Samfélagsmiðlar

Biden stöðvar aukinn útflutning á gasi

Útflutningsstöð á gasi - MYND: Econnect

Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur ákveðið að setja allar fyriráætlanir um frekari útflutning á gasi frá Bandaríkjunum á ís. Ákvörðunin þykir bera vitni um þverrandi áhrif jarðefnaeldsneytisiðnaðar í Bandaríkjunum og að stjórnvöld — a.m.k. þau sem nú fara með völd — taki nú ríkara tillit til umhverfismála og loftslagsáhrifa í ákvörðunum sínum. 

Ákvörðun Bidens snýr að nýjum leyfum til þess að byggja stöðvar —  einkum við Mexíkóflóa — til að flytja út gas. Gas er notað til orkuframleiðslu með bruna víða um lönd, en Bandaríkin eru nú orðin stærsti útflytjandi á gasi heiminum, eftir mikinn vöxt undanfarinna ára.  Umsóknir um ný leyfi til slíkra útflutningsstöðva samsvöruðu því að yfir 300 ný kolaver hefðu tekið til starfa í veröldinni með tilheyrandi áhrifum á loftslagið. 

Joe Biden hefur nú sett þessi áform á ís. Ekki verða veitt fleiri slík leyfi í bili. Áður veitt leyfi standa þó óbreytt. Hann tilkynnti þessa ákvörðun sína þann 26. janúar, en hennar hafði verið lengi beðið.  Umhverfissamtök fögnuðu þessari ákvörðun mjög, og hún er talin til þess fallinn að efla fylgi Joe Bidens á kosningaári á meðal framsækinna demókrata og yngri kjósenda. Að sama skapi hafa repúblikanar lýst yfir megnri óánægju með þessa ákvörðun. 

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í tilefni ákvörðunarinnar segir að þetta hlé verði notað til þess að meta í víðu samhengi áhrif gasútflutnings á orkuöryggi og orkuverð í Bandaríkjunum og hvaða áhrif útflutningurinn hefur á umhverfið.  Bandaríkjastjórn líti svo á að loftslagsváin sé þess eðlis að hún beinlínis ógni tilvist mannkyns og að ekki sé lengur líðandi að sérhagsmunir ráði för þegar loftslagsváin er annars vegar. 

Í yfirlýsingunni er jafnframt áréttuð sú stefna núverandi stjórnvalda að leggja áherslu á uppbyggingu hreinnar orkuframleiðslu og skapa með því efnahagsleg tækifæri og ný störf. 

Þessi ákvörðun kemur í rökréttu framhaldi af lokayfirlýsingu síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Dubai, þar sem loksins var minnst á nauðsyn þess að mannkynið léti af notkun jarðefnaeldsneytis, en slíkt hafði ekki ratað inn í lokaákvarðanir þingsins áður í tæplega 30 ára sögu þess.

Hér er áformum gasframleiðenda um aukin umsvif og aukna framleiðslu settur stóllinn fyrir dyrnar, sem er sjaldgæft í Bandaríkjunum, en kannski til vitnis um breytta tíma. Í bili að minnsta kosti. Ljóst er að nái Donald Trump kjöri í forsetakosningunum í nóvember mun hann umsvifalaust, miðað við yfirlýsingar, vinda ofan af þessari ákvörðun. Eins er líka óljóst hversu lengi þessi pása muni vara, nái Joe Biden kjöri. 

Af yfirlýsingu Hvíta hússins má ráða að Biden muni freista þess að safna nógum rökstuðningi, út frá umhverfissjónarmiðum og efnahagssjónarmiðum, til þess að draga varanlega úr útflutningi á gasi og auka framleiðslu á hreinorku. Tíminn á svo eftir að leiða í ljós hvort honum verði kápan úr því klæðinu. Þrýstingur gasframleiðenda er jú sterkur. 

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …