Samfélagsmiðlar

„Litli maðurinn“ vinnur sigur í Þýskalandi

MYND: X (Hooligans.CZ)

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur upp í bestu deild en Hansa Rostock sem áður lék í austur-þýsku deildinni er næst neðst og berst fyrir að halda sér í deildinni. 

Í sjálfu sér eru hvorki útslit leiksins né staða liðanna í deildinni sem fer í sögubækurnar. Þetta var bara fótboltaleikur eftir allt saman. En á fimmtugustuogþriðju mínútu leiksins hófst skyndilega mikil árásarhrina frá áhorfendum á áhorfendapöllunum sem höfðu fjölmennt á völlinn. Hundruðum tennisbolta var skyndilega hent inn á völlinn, gullhúðuðum súkkulaðipeningum var kastað á eftir leikmönnum og tveimur fjarstýrðum bílum á risastórum gúmmídekkjum var beint á fullri ferð inn á leikvanginn. Einhverjum áhorfendum hafði tekist að smygla þessum ofurhraðskreiðu leikfangabílunum í bakpoka inn á völlinn. Við bílana voru festar öflugar reykbombur. Annar bíllinn þaut eins og elding um rennisléttan grasvöllinn og spúði gífurlega þykkum bláum reyk upp í loftið og hinn bíllinn spúði frá sér hvítum reyk. Blár og hvítur eru litir Hansa Rostock. 

Leikurinn var stöðvaður og leikmenn liðanna, sem voru hálfvilltir í reykjarþokunni, enda sáu þeir varla nema nokkra sentímetra til hvorrar handar, þustu inn í búningsklefa sína og vallarstarfsmenn hlupu eins og hálfblindar hænur á eftir hinum reykspúandi leikfangabílum og reyndu að stöðva þá. Eftir langan eltingarleik tókst að velta bílunum á hliðina og slökkva í reykbombunum. 

Þetta var ekki í fyrsta sinn í vetur sem áhangendur þýskrar knattspyrnu trufla leiki í fyrstu og annarri deild með mótmælaaðgerðum gegn nýjum samningum deildarinnar við útlendan peningasjóð. Fjölmargir leikir hafa verið stöðvaðir í lengri og skemmri tíma síðustu vikur vegna mótmælanna. Menn eru þó sammála um að nákvæmlega þessi leikur milli Hansa Rostock og HSV sem hefði verið kornið sem fyllti mælinn.

Ráðamenn Deutsche Fußball Liga, sem rekur Bundesliguna, ákváðu eftir leikinn að slíta samræðum sínum við alþjóðlega fjármagnssjóðinn CVC Partners sem hafði boðist til að sprauta mörgum milljörðum inn í þýsku knattspyrnuna gegn því að fá hluta af sjónvarpsréttindum af útsendingum þýskra fótboltaleikja næstu tuttugu árin. 

CVC Partners ráða þegar yfir sýningarrétti frá La Liga (spænsku deildinni), Liga 1 (frönsku deildinni), WTA Tour (alþjóðleg tennismótaröð) og Six Nations Rugby-leikunum sem njóta þegar mikilla vinsælda. 

Þýskum fótboltaáhorfendum var skítsama um alla þá peninga sem CVC Partners veifuðu fyrir framan þá og þau loforð peningamannanna um að þýska knattspyrnan færi upp á næsta vinsældarstig. Vald peninganna hefur aldrei verið vel séð á meðal þýskra fótboltaáhugamanna. Sagt er að peningar séu lyktarlausir en þýskum fótboltaáhugamönnum þóttu peningarnir frá CVC Partners gefa frá sér þrúgandi skítalykt. 

Þessar árangursríku aðgerðir fótboltaáhugamanna hafa víða vakið töluverða athygli. Sumum finnst það mjög uppörvandi að „litli maðurinn“ geti með friðsamlegum og jafnvel svolítið fyndnum mótmælum látið skoðanir sínar í ljós og staðið gegn valdi peninganna. 

En hugtakið „litli maðurinn“ hefur alltaf svolítið undarlegan hljóm þegar maður tengir hugtakið við Þýskaland. Vogi maður sér að segja „litli maðurinn“ upphátt meðal Þjóðverja berst talið nær umsvifalaust að árunum upp úr 1930 og hversu hreyfing kennd við „lítinn mann“ getur endað á miklum villigötum. 

Það gerðist nefnilega sama dag og CVC Partners tóku föggur sínar og héldu heim til skrifstofu sinnar í Lúxemborg með alla peningana að þýsku FORSA-stofnunni gaf út nýja skyrslu þar sem bent er á hversu óþægilega margt í þýskum stjórnmálum nútímans minnti á það pólitíska ástand sem ríkti á tímum Weimar-lýðveldisins á fjórða áratug síðustu aldar. Almenningur (og fótboltaáhorfendur) eru orðnir dauðþreyttir á hinum stóru meginstraumsflokkum í Þýskalandi eins og CDU og SPD og flykkjast þess í stað að öfgafyllri hreyfingum eins Alternative für Deutschland sem er mjög langt á hægri í stjórnmálum.

En ætli það sé hætta á fótboltaáhugamenn noti sínar aðferðir til að hylla nýja hægri hreyfingu? Er sagan ekki næg viðvörun til að koma í veg fyrir að þýsku öfgahægri hreyfingunni vaxi aftur fiskur um hrygg? 


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …