Samfélagsmiðlar

Losun Íslands: Ókeypis útblásturinn og blessuð moldin

Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartamga

Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga 5. mars 2024 -MYND: ÓJ

Við höldum áfram að rýna í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Hvernig er Ísland að standa sig? Ný aðgerðaráætlun í loftslagsmálum er að koma út og allir spenntir.  Í fyrri greininni fórum við yfir hvernig losunartölunum er skipt í þrjá flokka, og við skoðuðum fyrsta flokkinn, sem er losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands. Þar kom í ljós að losunin hefur vissulega minnkað, en þó er enn verulega langt í land til þess að ná markmiðum og skuldbindingum. 

Nú ætlum við að skoða flokk númer tvö, sem er sú losun úr hagkerfinu sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, eða svokallað ETS kerfi (emission trading system).  Til þess að ná markmiðum um 55 prósenta losun miðað við 1990, fyrir árið 2030, hefur ESB — og þar með Ísland — ákveðið að samdráttur í losun innan þessa kerfis skuli nema 62 prósent miðað við útblásturinn eins og hann var árið 2005. 

Þessi flokkur varðar Íslendinga einkum vegna þess að undir hann fellur stóriðjan, hvorki meira né minna. Reyndar fellur millilandaflug, og að hluta innanlandsflug, undir þennan flokk líka, en um flugið hafa gilt sérreglur ýmiss konar og undanþágur, þótt horfur séu á að það sé í undanhaldi. Í þágu einföldunar hefur fluginu verið haldið utan við þessa umfjöllun — líkt og gert hefur verið í losunarbókhaldi Íslands en þar er það tekið út fyrir sviga — þótt útblástur frá alþjóðafluginu sé þó auðvitað ákaflega stórt hlutfall af heildinni. Og svo ber að geta þess að skipaflutningar munu falla undir þetta kerfi frá og með 2025. 

En hvað um það. Skoðum þennan flokk: Útblásturinn sem fellur undir viðskiptakerfið. Það er stóriðjan. Og við spyrjum: Hvernig gengur að draga úr útblæstri í þessum flokki á Íslandi og hverjar eru horfurnar? 

Hér er stutta svarið: Útblástur í þessum flokki hefur aukist um 116 prósent frá 2005. Og í gögnum Umhverfisstofnunar er áætlað að fyrir árið 2030 muni hann ekki minnka, heldur hafa þá aukist upp í 123 prósent.  

Það er allnokkuð. Þótt þessi útblástur heyri undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, þá er hann samt hluti af útblæstri Íslendinga og það er áríðandi í viðureigninni við loftslagsvána að þessi losun fari niður.  Og þá er von að spurt sé: Hvaða útblástur er þetta og hvernig á hann að minnka?  

Lang umfangsmestu losunaraðilarnir í þessum flokki eru álverin þrjú, auk Elkem á Grundartanga og PCC á Bakka. En auk þess falla undir þennan flokk, með miklu minni losun, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði og gagnaverið Verne Global. 

Norðurál á Grundartanga

Norðurál á Grundartanga – MYND: ÓJ

Alls losaði þessi staðbundni iðnaður sem fellur undir þennan flokk ríflega 1,8 milljón tonn árið 2021. Þessi losunarflokkur er því um 65 prósent af losuninni sem er á beinni ábyrgð Íslands, frá bílunum, skipunum, sorpinu, landbúnaðinum og því öllu. Og eins og áður segir er hér um að ræða, að langstærstum hluta, losun frá fimm aðilum. 

Pælingin með viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er sú að stórmengandi aðilar kaupi heimildir til að losa. Ákveðnum fjölda eininga er úthlutað í samevrópskan pott og svo ganga þessar losunareiningar kaupum og sölum. Á hverju ári minnkar magn eininganna, þannig að framboðið af einingum verður minna og einingarnar verða þá dýrari ef eftirspurnin er mikil. Hugsunin er sú að þetta kerfi skapi hvata fyrir stórmengandi aðila til þess að minnka mengun sína, finna upp nýja tækni og aðferðir og verða almennt loftslagsvænni í rekstri sínum. 

Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga. Skip í höfninni. Tekið handan Hvalfjarðar.

Grundartangahöfn og Járnblendiverksmiðjan – MYND: ÓJ

Smám saman muni því losunin frá þessum aðilum trappast niður, og í núgildandi markmiðum er semsagt gert ráð fyrir að til þess að Ísland standi við sitt, þurfi þessi stórmengandi iðnaður á Íslandi að trappa sig niður um 62 prósent miðað við 2005, og viðskiptakerfið muni sjá til þess að sá árangur náist. Þessi tala var áður 43 prósent, en hefur nýverið hækkað. 

Þetta er ekki að gerast og fá teikn eru á lofti um að þetta muni gerast. Hið evrópska viðskiptakerfi virðist ekki vera að bíta mikið á íslensku stóriðjuna. Ein stærsta ástæðan er tiltölulega augljós: Hún er sú að losunarheimildum til þessara fyrirtækja hefur að langmestu leyti verið útdeilt ókeypis. Þau hafa lítið þurft að borga fyrir mengun sína. Frá 2013 til 2020 hafa stóriðjufyrirtækin fimm fengið úthlutað um 1,5 milljón tonnum á meðaltali á ári af losunarheimildum til þess að losa út í andrúmsloftið ókeypis. Þetta eru um 11,7 milljón tonn af gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu öllu.  

Vegna þess að þetta er jú viðskiptakerfi, að þá má líka skoða þessar tölur með hliðsjón af áætluðu verðmæti. Ef verð á losunareiningu, sem er tonn, væri í kringum 3.000 krónur, sem telst lágt, þá eru þetta heildarverðmæti upp á 35 milljarða íslenskra króna.  Verð á tonnið hefur sveiflast mjög, en farið yfir 15 þúsund krónur á köflum, þannig að þessi upphæð er líklega mun hærri. Meginreglan er sú, í viðskiptakerfi Evrópusambandins, að þessar upphæðir — sem eiga að endurspegla kostnaðinn sem felst í því að menga — renni til ríkissjóða landanna og nýtist þar að stærstum hluta til að bregðast við loftslagsvánni og fjármagna loftslagsaðgerðir. 

Álver Rio Tinto í Straumsvík – MYND: ÓJ

En Ísland er semsagt ekki alveg þar. Engar slíkar upphæðir eru að renna í ríkissjóð vegna sölu losunarheimilda, þótt eitthvað komi vissulega inn vegna þátttöku Íslands í kerfinu.  Ástæðuna fyrir því að losunarheimildum er útdeilt ókeypis er að finna í ákvæði evrópska regluverksins, þar sem kveðið er á um að bregða megi verndarvæng yfir þá geira sem líklegir eru til þess að flytjast annað, burt frá Evrópu, ef losunarkostnaður yrði of íþyngjandi. Þetta er kallað kolefnisleki. Álver og kísill hefur fallið undir þetta ákvæði. Það hefur því mátt skjóta þannig skjólhúsi yfir slíka starfsemi, með það að markmiði að halda henni í álfunni. 

Ekki er gott að segja hvort fyrirtækin færu í fússi ef þau þyrftu að borga. Evrópusambandið stefnir að því að draga smám saman úr magni endurgjaldslausra, úthlutaðra losunarheimilda. Markmiðið er að þær verða engar árið 2030. Ef það rætist er ljóst að aðilarnir fimm sem hér um ræðir, og smærri aðilarnir líka, og reyndar alþjóðaflugið að auki, mun þurfa að greiða miklar upphæðir fyrir losun sína þegar þar að kemur. Sem myndi þá ef til vill leiða til minni losunar. Það er alla vega hugsunin. 

En allt þetta er sveipað mikilli óvissu, virðist vera. Þessi kerfi eru kvik og þau eru sífellt að breytast og erfitt að rýna í alls konar sérákvæði sem skjóta upp kollinum. Munu Íslendingar fá einhvers konar sérákvæði, eins og stjórnvöld hafa oft og iðulega fengið, til þess að hlífa stórmengandi iðnaði og starfsemi áfram eftir 2030? 

Lykilatriðið er það, að ef það verður niðurstaðan, og stærstu losunaraðilarnir munu ekki þurfa að draga úr sinni losun á Íslandi — fáir hvatar verði í raun til þess, því losunin er að mestu ókeypis — að þá munu markmið Íslands í loftslagsmálum varla nást. Skoðum reikningsdæmið. 

Umferð í Ártúnsbrekku

Umferð í Ártúnsbrekku – MYND: ÓJ

Losun Íslands var 3,6 milljón tonn árið 1990. Markmiðið er að losun ársins 2030 verði 55 prósentum minni en það. Heildarlosunin má því vera um 1,6 milljón tonn ef markmiðið á að nást. Það er um það bil jafnmikið og álverin þrjú, auk Elkem og PCC, losa á ári. Ef þau halda áfram að losa eins og þau hafa gert er ljóst að ekkert annað á Íslandi má losa neitt, ekki örðu árið 2030, ef markmiðið á að nást. 

Það er óraunhæft. Líka má spyrja hver sanngirnin yrði í þeirri sviðsmynd. Eiga ekki allir að taka jafnan þátt í þessu risastóra samfélagslega verkefni sem blasir við? Þurfa ekki allir, líka stærstu aðilarnir, að draga hlutfallslega úr sinni losun jafnt og þétt? 

Það virðist blasa við að þetta þurfi að ræða ofan í kjölinn, ætli Ísland að ná árangri. Að lokum skulum við henda inn einni breytu sem getur líka haft veruleg áhrif á heildarmyndina. Losuninni er jú skipt í þrjá flokka, eins og farið var yfir í fyrri greininni. Skoðum núna þriðja flokkinn. 

Sunnlensk sumarfegurð – MYND: ÓJ

Í flokki þrjú er sú losun sem hlýst af allri landnotkun, skógrækt og öllum breytingum á landnotkun. Stundum er þessi flokkur ekki hafður með, en ESB hefur þó innleitt regluverk sem kveður á um að þessi flokkur verði tekinn mun meira með í reikninginn.  Um hann gilda svolítið önnur lögmál, því erfiðara er að leggja mat á þennan útblástur svo vel sé. Það er samt gert og aðferðirnar verða alltaf betri og betri. Þetta er langstærsti losunarliður Íslendinga. Talið er að vel yfir 9 milljón tonn streymi út í andrúmsloftið á ári hverju vegna þess hvað íslenskur jarðvegur og gróður er í slæmu ásigkomulagi, og bindur því ekki það kolefni sem hann annars ætti að gera. 

Hugsanlega getur Ísland rétt úr kútnum og náð að endurheimta votlendi og rækta upp jarðveg og skóga, sem eykur kolefnisbindingu. Blessað birkið, sem sprettur nánast af sjálfu sér sé land látið óráreitt, bindur kolefni. Moldin er fjársjóður þegar kemur að þessu líka. Binding í gróðri og jarðvegi er talin nema nú um 500 þúsund tonnum á ári sem kemur þá til frádráttar í losunarbókhaldinu. Þessi tala hefur hækkað mjög frá 1990, þegar hún var metin um 30 þúsund tonn. Samkvæmt núgildandi áætlunum og áformum er talið að árleg kolefnisbindingin muni hækka í 900 þúsund tonn fyrir 2050, en áætlanir um frekari aukningu en það liggja ekki fyrir. 

En hér eru sóknarfæri, ef vel er haldið á spöðunum. 

Humlur leita ætis í skógræktarreit í Haukadal – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …