Samfélagsmiðlar

Vínbændur í Bordeaux svara kalli tímans

Coralie de Boüard er í hópi vínbænda í Bordeaux sem ákvað að bregðast við kröfum samtímans og framleiða bragðgóðan þrúgusafa án vínanda. Stöðugt fleira yngra fólk tekur óáfenga drykki fram yfir áfenga. Gæði óáfenga vínsins fara vaxandi af því að meiri metnaður er lagður í framleiðslu þess.

Coralie de Boüard úti á akrinum - MYND: Château Clos de Boüard/Bonnaud Guillaume

Vínbúgarðurinn Château Clos de Boüard er í Montagne-Saint-Émilion í Bordeaux, þekktasta vínhéraði heims. Framleiðsla héraðsins er eftirsótt, allir sem kunna á annað borð að meta gott vín vilja gjarnan lyfta glasi af Bordeaux af og til. En hinum fjölgar meira sem kæra sig ekki um vínandann í flöskunni. Coralie De Boüard stýrir vínbúgarði fjölskyldunnar farsællega og hefur ekki síst vakið athygli fyrir framleiðslu á óáfengu gæðavíni. Hún er í vaxandi hópi vínbænda í Bordeaux sem framleiða vín með mjög litlu eða engu alkóhólmagni. 

„Við verðum að fylgja straumi tímans – Bordeaux verður að aðlagast. Ég vil frekar stýra lestinni en sitja bakatil í einum vagnanna,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Coralie De Boüard. Nú í ársbyrjun láta fleiri en venjulega það vera að drekka áfengi og eitt af því sem er í boði fyrir þá sem vilja samt fá keim af þrúgunum í Bordeaux er óáfenga rauðvínið Prince Oscar frá Château Clos de Boüard. Það er sagt hafa jarðarber og létthitaðar plómur í nefi. 

Hinn óáfengi Prince Oscar – MYND: Château Clos de Boüard

Gerjun og lögun á Prince Oscar er sú sama og við vinnslu hefðbundinna vína en síðan er alkóhólið fjarlægt í lofttæmi á 32 gráðu hita, sem er nógu kalt til að bragðgæði vínsins rjúki ekki í burtu. „Okkur hefur tekist að halda í eiginleika vínsins með því að bæta við samþjöppuðum berjasafanum (must),“ segir Coralie og vísar þar til þykknis úr hýði, steinum og sprotum sem falla til þegar safinn er kreistur úr berjunum.

Coralie De Boüard er stolt af Prince Oscar, sem hún segir að henti vanfærum konum og fólki sem getur eða má ekki drekka vín af læknisfræðilegum eða trúarlegum ástæðum – líka íþróttafólki. Hún hefur sérstaklega hug á að beina Prinsinum að ungum Frökkum. Á síðasta ári sagðist nærri einn af hverjum þremur Frökkum hafa drukkið óáfengan eða lítt áfengan bjór og vín. Nærri helmingur var undir 25 ára aldri. 

Fullvaxnar þrúgur í Bordeaux – MYND: Unsplash/Pierre Ducher

Þetta er skýr vísbending um hvað koma skal og víngerðarfólkið á Château Clos de Boüard ætlar að svara kalli tímans. Raunar segir Coralie að sá árangur að hafa tekist að selja 50 þúsund flöskur af óáfengu víni hafi verið björgunarhringurinn sem hélt búgarði hennar á floti á tímum þegar Bordeaux væri að takast á við minnkandi efdtirspurn og afleiðingar offramleiðslu. 

Margir telja að ómögulegt sé að óáfengt vín hafi sama eftirbragð og góð hefðbundin vín státa af. Víngerðarhúsið Château Edmus þarna í grenndinni sendi nú í mánuðinum frá sér fyrstu 1.200 flöskurnar af Zero by Edmus, alkóhóllausu Bordeaux-rauðvíni. „Því betra sem vínið er í grunninn því ljúffengara er það án alkóhóls,“ segir Laurent David, eigandi Edmus, sem telur að framtíðarmöguleikar óáfengs víns felist helst í því ef veitingahús bjóði upp á það í stökum glösum. 

Vínrækarsvæði í Bordeaux – MYND: Unsplash/Mathieu Odin

Philippe Cazaux, forstjóri samlags fjölskyldureknu víngerðarhúsanna í Bordeaux, segir að lækkun á áfengisinnihaldi vínsins sé eðlilegt viðbragð við kröfum vaxandi fjölda heilsumeðvitaðra neytenda. Samlagið fjárfesti í þessu skyni fyrir 2,5 milljónir evra í lofttæmibúnaði til að lækka áfengishlutfallið úr 12-14 prósentum í 0-9 prósent. Vonast er til að hálf milljón flaskna af þessu ofurlétta víni fari á markað á árinu. 

Þrátt fyrir að enn séu margir marineraðir smekkmenn á vín fullir efasemda um þessi nýju uppátæki – og telja fráleitt að óáfengt vín verði nokkru sinni jafn gott og áfengt – þá segjast talsmenn vínbænda í Bordeaux bjartsýnir á að þeim takist það „ómögulega“ – að búa til óáfengt gæðavín sem hýrgi dálítið engu að síður. 

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …