Samfélagsmiðlar

Kínverjar í fótspor Japana

BYD er með höfuðstöðvar í Shenzhen í Kína - MYND: Unsplash/Darmau

Fyrir um hálfri öld hófst fyrir alvöru sókn japanskra bílaframleiðenda inn á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Síðar styrktu þeir stöðu sína og svöruðu viðskiptahindrunum og pólitískri andstöðu einfaldlega með því að gerast þegnar í þessum fjarlægu löndum – reistu verksmiðjur, sköpuðu atvinnu á sjálfum markaðssvæðunum. Litlir og sparneytnari bílar á dögum olíukreppunnar slógu í gegn á Vesturlöndum og skapaðar voru mikilvægar forsendur fyrir efnahagslegri velsæld Japana.

Þó japanskur bílaiðnaður sé enn mjög sterkur á heimsvísu er samkeppnisstaðan önnur og flóknari nú en á síðasta fjórðungi liðinnar aldar. Ein veigamesta breytingin er auðvitað framrás Kínverja. Þeir mæta hinsvegar meiri tortryggni og pólitískri andstöðu en Japanar áður. Fyrir því eru pólitískar, sögulegar og menningarlegar ástæður. Staða Kínverja er flókin. Þeir reka smíðaverkstæði heimsins, ef svo má segja, framleiða að hluta eða að öllu leiti bíla, bílahluta eða annan tækjabúnað sem aðrir þurfa nauðsynlega á að halda til að ljúka sínum verki – en svo hanna þeir og framleiða að fullu sjálfir eigin bíla og til útflutnings. Rafbílaframleiðsla heimsins treystir að verulegu leyti enn á rafhlöður frá Kína. Þykir stjórnmálamönnum í Evrópu og Bandaríkjunum nóg um það í hversu góða aðstöðu kínverskir framleiðendur eru komnir – ekki bara markaðslega, heldur beinast áhyggjur ekki síst að öryggismálum tengdum tæknibúnaði eins og í bílum og því hvernig Kínverjar geti nýtt sér greiðan aðgang að vestrænum samfélögum.

Á síðasta ári fluttu Kínverjar út rafbíla og blendinga fyrir um 40 milljarða dollara. Um 8 prósent allra rafbíla sem Evrópumenn keyptu komu frá Kína. Rannsóknaþjónusta Evrópuþingsins áætlar að ef fer fram sem horfir verði hlutur kínverskra rafbílaframleiðenda orðinn 15 prósent á næsta ári. Þessi vöxtur er hraðari en hjá japönskum bílaframleiðendum á síðustu öld. Það sem er sammerkt er að „gestirnir“ bjóða nýja tækni og lægra verð. Áður voru það smávaxnir og sparneytnir bensínbílar frá Japan, nú eru það rafbílar frá Kína – ódýrari en evrópskir eða amerískir framleiðendur geta skaffað.

Kínverjar hafa sterk tök á allri aðfangakeðju rafbílaframleiðslu sinnar og eru ógnarsnöggir að þróa og bæta alla þá tækni sem þarf til að búa til jafn flókinn hlut og rafbíl – sem þar að auki fellur kröfuhörðum neytendum á Vesturlöndum í geð hvað varðar útlit. BYD er sá kínverski framleiðandi sem lengst hefur náð og nú er komið að því að svara pólitískri mótstöðu með klókum hætti. Og þá er fetað í fótspor Japana.

Fjárfestingabankinn UBS hefur áætlað að BYD geti framleitt rafbíla í Evrópu fyrir um fjórðungi lægra verð en rótgrónustu keppinautarnir í álfunni ráða við. Munurinn er enn meiri ef BYD framleiðir bílana í heimalandinu, Kína. Evrópusambandið unir ekki við þennan mikla verðmun og sakar Kínverja um ríkisstuðning við framleiðendur sína og markaðsundirboð. Á sama tíma ströggla Kínverjar við efnahagslægð heimafyrir. Þeir verða að sækja enn frekar á erlenda markaði.

Á sínum tíma heftu Bandaríkjamenn og síðan Evrópumenn sókn japanskra bílaframleiðenda inn á markaði þeirra með innflutningskvótum. Eitt svar Japana við því var að reisa verksmiðjur á níunda áratugnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Smám saman margfaldaðist bílaframleiðsla Japana á þessum fjarlægu slóðum. Um aldamótin voru fleiri japanskir bílar framleiddir í Bandaríkjunum en þeir sem fluttir voru þangað. Nú virðast Kínverjar ætla að beita sömu aðferð. BYD tilkynnti undir lok síðasta árs að reist yrði verksmiðja í Ungverjalandi. Ítalska ríkisstjórnin hefur verið í viðræðum við BYD, en líka Chery og Great Wall Motor, um samstarf, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þá er SAIC sem framleiðir MG sagt áhugasamt um að hefja framleiðslu í Evrópu. BYD skoðar líka möguleikana vestanhafs. Tilkynnt var í febrúar að fyrirtækið leitaði að heppilegri staðsetningu fyrir rafbílaverksmiðju í Mexíkó. Áætlað er að framleiða þar um 150 þúsund bíla á ári. Og þó BYD segist eingöngu miða þær fyrirætlanir við markaðinn sunnan landamæra Bandaríkjanna þá er augljóst að kínverski framleiðandinn styrkir sig enn frekar strategískt í baráttunni við Tesla.

Margar gindranir eru á vegi þeirra kínversku bílaframleiðenda sem vilja ná fótfestu á Vesturlöndum. Eitt er að laga sig að smekk Evrópubúa og öðlast traust þeirra, hitt er snúnara að mæta pólitískri andúð og tortryggni. Biden-stjórnin í Bandaríkjunum gerði Kínverjum skráveifu með lögum um aðgerðir gegn verðbólgu, sem miðast að því að efla innlenda framleiðslu og tækniþróun – á kostnað innflutnings, ekki síst frá Kína. Þá var tilkynnt í febrúar að hafin væri rannsókn á nýrri kynslóð nettengdra bíla frá Kína. Virðast þeir ætla að falla í flokk með Tik Tok og Huawei, sem sæta ásökunum um að vera misnotuð af kínverskum yfirvöldum til óeðlilegrar upplýsingaöflunar. Fleiri ágreiningsefni mætti nefna í samskiptum Bandaríkjastjórnar við Kínverja. Mikið er í húfi fyrir BYD og fleiri framleiðendur. Það yrði skellur fyrir BYD að geta aðeins fylgt japanska módelinu í Evrópu en hrekjast út af Bandaríkjamarkaði, sem er stærri og vaxtarmöguleikar þar meiri.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …