Samfélagsmiðlar

„Frámunalega vitlausar útgáfuaðferðir eyðileggja tekjumöguleika forlaga og höfunda“

Í dag, föstudaginn 9. febrúar, klukkan 15:00 verður haldin ráðstefna í Veröld – húsi Vigdísar á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins um stöðu bókarinnar á Íslandi. Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra, heldur framsögu og Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins, mun meðal annarra flytja erindi og fjalla um breytingar á alþjóðlegum bókamarkaði og framtíðarhorfur. Og það eru sannarlega blikur á lofti í heimi útgáfunnar bæði á Íslandi og úti í heimi. Sennilega getur íslenskur bókamarkaður lært margt af bókamörkuðum í nágrannalöndum okkar.

Í víðfrægri bókabúð, Memoranda í Caen í Frakklandi, ríkir gamli andinn - MYND: ÓJ

Í gær bar það til tíðinda á danska bókamarkaðinum að tvö af stærstu bókaforlögum landsins, Gyldendal og Lindhardt  & Ringhof, skiluðu ársreikningi fyrir árið 2023. Uppgjöranna hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu því árið 2023 einkenndist af töluverðum óróa á bókamarkaðinum. Danskir rithöfundar mótmæltu, kvörtuðu hástöfum undan bágum kjörum og kröfðust þess að fá stærri hluta af greiðslum streymisveitnanna fyrir notkun á höfundaverkum þeirra. Í mótmælaskyni lögðu sumir þeirra bann við að hljóðbókum þeirra væri dreift til streymisveitnanna.

Það kom því nokkuð á óvart að bæði Gyldendal og Lindhardt & Ringhof sýndu bæði töluvert mikinn rekstrarbata á árinu sem leið. Gyldendal skilaði 36 milljónum danskra króna. í hagnað en hafði árið áður tapað 51 milljón. Velta bókaforlagsins var 720 milljónir.

Gyldendal er stærsta bókaútgáfa Danmerkur – MYND: Gyldendal

Árið 2023 var metár hjá Lindhardt & Ringhof. Aldrei fyrr hafa rekstartekjur fyrirtækisins verið jafn háar og árið 2023, heilar 706 milljónir danskra króna. Hagnaður ársins var 56 milljónir. 

Þessar góðu rekstrarniðurstöður koma að loknu ári meðbyrs og andstreymis. Kórónaárin voru mjög hagstæð bóksöluár. Danskir bókmenntaáhugamenn þustu út í bókabúðir og keyptu bækur sem aldrei fyrr; nýttu einangrun og samfélagshöft til að sökkva sér niður í bókalestur. En í kjölfar kórónafaraldursins þurftu bókaforlögin að berjast við aukinn framleiðslukostnað: pappír varð dýrari, prentkostnaður hækkaði og bóksalan minnkaði snarlega. 

En á síðari hluta ársins 2023 hefur bóksala enn á ný tekið sölukipp. Forstjóri Lindhardt & Ringhof, Lars Boesgaard, segir að sérstaklega hafi síðustu þrír mánuðir ársins 2023 verið góðir og einkenndust þeir af betri sölu í bókabúðum, meiri notkun á streymisveitum og sala námsbóka gekk vel. 

Greinilegt er að bæði hjá Gyldendal og Lindhardt & Ringhof vegur sala á stafrænum bókum þyngra með hverju árinu sem líður. Velta hjá dótturfyrirtæki Gyldendal, hljóðbókaforlaginu WAPI, jókst um 42 prósent á árinu og hjá Lindhardt & Ringhof kemur helmingur allra tekna frá stafræna markaðinum. 

Lars Boesgaard, forstjóri Lindhardt&Ringhof – MYND: L&R

Blaðamaður dagblaðsins Politiken spurði Lars Boesgaard forstjóra Lindhardt & Ringhof hvort þessi góða afkoma og milljónahagnaður væri ekki köld tuska í andlit rithöfundanna, sem hafa síðustu ár haldið því fram að þeir væru í raun hlunnfarnir af streymisveitunum og bókaforlögunum.

Boesgaard sagði að aldrei hefði fyrirtæki hans borgað hærri upphæð undir liðnum höfundalaun. En hann bendir jafnframt á að Lindhardt & Ringhof hefði – öfugt við marga samkeppnisaðila á danska bókamarkaðinum – gætt þess að hljóðbækur og pappírsbækur kæmu ekki út á sama tíma til að tryggja sem mesta sölu á pappírsbókunum. Prentaðar bækur gefa meira í hönd en hljóðbækurnar og væri því skynsamlegt að gefa pappírsbókunum rúman tíma til að seljast áður en hljóðbókin færi inn á vörulista streymisveitnanna. 

„Að gefa hljóðbækur út á sama tíma og pappírsbækurnar koma á markað, – eins og mörg dönsk bókaforlög gera –  er gersamlega óskiljanlegt. Þetta er jafn vitlaust og gefa út innbundna bók en setja kiljuútgáfu bókarinnar samtímis á markaðinn. Hin stafræna útgáfa er hin nýja kilja. Þetta er því stórkostlegur afleikur hjá mörgum bókaforlögum að gefa hljóðbækurnar út samtímis og prentuðu bækurnar. Þessi frámunalegi vitlausa útgáfuaðferð eyðileggur tekjumöguleikana bæði hjá forlaginu og höfundinum. Maður þarf ekki að vera sérstaklega slyngur bissnessmaður til að skilja þetta. En höfundarnir hafa sjálfsagt gleymst í öllum ákafanum,“ sagði Lars Boesgaard.

Forstjóri Gyldendal Hanne Salomonsen segir að Gyldendal vinni líka með þá hugmynd að bíða með útgáfu stafrænna bóka og gefa pappírsbókinni tíma til  að seljast. Þar að auki hafi Gyldendal tekist að ná fram betri samningum við Storytel. Afleiðingar þess samnings hafa þó valdið Gyldendal vonbrigðum  því Storytel fjarlægði þúsundir bókatitla útgefnum af Gyldendal í kjölfar undirritunar samningsins.

Hanne Salomonsen, forstjóri Gyldendal – MYND: Gyldendal

„Ég er sannfærð um að höfundarnir séu glaðir að sjá að bókaforlagið sé aftur farið að skila hagnaði. Það veitir öryggiskennd og trú. En það er mikil vinna framundan að gera hina stafrænu útgáfu gjöfulli en hún hefur verið hingað til,“ sagði Hanne Salomonsen í samtali við Politiken. 

Það er einmitt þetta verkefni sem bíður íslenska markaðarins; hvernig er hægt að gera stafræna markaðinn gjöfulli þegar allt stefnir í að í framtíðinni muni stafræn útgáfa taka æ meira pláss og verða stærri hluti af efnahag íslensku bókaútgáfunnar. 

Sum íslensk forlög hafa stundað það sem Lars Boesgaard kallar „frámunaleg vitlausa útgáfuaðferð sem eyðileggur tekjumöguleika bæði hjá forlagi og höfundum,“ þegar bækur eru settar inn á streymisveitu á sama tíma og prentaða útgáfan kemur út. Ekki væri fráleitt að ráðstefnugestir í Veröld veltu þeirri spurning fyrir sér hvernig auka megi tekjumöguleika forlaga og höfunda á tímum vaxandi stafrænnar bókaneyslu og hvort að skynsamlegt sé að hvetja íslensk forlög til að bíða með að leggja nýjar bækur inn á streymisveiturnar. 

SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …