Samfélagsmiðlar

Íbúar endurheimti gamla bæinn

Ferðafólk í gamla bænum í Dubrovnik - MYND: Unsplash/Albert Hyseni

Dubrovnik er sögufræg og mögnuð borg sem laðar til sín mikinn fjölda ferðamanna en eins og algengt er með slíkar borgir þá hafa vinsældirnar komið niður á lífsgæðum íbúanna. Ferðamannaprísar og leiguokur hafa hrakið stóran hluta íbúanna á brott, eins og gerst hefur annars staðar þar sem litlar hömlur eru á umsvifum ferðaþjónustu. Nú vilja borgaryfirvöld í Dubrovnik snúa þessari þróun við og laða að gamla og nýja íbúa. Þetta er þó ekki einfalt mál.

Dubrovnik er á Heimsminjaskrá UNESCO og í flokki með þeim áfangastöðum sem milljónir manna víðsvegar um heiminn vilja heimsækja einhvern tímann á lífsleiðinni. Formfögur borgin stendur við klettótta strönd Adríahafsins og sogar til sín farþega af skemmtiferðaskipum, aðra skipulagða ferðahópa og almennt ferðafólk árið um kring. Tekjurnar koma sér vel fyrir króatíska ríkiskassann – en gera lífið vart bærilegt fyrir þá íbúana sem eftir eru í gömlu borginni. Áætlað er að þar séu á ferli 36 túristar á móti einum íbúa flesta daga.

MYND: Unsplash

Ferðafólkið gengur upp og niður þröngar götur Dubrovnik frá morgni og fram á kvöld – þegar það leggst loks til hvílu í íbúðum sem áður tilheyrðu íbúum – venjulegu fólki. Nú er svo komið að heimamenn eru í einungis 30 prósentum íbúða í gamla bænum, sem er orðinn helsta fórnarlamb troðningstúrisma í Evrópu. Ástandið er verra en í Feneyjum og Barselóna.

Þegar Júgóslavía leystist upp og Króatía lýsti yfir sjálfstæði 1991 bjuggu um 5 þúsund manns árið um kring í gamla bænum í Dubrovnik en nú eru þar aðeins um 1.200 hræður. „Unga fólkið yfirgefur okkur og fer annað af því að það verður ekki lífvænlegt í Dubrovnik,“ segir Mato Frankovik, borgarstjóri, í viðtali við Reuters. 

Búist er við að borgarstjórn Dubrovnik samþykki í apríl hömlur á útgáfu nýrra leyfa til útleigu íbúða í miðborginni. Borgarstjórinn segir að þetta sé gert til að mæta verndarkröfum UNESCO. Borgin kaupir nú íbúðir á markaði sem boðnar verða barnafjölskyldum á 10 ára leigusamningi og um leið hefur verið lagt bann við skammtímaleigu í fjölbýlishúsum. 

MYND: Unsplash/Mana5280

Íbúar Dubrovnik eiga það sameiginlegt með Ísfirðingum að telja skipafarþegafjöldann stundum yfirþyrmandi. Árið 2018 var raunar sett 4.000 farþega hámark á dag í Dubrovnik. Frankovik borgarstjóri segir: „Við ætlum að verja sögulegan arf borgarinnar og gera fólki kleift að búa hér og verja tíma sínum.“

Auðvitað eru skiptar skoðanir meðal íbúa og hagsmunaðila um takmarkanir á útleigu til ferðamanna. Þau sem stunda þau viðskipti segja skömminni skárra að leigja ferðamönnum íbúðir heldur en að fjölgað verði hótelum í grenndinni. Einn íbúinn í gamla bænum, Marija Trojenovic, segir hinsvegar við Reuters: „Fáið fólk aftur í bæinn af því að það er fólk sem skapar bæjarfélag.“

Gamli bær Dubrovnik innan múrsins og næsta nágrenni – MYND: Unsplash/Spencer Davis

Nýtt efni

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …