Samfélagsmiðlar

ICELANDIA í fullum rétti

„Umbjóðandi minn hefur því ekki á nokkurn hátt brotið gegn meintum vörumerkjarétti Icelandia ehf., þar sem hann er einfaldlega ekki til staðar," segir María Kristjánsdóttir, lögmaður Ferðaskrifstofu Kynnisferða, í aðsendri grein.

María Kristjánsdóttir, lögmaður hjá LEX.

Nýlega úrskurðaði Hugverkastofan í tveimur málum er varða vörumerkið ICELANDIA. Niðurstaða málanna er áhugaverð í ljósi þess að forsvarsmaður félagsins Icelandia ehf. hefur um skeið farið mikinn í fjölmiðlum um meintan einkarétt á notkun orðsins Icelandia í atvinnustarfsemi og meðal annars sakað umbjóðanda minn um margvísleg brot gegn meintum réttindum hans og félagsins. Félagið Icelandia ehf. tók upp firmaheitið Icelandia ehf. í febrúar 2022, en hét áður Bluelandia ehf. Starfsemi félagsins samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins felst aðallega í framleiðslu á drykkjarvörum af ýmsu tagi.

Niðurstaða beggja mála er félaginu Icelandia ehf. í óhag eins og við var að búast og því áhugavert að tæpa aðeins á helstu atriðum beggja mála.

Annars vegar er um að ræða kröfu umbjóðanda míns, Ferðaskrifstofu Kynnisferða ehf., um niðurfellingu skráningar vörumerkisins Icelandia. Um er að ræða vörumerki, svokallað orð- og myndmerki, sem var skráð árið 1991 fyrir nánar tilteknar drykkjarvörur. Vörumerki eru ávallt skráð fyrir ákveðnar vörur og þjónustu í sérstökum flokkum og einkaréttur eiganda merkisins takmarkast við þær vörur eða þjónustu sem merkið er skráð fyrir. Þá veitir skráning orð- og myndmerkis, eins og í þessu tilviki, eiganda merkisins einkarétt á notkun merkisins í atvinnustarfsemi fyrir hinar skráðu vörur, en aðeins í nákvæmlega þeirri útfærslu sem skráð er og aðeins hér á Íslandi. Skráningin í þessu tilfelli veitir því ekki einkarétt á notkun orðsins Icelandia einu og sér.

Vörumerkjalög áskilja að eigandi skráðs vörumerkis þarf að hefja notkun þess innan fimm ára frá því að skráningarferli lauk eða á fimm ára tímabili áður en niðurfellingarkrafa er lögð fram. Sönnunarbyrðin fyrir vernd merkisins snýst því við og það er á ábyrgð eiganda merkisins að sýna fram á notkun í samræmi við ákvæði laganna. Í því máli sem hér um ræðir tókst eiganda merkisins, Icelandia ehf., ekki að sýna fram á nein gögn um notkun merkisins, hvorki á síðustu fimm árum áður en krafan um niðurfellingu var lögð fram, né nokkra notkun á skráningartímabilinu í heild. Hugverkastofan féllst því á kröfu umbjóðanda míns og felldi
skráningu merkisins úr gildi með úrskurði þann 31. janúar síðastliðinn.

Hins vegar er um að ræða mál er varðar vörumerki umbjóðanda míns, orðmerkið KYNNISFERÐIR ICELANDIA, en merkið var skráð í júní 2023 fyrir ferðaþjónustu í flokki 39. Icelandia ehf. lagði fram andmæli gegn skráningu merkisins. Andmælin byggðu á því að skráningin skapaði ruglingshættu við nokkur skráð merki andmælanda sem innihalda orðið ICELANDIA, sem og því að Icelandia ehf. ætti betri rétt til vörumerkisins ICELANDIA á grundvelli notkunar.

Hugverkastofan komst að niðurstöðu í málinu með úrskurði þann 14. febrúar síðastliðinn. Hugverkastofan féllst ekki á að Icelandia ehf. ætti nokkurn rétt til merkisins á grundvelli notkunar, þar sem engin gögn um notkun voru lögð fram af hans hálfu undir meðferð málsins. Þá taldi Hugverkastofan, þrátt fyrir að orðið ICELANDIA kæmi fram í ýmsum merkjum andmælanda, að orðið sem slíkt skorti sérkenni og aðgreiningarhæfi og teldist lýsandi. Ruglingshætta væri því ekki fyrir hendi og skráning merkisins KYNNISFERÐIR ICELANDIA skyldi halda gildi sínu.

Af framangreindu verður ráðið að umbjóðandi minn er í fullum rétti til að nota vörumerkið ICELANDIA, enda á félagið Icelandia ehf. og aðilar tengdir því félagi engan vörumerkjarétt til orðsins. Umbjóðandi minn hefur því ekki á nokkurn hátt brotið gegn meintum vörumerkjarétti Icelandia ehf., þar sem hann er einfaldlega ekki til staðar.

Af gefnu tilefni er ennfremur rétt að taka fram að firmaheiti og vörumerki er ekki sami hluturinn og réttindin sem í þeim felast eru af ólíkum toga. Þá gilda ólík lög um firmaheiti og vörumerki, auk þess sem mismunandi stjórnvöld hafa eftirlit með og framfylgja þeim lögum sem um ræðir, Fyrirtækjaskrá Skattsins hvað varðar firmaheiti og Hugverkastofan í tilviki
vörumerkja.

Hvergi er kveðið á um skyldu fyrirtækja í atvinnurekstri að firmaheiti þeirra og vörumerki sem notað er til auðkenningar á starfseminni sé hið sama. Þekkjast þess enda fjölmörg dæmi hérlendis þar sem firmaheiti félags er eitt en vörumerki sem notað er um starfsemina er allt annað.

Vissulega getur verið samspil á milli þessara réttinda. Samkvæmt ákvæðum vörumerkjalaga má ekki skrá vörumerki ef í merkinu felst eitthvað sem gefur tilefni til að ætla að átt sé við heiti á virkri atvinnustarfsemi. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins, eins og endranær, er að um líka eða svipaða starfsemi sé að ræða til að ruglingshætta sé fyrir hendi. Við mat á því hvort ruglingshætta sé á milli vörumerkis og heitis á atvinnustarfsemi skiptir meginmáli að heiti starfseminnar hafi sérkenni og aðgreiningarhæfi, að vörumerkið sé eins eða líkt heiti starfseminnar og að tengsl séu milli þess sviðs sem fyrirtækið starfar á og þeirrar vöru eða þjónustu sem vörumerkið óskast skráð fyrir. Firmaréttur getur því aldrei komið í veg fyrir að annar stofni til vörumerkjaréttar yfir sama eða líku heiti þegar starfsemin er ólík, líkt og er tilfellið hér.

Auk þess hefur Hugverkastofan komist að þeirri niðurstöðu að orðið ICELANDIA uppfylli ekki skilyrði vörumerkjalaga um sérkenni og aðgreiningarhæfi eitt og sér. Notkun umbjóðanda míns á vörumerkinu ICELANDIA brýtur því ekki með nokkrum hætti gegn rétti Icelandia ehf. sem eiganda firmaheitisins.

Báðir úrskurðir og greinargerðir aðila eru aðgengilegir í heild sinni á vefsíðu Hugverkastofunnar.

Höfundur er lögmaður á LEX og gætir hagsmuna Ferðaskrifstofu Kynnisferða ehf., sem starfar undir vörumerkinu ICELANDIA

Nýtt efni

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …