Samfélagsmiðlar

Losun Íslands: Bílarnir, skipin, ruslið og ropið

Ferðamaður og rúta - MYND: ÓJ

Senn líður að því að ný aðgerðaráætlun í loftslagsmálum verði kynnt á Íslandi, en fjögur ár eru liðin síðan núgildandi aðgerðaráætlun var uppfærð. Búist er við að hin nýja aðgerðaráætlun líti dagsins ljós á allra næstu dögum eða vikum. Áhugafólk um loftslagsmál er því æði spennt þessa dagana. 

Það er auðvitað upplagt meðan beðið er, að fara aðeins yfir stöðuna eins og hún er. Hvernig hafa Íslendingar staðið sig í loftslagsmálum hingað til? Markmið aðgerðaráætlunar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það dugar ekkert minna en minnst tvær greinar um þetta mikla efni. Þetta er sú fyrri. Við spyrjum: Hefur Íslendum tekist vel að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Ef ekki, hvað er þá langt í land? Hvað þarf að gerast?

Skoðum málið. 

Stutta svarið er þetta: Frá 1990 — sem er það ár sem er notað til viðmiðunar í markmiðssetningu Íslands og annarra þjóða — hefur losun gróðurhúsalofttegunda innan lögsögu Íslands aukist um 28 prósent. 

Þessi aukning er auðvitað í þveröfuga átt miðað við það sem stefnt er að. Markmið Íslands er að draga úr losun um 55 prósent fyrir 2030 miðað við 1990. Þetta er í samræmi við nýjasta markmið Evrópusambandsins, en Ísland tekur þátt í stefnumörkun og aðgerðum ESB í loftslagsmálum.   Einungis eitt og hálft kjörtímabil er til stefnu þar til 2030 rennur upp, og vegna aukningar í losun hefur verkefnið ekki minnkað, heldur vaxið mjög: Nú þarf að draga úr losun um 65 prósent á sex árum, miðað við losunarmagnið eins og það er orðið nú, til þess að ná markmiðinu. 

Spurningin blasir við: Er þetta ómögulegt verkefni?

Skoðum fyrst smá skilgreiningar, til þess að greina verkefnið betur: Ekki er sama losun og losun. Losun Íslands skiptist í þrjá flokka. Auðvitað skiptir alltaf mestu máli fyrir umhverfið einfaldlega hvaða heildarlosun á sér stað í hagkerfinu, þegar allt er tekið saman — öll losun mengar — en til þess að gera verkefnið viðráðanlegra er losuninni skipt niður. 

Bílastæði á Völlunum í Hafnarfirði. Í baksýn stígur reykur úr strompi – MYND: ÓJ

Undir einn flokkinn fellur losun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Þar er þá einkum fernt sem hefur áhrif: Útblástur frá orkunotkun í samgöngum, sumir iðnaðarferlar, útblástur frá meðhöndlun sorps og útblástur frá landbúnaði. Þetta eru semsagt einkum púströr bílanna og strompar skipanna, frysting sjávarafurða, urðun ruslsins og rop dýranna, með svolítilli einföldun. Þessi losun nam um 2,8 milljón tonnum af koltvísýringsígildum árið 2021, sem er síðasta árið sem staðfestar tölur liggja fyrir um, en bráðabirgðatölur eru til um 2022. Þær sýna hækkun. 

Svo er það flokkur tvö, sem er losun sem fellur undir svokallað viðskiptakerfi Evrópusambandins með losunarheimildir. Það sem skiptir máli fyrir Ísland, er að þarna undir er staðbundinn iðnaður, svokallaður, en það eru einkum álverin þrjú og kísilverksmiðjurnar. Þessi losun nam 1,8 milljónum tonna árið 2021. Samtals var því losun Íslands, úr hagkerfinu, um 4,6 milljón tonn árið 2021.

Og áður en við kynnum til sögunnar þriðja flokkinn, skulum við sjá hvernig Ísland hefur staðið sig þegar kemur að þessum tveimur flokkum. Kerfið er þannig sett upp að til þess að ná markmiðinu um 55 prósenta samdrátt í losun fyrir árið 2030, miðað við 1990, þarf Ísland annars vegar að ná tilteknum markmiðum — sem Evrópusambandið ákveður — varðandi fyrri flokkinn og svo þarf Evrópa öll, með sínu viðskiptakerfi, að ná tilteknum árangri með flokk tvö. Og þess ber að geta að allt alþjóðaflug í álfunni er í þeim flokki líka, en Ísland er með smá undanþágu frá því í bili. Á næsta ári munu líka skipaflutningar falla undir þetta kerfi.

En svona er þá semsagt búið að skipta stóra markmiðinu niður í tvö minni. Varðandi fyrri flokkinn, losunina á ábyrgð Íslands, hefur Ísland undirgengist markmið um samdrátt í losun um 29 prósent fyrir 2030, og líklega mun það markmið hækka í kjölfar væntanlegs endurmats. Og varðandi seinni flokkinn, að þá hefur ESB sett það markmið að samdráttur þar verði 62 prósent fyrir 2030.  Þessar prósentutölur — svo málið sé flækt aðeins — hafa hins vegar annað viðmiðunarár. Þær miðast við 2005, en það er árið sem þessi flokkaskipting var tekin upp og viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir var kynnt til sögunnar. 

Þannig að, svo við tökum þetta saman: Til þess að ná 55 prósenta samdrætti miðað við 1990 þarf Ísland að minnka útblástur á eigin ábyrgð um minnst 29 prósent miðað við 2005 — líklega meira — og útblástur í staðbundnum iðnaði um 62 prósent. 

Bátar í Ísafjarðarhöfn – MYND: ÓJ

Skoðum þá árangurinn. Við spyrjum fyrst: Hvernig hefur Íslandi gengið að draga saman þá losun sem er á beinni ábyrgð Íslands?

Það er sumpart ánægjulegt að segja frá því að Íslendingum hefur tekist að minnka þessa losun um 12 prósent. Mestu munar um það að losun frá orkunotkun — bílarnir og skipin og það allt — hefur dregist saman um 17 prósent frá 2005, nær eingöngu vegna betri orkunýtingar fiskiskipa. Líka skiptir máli að losun frá sorpi hefur dregist saman um 21 prósent. Jafnvel þótt útblástur frá landbúnaði og iðnaði hafi aukist á tímabilinu, þá er heildarniðurstaðan samdráttur. Umhverfisstofnun spáir því að markmiðið um 29 prósenta samdrátt muni ekki nást fyrir 2030, en verði þó ekki langt frá því, eða 26 prósent. Miklu máli mun skipta hvernig orkuskipti í samgöngum, bæði á sjó og landi, muni takast. 

En hér er þó mikilvægt að hafa í huga að þetta markmið mun að öllum líkindum hækka. Markmiðið um 55 prósenta samdrátt miðað við 1990 hefur nefnilega tiltölulega nýlega verið sett, en það var áður 40 prósent. Talan 29 prósent miðaðist við 40 prósenta markmiðið, en enn á eftir að reikna hvert markmiðið verður að vera nú þegar stefnt er á 55 prósent. Ekki er ólíklegt að það hækki jafnvel um einhver 10 prósentustig eða meira.

Engu að síður er útblástur þó að minnka þegar kemur að losun í beinni ábyrgð Íslands, og þar eru líka sóknarfæri, þótt langt sé í land. Eins og áður segir hefur skipaflotinn leitt samdráttinn í útblæstri á undanförnum árum. Orkunotkun í samgöngum er langstærsti hluti þeirrar losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands og það skiptir því miklu máli hvað gerist þar. Losun frá fiskiskipum hefur minnkað um 23 prósent frá 2005 og því er spáð að minnkunin verði alls orðin 38 prósent árið 2030. Hin mikla losun frá vegasamgöngum hefur hins vegar ekki minnkað, svo vitað sé. Árið 2021 hafði losunin vaxið um 11 prósent. Umhverfisstofnun telur þó líkur á að útblástur frá vegasamgöngum muni hafa minnkað um 7-12 prósent árið 2030. Hér skiptir miklu máli hvernig til tekst við rafbílavæðingu bílaflotans.

 

Heyjað fyrir eyfirskan búpeninginn – MYND: ÓJ

Það er fróðlegt að skoða aðra flokka líka. Útblástur frá landbúnaði er meiri en útblástur frá fiskiskipum. Alls losaði landbúnaður 620 þúsund tonn árið 2021, en fiskiskipaflotinn 574 þúsund tonn. Losun frá landbúnaði hafði aukist um 2 prósent frá 2005. Stærsti hlutinn af losun í landbúnaði á upptök sín í iðragerjun skepna, en þaðan fara um 320 þúsund tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið á ári hverju, og áætlanir gera ekki ráð fyrir að þetta minnki að neinu marki, jafnvel ekki fyrir miðja öld. Þrátt fyrir vaxandi, og ótvíræðar, vísbendingar um að heimurinn þurfi að hverfa frá slíkum hefðbundnum dýralandbúnaði, yfir í aðra minna mengandi matvælaframleiðslu — eins og grænmetisrækt — þá virðist íslenska landbúnaðarkerfið hoggið í stein. Það er athyglisvert. 

Svo er það sorpið.  Meðhöndlun alls úrgangs losaði 268 þúsund tonn árið 2021, og skiptir þá langmestu máli útblásturinn sem hlýst af urðun sorps, sem losaði 207 þúsund tonn. Meðhöndlun skólps losaði 49 þúsund tonn. Áætlað er að útblástur frá meðhöndlun úrgangs muni minnka og þá einkum vegna betri meðhöndlunar úrgangs. Bann við urðun á lífrænum úrgangi skiptir þarna miklu máli. 

Þróun er í rétta átt, þó svo samdrátturinn þurfi að vera miklu meiri. Þegar kemur að flokki tvö, þessum sem varðar staðbundna iðnaðinn — og er innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir — vandast svo málið allverulega.  

Og málið er ekkert mikið einfaldara þegar þriðja flokknum er svo bætt við, sem varðar losun vegna landnotkunar og kolefnisbindingu í jarðvegi, plöntum og skóglendi. 

Við skoðum það allt saman í næstu grein. 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …