Samfélagsmiðlar

Vantar vatn í Panamaskurðinn

Gríðarlegir þurrkar sem hófust á liðnu ári, og útlit er fyrir að vari áfram, hafa gert það að verkum að yfirvöld í Panama hafa þurft að draga úr ferðum skipa um Panamaskurðinn um nærri 40 prósent. Einstaklega miklir þurrkar hafa ríkt víða um heim síðustu mánuði, ekki síst í Mið- og Suður-Ameríku. 

Panamaskurðurinn - MYND: Pexels/Michael D Camphin

Panamaskurðurinn er ákaflega mikilvægur fyrir alla verslun á heimsvísu. Ef hans nýtur ekki við þurfa vörurnar að fara landleiðina á milli Kyrrahafs og Atlantshafs, eða skipin að sigla alla leið fyrir syðsta tanga Suður-Ameríku, sem lengir leiðina og flutningskostnað umtalsvert. Það tekur líka lengri tíma að sigla t.d. frá Kína til austurstrandar Bandaríkjanna í gegnum Súesskurðinn heldur en að fara Panamaskurðinn. 

Það bætir ekki úr skák að skipaflutningar í gegnum Súesskurðinn eru heldur ekki dans á rósum um þessar mundir, en árásir Húta á alþjóðleg vöruflutningaskip á Rauðahafinu hafa gert mikinn usla. 

Það eru því erfiðir tímar í alþjóðlegum vöruflutningum. Skipafélagið Maersk tilkynnti fyrir nokkrum dögum að notast yrði við landleiðina um Panama. Skipum yrði siglt í höfn að vestanverðu, þar yrðu gámar settir á vörubílapalla og þeir keyrðir til austurstrandarinnar um borð í skip þar.

Tekjumissir skurðyfirvalda í Panama er nú kominn hátt í hundrað milljarða króna vegna þurrkanna sem hafa geisað allt frá miðju síðasta ári, þegar El Nino fór að gera vart við sig. Áhrifa þessa Kyrrahafsveðurfyrirbrigðis til hitunar mun áfram gæta fram á mitt þetta ár hið minnsta. 

En hvers vegna þarf vatn í Panamaskurðinn? Jú, skurðurinn er verkfræðilegt afrek. Með notkun ferskvatns er skipum í raun lyft í sérstökum skipahólfum, frá haffleti og uppí skurðinn á nokkrum stöðum — alveg upp í 26 metra hæð yfir sjávarmál smám saman — og síðan eru þau lækkuð aftur niður í nokkrum þrepum á leið til hafs aftur.  

Það krefst um 190 milljón lítra af ferskvatni að lyfta einu skipi í einu hólfi. Nýrri hólfin eru reyndar þannig úr garði gerð að þau endurnýta um 60 prósent af vatninu, en í gömlu hólfunum er það ekki mögulegt. 

Og nú vantar sem sagt vatn til að lyfta skipum. 

Þessi veruleiki er hluti af mun stærri áskorun. Þurrkar eru að verða vaxandi vandamál á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga. 

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …