Samfélagsmiðlar

Feimni drengurinn sem varð einn sá besti á fótboltavellinum

Kevin De Bruyne var kallaður feimni fótboltastrákurinn frá Drongen þegar hann kom til Genk 14 ára gamall. Drongen er smábær vestur af Brüssel og þar hóf hann knattspyrnuferil sinn sex ára gamall. Þótt hann væri ekki hár í loftinu var fljótlega ljóst Kevin De Buyne væri óvenju efnilegur knattspyrnumaður.  

Kevin de Bruyne sækir fram - MYND: Manchester City

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að fara að æfa fótbolta. Kevin var einstaklega feiminn og inn í sig. Því voru foreldarnir mjög tregir að sleppa hendinni af honum. Þeim þótti þetta ansi djarft af honum að ætla að standa á eigin fótum svona ungur, kannski einum of djarft. „Ég hef alltaf verið hræðilega feiminn og stilltur. Ég átti mjög fáa vini. Ég fékk útrás í fótboltanum en þar var ég uppstökkur. Fótbolti var mitt líf. Að flytja burt frá fjölskyldunni og ganga til liðs við fótboltaakademíuna í Genk breytti lífi mínu. Og það var ekki auðvelt.“  

Sex ára kappar í liði Drongen. Kevin De Bruyne er annar frá vinstri í neðri röð – MYND: KDB CUP

Lífið í Genk

Fyrsta árið bjó Kevin De Bruyne á gistiheimili þar sem hann hafði lítið herbergi til umráða með mjóu rúmi, litlu borði og slitnum vaski. „Í Genk var ég nýi strákurinn frá hinum enda Belgíu sem talaði undarlega mállýsku. Ég var gífurlega feiminn og það var ekki til að gera hlutina auðveldari fyrir mig. Ég stundaði ekkert félagslíf og ég var ekki í samskiptum við neina fyrir utan fótboltavöllinn. Við fengum bara frí á sunnudögum og þá tók ég lestina beinustu leið heim til foreldra minna. Ég hef aldrei verið eins einmana og fyrstu tvö árin í fótboltaakademíunni í Genk. Ég var hræðilega einmana,“ sagði Kevin De Bruyne í löngu viðtali við The Player’s Tribune.

 „Eftir fyrsta árið bauðst mér að flytja inn á fjölskyldu sem fékk borgað fyrir að leyfa mér og tveimur öðrum strákum frá akademíunni að dvelja hjá þeim. Lífið varð þægilegra fyrir mig. Mér gekk vel í skólanum, mér gekk vel á fótboltaæfingunum. Ég átti ekki í útistöðum við neinn. Og var ekki með neitt vesen. Ég var áfram mikið einn en ég hélt að allt væri í lagi. Í lok skólaársins pakkaði ég saman föggum mínum og fór heim í sumarfrí. Ég kvaddi fjölskylduna sem ég bjó hjá og þau sögðu: Sjáumst eftir sumarfrí. En um leið og ég kom inn út dyrunum heima hjá foreldrum mínum fann ég að eitthvað var ekki í lagi. Mamma grét, stemmningin var þrúgandi og ég hélt satt að segja að einhver hefði dáið. Ég spurði auðvitað hvað væri að og ég fékk þau svör frá mömmu sem hefur sennilega mótað allt mitt líf þaðan í frá.

„Þau vilja ekki fá þig aftur, fósturfjölskyldan vill ekki að þú flytjir aftur til þeirra. Þau segja að þú sért alltof þegjandalegur og þeim finnst erfitt að eiga samskipti við þig. Þau segja að þú sért erfiður. Þau vilja þig ekki vegna þess hvernig þú ert.“

„Ég legg allt í sölurnar.“

Þau vilja þig ekki vegna þess hvernig þú ert. Þessi orð sátu í hinum unga, feimna manni og það var þarna sem Kevin De Bruyne ákvað að hann skyldi leggja allt í sölurnar til að verða framúrskarandi knattspyrnumaður. Í fótbolta var hann glaður og naut sín. Þar var lífið í hans huga. Eftir heimkomuna frá Genk stóð hann tímunum saman og  sparkaði bolta í vegg og sagði upphátt við sjálfan sig: „Allt á eftir að vera gott. Ég ætla að vera kominn í aðalliðið hjá Genk innan tveggja mánaða og ég ætla ekki að koma aftur heim næsta sumar sem misheppnaður náungi. Ég legg allt í sölurnar.“

Í sumarlok sneri Kevin De Bruyne svo aftur til Genk. Hann hafði í lok fyrsta ársins í akademíunni rétt sloppið inn í varaliðið. „Ég var algjört nóboddí þegar ég kom aftur en ég æfði eins og brjálæðingur. Það var svo mikil heift inni í mér. Ég var hreinlega brjálaður.“

En svo gerðist það sem Kevin De Bruyne hafði beðið eftir. Varalið Genk lék föstudagskvöld eitt í byrjun hausts. Kevin byrjaði á bekknum og fylgdist þaðan með leiknum. Í upphafi seinni hálfleiks var honum skipt inn á. Og þá gerðist það. 

Með hjarta knúið áfram af reiði.

„Ég man að ég hljóp inn á völlinn og ég fann að ég var gersamlega viti mínu fjær af reiði. Mér fannst eins og hjarta mitt væri knúið áfram af óstjórnlegri heift. Ekkert fékk mig stöðvað, inni í mér brann allt mitt reiðibál og ég skoraði fjögur mörk í þessum eina hálfleik. Eftir þessa uppákomu var ekki aftur snúið. Ég var fljótlega valinn í aðalliðið og það var ekki liðinn nema einn mánuður af nýja tímabilinu.“

En þótt Kevin næði markmiði sínu og komst fljótt í aðallið Genk fylgdi honum lengi sá orðrómur að hann væri erfiður náungi. „Alla mína tíð í Genk, líka þau fjögur ár sem ég spilaði í aðalliði Genk og meira að segja eftir að ég skrifaði undir samninginn við Chelsea, var ég hjúpaður einhverri áru sem gaf til kynna að erfitt væri að umgangast mig. Þannig var talað um mig.“

Sambandið við José Mourinho

Kevin De Bruyne var 21 árs þegar stórliðið Chelsea keypti rauðhærða miðjumanninn frá Genk. Við stjórnvölin hjá Chelsea á þessum tíma var enginn annar en goðsögnin José Mourinho. „Það var mikið talað um samband mitt við Mourinho fyrsta árið hjá Chelsea og mér fannst ég undir gífurlegu álagi vegna þeirrar athygli. Allt var hreinn tilbúningur. Í sannleika sagt talaði ég bara tvisvar sinnum við Mourinho. Það hafði alltaf verið gert ráð fyrir að ég færi á lánssamning fyrsta árið og það gekk eftir. Ég skrifaði undir lánssamning við Werder Bremen í þýsk deildinni árið 2012 og það var mjög ánægjulegur tími.“

Í ónáð.

Kevin De Bruyne byrjaði að blómstra í Werder Bremen og mörg þýsk knattspyrnufélög í Bundesligunni veittu þessum hæfileikaríka Kevin De Bruyne athygli og vildu fá hann til liðs við sig. Jürgen Klopp, sem þjálfaði Dortmund á þessum tíma, vildi ólmur fá rauðhærða miðjumanninn til Dortmund en lið hans spilaði einmitt þann fótbolta sem Kevin De Bruyne þótti eftirsóknarverður. Hann vonaði því að Chelsea leyfði honum að ganga til liðs við félag Klopps. En Mourinho var ekki á því að sleppa Kevin De Bruyne og sendi honum SMS: „Þú ferð ekkert, þú verður hér. Ég vil hafa þig í mínu liði.“

Kevin var í sjálfu sér ánægður með þessi skilaboð og þótti frábært að Mourinho gerði ráð fyrir honum í áætlunum sínum. Á undirbúningstímabilinu hjá Chelsea gekk allt vel. Kevin var bjartsýnn og var í byrjunaruppstillingunni í tveimur af fjórum æfingaleikjum liðsins. Hann spilaði að eigin sögn ágætlega, ekki frábærlega, en í fjórða æfingaleiknum byrjaði hann á varamannabekknum og sat þar allan leikinn. Þar sat hann næstu mánuði án þess að fá neina skýringu á því hvers vegna hann væri fallinn í ónáð. 

„Ég veit að ég var alltof einfaldur. Ég var ungur og óreyndur. Ég skildi ekki alveg hvernig atvinnumaður í efstu deild í Englandi á að vera; hvernig tannhjólin virka. Fólk áttar sig ekki á því að þegar maður er ekki í náðinni fær maður miklu minni athygli á æfingasvæðinu. Hjá sumum félögum er það eins og þú sért ekki lengur til. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Þegar ég svo loks fékk tækifæri til að sýna mig í leik móti Swindon í bikarkeppninni var ég alveg úr keppnisformi og ég var svakalega lélegur í leiknum.“

Í desember þetta ár var Kevin De Bruyne kallaður til samtals við José Mourhino á skrifstofu þjálfarans. Þetta reyndist verða örlagaríkur fundur. José hafði prentað út frammistöðuskýrslur sem lágu fyrir framan hann á skrifborðinu og þegar Kevin De Bruyne settist niður sagði Mourinho: „Ein stoðsending. Ekkert mark. Tíu sinnum hefurðu unnið boltann.“ Síðan komu niðurstöður fyrir hina miðjumennina, Oscar, Mata, Willian, Schürrle … fimm stoðsendingar, tíu mörk … eða eitthvað. „Þú ert sá sjötti í röðinni núna en ef Mata verður seldur verður þú fimmti.“

Byltingin í Wolfsburg

Kevin De Bruyne komst að þeirri niðurstöðu að Chelsea hafði ekki lengur áhuga á að hafa hann í liðinu og fór fram á að félagið seldi hann. Og það varð niðurstaðan. Þýska liðið Wolfsburg vildi hann og kaupverðið var tvöfalt hærra en Chelsea hafði borgað fyrir að fá hann á sínum tíma.

Nú var staðan önnur fyrir Kevin De Bruyne. Í rauninni breyttist allt. Hann fór beint inn í byrjunarlið Wolfsburg, skoraði mörk á færibandi og átti ótal stoðsendingar; svo margar að hann fékk fljótlega viðurnefnið „stoðsendingakóngurinn“.

 „Allt umturnaðist í Wolfburg, ekki bara vegna þess að mér gekk betur á leikvellinum, heldur aðallega vegna þess að ég eignaðist kærustu sem nú er konan mín. Hún hjálpaði mér að vaxa og dafna. Ég hef sennilega aldrei sagt það upphátt hversu margt ég á henni að þakka, ekki einu sinni við hana sjálfa. Ég veit ekki hvað ég mundi gera án hennar,“ sagði Kevin De Bruyne í viðtali við The Player’s Tribune. „Það er svo neyðarlegt, og líka fyndið, að segja frá því hvernig við kynntumst. Ég viðurkenni að ég hika við að gera það opinbert. En það var þannig að ég hafði skrifað eitthvað um fótboltaleik á Twitter og þessi unga kona frá Genk brást við skrifum mínum. Ég hafði þá bara örfáa fylgjendur á Twitter. Vinur minn benti mér á svar ungu konunnar sem honum fannst líta vel út og hvatti mig til að senda henni skilaboð. Það vildi ég alls ekki. Hvers vegna ætti hún að hafa áhuga á skilaboðum frá einhverjum fótboltamanni í Wolfsburg. En vinur minn tók símann af mér,  skrifaði skilaboð og spurði hvort hann ætti að senda beint til hennar. Og í einhverju kæruleysiskasti sagði ég: „OK, fínt, sendu bara.“

Michele Lacroix – MYND: Sportskeeda

Sem betur fer svaraði hún og næstu mánuði skiptust þau tvö á textaskilaboðum. Allt þróaðist á besta veg og nú eru Kevin De Bruyne og Michele Lacroix hjón og eiga saman þrjú börn. 

Svo kom Pep Guardiola.

En Jürgen Klopp var ekki eini frægi þjálfarinn í Bundesligunni á þeim tíma sem Kevin De Bruyne sló í gegn í Wolfsburg. Pep Guardiola var þjálfari Bayern München og fékk strax áhuga á rauðhærða miðjumanninum í Wolfsburgliðinu. En það var þó ári áður en Pep Guardiola kom til Manchester City að Kevin De Bruyne skrifaði undir samning við lið Manchester City. Á þeim tíma varð hann næstdýrasti leikmaður ensku deildarinnar. 

Fyrsta ár Kevin De Bruyne hjá Manchester City var ágætt. Liðið lenti í fjórða sæti ensku deildarinnar og Kevin lék í 25 af 38 leikjum liðsins. Árið eftir var Pep Guardiola ráðinn sem þjálfari liðsins. 

„Á fyrsta fundi okkar Pep sagði hann: Kevin, þú getur auðveldlega orðið einn af fimm bestu knattspyrnumönnum heims. Auðveldlega. Pep sagði þetta af slíkum sannfæringarkrafti að ég fann að afstaða mín til sjálfs mín og til knattspyrnunnar gjörbreyttist. Ég varð fyrir hugljómun. Pep er snillingur. Nú skyldi ég sanna að hann hefði rétt fyrir sér í staðinn fyrir að sýna honum að honum skjátlaðist. Fótbolti snýst meira og minna um neikvæða orku og ótta. En með Pep er allt ótrúlega jákvætt.“

Lífið hefur tekið miklum umskiptum hjá Kevin De Bruyne eftir að hann kom aftur til Englands og fór að spila með Manchester City. Hann er afgerandi leikmaður fyrir lið sitt og hann er ekki lengur jafn feiminn og inni í sig, þökk sé konu hans. Hann hefur látið forspá Pep Guardiola rætast um að verða einn af allra bestu knattspyrnumönnum heimsins.

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …