnst þessi hugsunarháttur illa rökstuddur og á skjön við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur, til dæmis í Svíþjóð og Noregi. Í Svíþjóð er til að mynda 17% aukning milli ára í sölu áfengislausra drykkja í áfengisverslunum.“

Nýverið flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar þar sem Sólrún er byrjuð að þreifa fyrir sér með Akkúrat á dönskum markaði. Hún segir viðhorfin þar í landi minna sig svolítið á hugarfarið hér heima fyrir um áratug síðan og að margir Danir trúi því einfaldlega ekki að það sé til fólk sem velji að drekka ekki áfengi.

„Staðreyndin er auðvitað sú að hér eins og alls staðar annars staðar er bæði fólk sem getur ekki drukkið áfengi og fólk sem kýs að drekka ekki áfengi. Ef veitingastaðir og barir bjóða enga alvöru valkosti fyrir þennan hóp þá er þessi hópur ekki sýnilegur. Það skiptir höfuðmáli að setja áfengislausa drykki á drykkjarseðilinn, þá kemur eftirspurnin. Eitt af því sem fólk sem drekkur ekki áfengi er þreytt á er að þurfa alltaf að biðja sérstaklega um 0% drykki því seðillinn er bara með áfengi. Staðan er bara þannig hér að margt veitingafólk trúir því í einlægni að það drekki allir. En ég kýs að líta á þetta sem ákveðna áskorun. Hér eru heilmikil tækifæri,“ segir Sólrún Reginsdóttir, framkvæmdastjóri Akkúrat að lokum.

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …